Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

HREÐJAR OG HRYÐJUVERK

Íslenskir bloggarar ofreyna sig ekki fremur en venjulega að ræða skelfilega viðburði erlendis. Egill Helgason er eini bloggarinn sem mér vitanlega hefur rætt morðárásirnar í París.

Árásarmennirnir eru aldeilis karlar í krapinu, með risahreðjar, þeir ráðast á varnarlaust fólk eins og sönnum karlmennum sæmir.

Flest bendir til að hetjurnar  séu tengdar ISIS, samtökum sem hafa komið á ógnarstjórn í Norður-Írak og víða í Sýrlandi.

Aðgerðirnar virðast hefnd fyrir loftárásir Frakka á IS-„kalífatið“.

Vesturlönd og múslimaheimurinn

Þá kann einhver að spyrja hvort Vesturlönd kalla ekki yfir sig hryðjuverk með heimskulegri og jafnvel heimsvaldasinnaðri pólitík í löndum múslima.

Vissulega var innrásin í Írak imperíalískt feigðarflan, án hennar væri „kalifat“ ISIS-liða ekki til.

Og vissulega er stuðningur Bandaríkjanna við leiðindaríki eins og Sádí-Arabíu þeim til lítils sóma.

Einnig einhliða stuðningur við Ísrael.

Sömuleiðis  valdaránið í Íran árið 1953 sem Kanar og Bretar báru mikla ábyrgð á.

Einnig svik Frakka og Breta við Araba og Kúrda eftir fyrir heimsstyrjöld, þeir lofuðu þeim sjálfsstæði en stóðu ekki við það nema að litlu leyti.

Þá spyr einhver hvort  Vesturlönd og/eða vestræn auðfyrirtæki hafi arðrænt þessar þjóðir.

 Það er engan veginn ljóst, hefðu Vesturlandabúar ekki fundið upp bensínmótorinn, olíuvinnslutæki og margt fleira væri olían í Miðausturlöndum lítils virði.

Væru Vesturlandabúar ekki svona sólgnir í olíu væru olíuríki Miðausturlanda örfátæk.

Þökk sé henni býr almenningur á arabaskaganum við allgóð lífskjör, það þótt bróðurpartuinn af olíugróðanum lendi í vasa valdastéttarinnar.

Þess utan hafa arabar líka arðrænt Evrópu, sjóræningjar frá Alsír eru taldir hafa rænt einni og hálfri milljón manns á sautjándu og átjándu öld og rústað heilu byggðarlögin.

Samt  er viss sannleikskjarni í arðránskenningunni. Fyrstu áratugi olíuvinnslunnar sáu innfæddir lítið af gróðanum, þá hefði kannski verið hægt að réttlæta einhvers konar vopnað andóf gegn Vestrinu.

En um 1950 risu upp stjórnmálamenn í Miðausturlöndum sem kröfðust réttlátrar skiptingar á gróðanum og fengu sínu framgengt. Þó ekki þrautalaust.

 OPEC samtökin ráku svo smiðshöggið og sáu til þess að olíufénu yrði ekki dælt úr landi.

Fátækt og hryðjuverk

Margir sósíalistar hafa trúað því að fátækt væri orsakavaldur hryðjuverka. En af hverju stunda þá ekki hinir örfátæku Haítíbúar hryðjuverk í Frakklandi?

Á nítjándu öldinni neyddu Frakkar hið nýsjálfsstæða Haíti að borga sér himinháar upphæðir fyrir sykurekrurnar í landinu, rétt eins og franskir landeigendur hefðu ekki grætt nóg á þeim.

Haítiíbúar voru í meira en öld að borga „skuldina“ og mikla vexti af henni, afleiðingin var að landið sökk niður í hrikalega fátækt.

http://faculty.webster.edu/corbetre/haiti/misctopic/leftover/whypoor.htm

Af hverju koma hryðjuverkamennirnir ekki frá bláfátækum afrískum löndum?

Af hverju stunda indverskir öreigar ekki terrorisma?

Terroristarnir eru  velflestir runnir frá múslímskum ríkjum og eru öfgaíslamistar. En fæstir þeira eru af fátækum stigum, meginterroristinn Osama bin Laden var milljarðamæringur.

Eftirmaður hans, Ayman al-Zawahari,  er velmenntaður læknir af efri millistétt.

Flugræningjarnir 11. september höfðu ráð á að mennta sig á Vesturlöndum, það geta  arabískir fátæklingar ekki.

Rússland og múslimar

Bandaríski álitsgjafinn Daniel Pipes sagði einhvern tímann að örfátækt fólk í múslimaríkjum væri oft ekki sérlega trúað heldur væri biturt út í almættið.

Betri stéttar menn réðu lögum og lofum í hryðjuverkasamtökum, fátæklingar væru aðallega sendisveinar þeirra.

Hann sagði það furðulegan fjanda að terroristarnir réðust ekki á Rússland, Rússar hefðu drepið miklu fleiri múslima en Vesturlönd.

Hann segir að eina skýringin á þessu sé sú að öfgaíslamistar öfundi hin tiltölulega velheppnuðu og auðugu Vesturlönd.

Þeir geti ekki skilið hvers vegna hinum óguðlegu vegni betur en múslímum sem eigi sjálfkrafa rétt á auði og völdum. En hið fátæka og mislukkaða Rússlandi veki ekki slíka öfund, þess vegna láti þeir Rússa í friði (Pipes sagði þetta fyrir rúmum áratugi).

En norska dagblaðið Aftenposten hefur aðra skýringu. Blaðið sagði nýlega  að Rússar hafi hefnt sín svo grimmilega á hryðjuverkamönnum að þeir þori ekki í þá.

Um 1985 hafi hryðjuverkamenn í Líbanon rænt sovéskum borgurum. KGB brást skjótt og hart við, rændi nánum skyldmennum terroristahöfðingjanna, pyntuðu og drápu.

Og sendu terroristahöfðingjunum líkamsparta skyldmennina og geltu  náfrænda eins hryðjuverkaforingjans.

Það er sennilega rétt hjá Pipes að Rússar og áður Sovétmenn hafi verið stórtækari í múslimadrápum en Vesturlandabúar.

Rússar fóru eyðandi eldi um hina múslimsku Tséténu og drápu á bilinu 15-30% íbúanna. Um þetta má lesa í bók Önnu Politkovskaju Ferð til helvítis, óhugnanleg ferðasaga frá hinni gjöreyðilögðu Tséténu (af hverju hafa atvinnumótmælendur aldrei mótmælt framferði Rússa í Tséténu?)

Nefna má að innrás Sovétríkjanna í Afghanistan kostaði u.þ.b. eina milljón óbreyttra borgara lífið, Svétmenn drápu langflesta þeirra.

Fyrstu öfgaíslömsku hryðjuverkasamtökin urðu til í Afghanistan sem andsvar við innrás Sovétmanna, bera þeir þá ekki mikla ábyrgð á öfgaíslamismanum?

Miklu færri  Afghanar hafa fallið í eftir innrásina 2001 og segja Sameinuðu þjóðirnar að 75% fallinna, óbreyttra borgara hafi verið fórnarlömb Taliban.

Á fyrstu áratugunum eftir síðara heimsstríð döðruðu margir leiðtogar í múslímskum ríkjum við Sovétríkin og tóku upp ýmsa af ósiðum þeirra.

Egypski einræðisherrann Nasser var bandamaður Sovétríkjanna. Stefna hans var blanda af sósíalisma og þjóðrembu.

Hann hrakti Grikki og Gyðinga úr landi en þeir voru hryggjarstykkið í viðskiptalífi landsins. Ofan á bættist Sovétinnblásinn della í efnahagsstjórn, afleiðingin var efnahagsleg stöðnun.

Alsír og Suður-Jemen gengu  jafmvel lengra í sovéska átt með hörmulegum afleiðingum fyrir efnahagslífið.

Írak og Sýrland voru líka bandaríki Sovétsins og stældu margt í stefnu þess en olíuauðurinn bjargaði þeim frá hruni.

Ein af ástæðunum fyrir uppgangi öfgaíslamista í þessum löndum eru vonbrigði með þjóðernisstefnu og sósíalisma.

Tæpast er það sök Vesturlanda.

Það er alls ekki hægt að útiloka fátækt víða í þessum löndum sé sök Sovétríkjanna og Rússland.

Sé fátækt uppspretta hryðjuverka mætti fullt eins gera þessi fúlu ríki ábyrg eins og hin illu Vesturlönd.

Öfgaíslamisminn og hreðjarnar

Vart er það sök Vesturlanda að  íslamskir öfgamenn drepi miklu fleiri múslima en aðra, ekki síst þá múslima sem þeir telja villutrúarmenn.

Tyrkneskur kunningi minn segir að  meginorsök hryðjuverkanna sé sú staðreynd að íslam sé túlkað með alræðislegum hætti í Miðausturlöndum.

En ekki í Austur-Asíu, það kann að vera skýringin á því að  aðeins örfáir hryðjuverkamenn koma frá múslímskum löndum  í Austur-Asíu eins og Malasíu og Indónesíu.

Eyjan.is birti merkileg frétt fyrir nokkrum mánuðum. Þar segir að ISIS bjóði þræla til sölu á Netinu, lítil börn kosta mun meir en hinir fullorðnu. Talið að  er að börnunum sé ætlað verða kynlífsþrælar enda mun  barnaníð útbreitt í löndum múslima.

Það stafi ekki sísta af kynferðilegum bælingum, ungir menn geti ekki fengið eðlilega útrás fyrir kynhvatir sínar vegna hins stranga kynlífssiðferðis sem rökstutt er með tilvísun til íslam.

http://archive.frontpagemag.com/readArticle.aspx?ARTID=25196

 

Þeir laðist að ISIS m.a. vegna að samtökin bjóða upp á kynlífsþræla og konur til giftinga. Ekki má gleyma trúnni á að þeir fái 70 hreinar meyjar paradís ef þeir deyi sem píslarvottar (píslarvotti er í hugum þeirra það sama og hryðjuverkamaður).

Hvaða ungi maður er ekki tilbúinn til að leggja hvað eina á sig til að komast í slíka kynlífsparadís? 

Hreðjarnar ráða ferðum margra ungra karla.

Lokaorð

Niðurstaðan er sú að ekki er hægt firra íslam alveg af ábyrgð á hryðjuverkum, alla vega ekki þá túlkun sem algengust er í Miðausturlöndum.

Kynlífsbæling af trúarlegum toga er sennilega ein af mörgum skýringum á terrrorisma.

Ekki verður séð að fátækt sé meginorsök hryðjuverka, heldur ekki að Vesturlönd hafi kallað þau yfir sig nema að litlu leyti.

Sovétríkin sálugu og Rússland bera jafnvel meiri ábyrgð á mörgu því sem miður fer í löndum múslima.

Þess utan geta íbúarnir sjálfir ekki endalaust firrt sjálfa sig ábyrgð. Enda skilja skynsamir múslimar það.

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni