Hinir fokríku og Borgunarmaðurinn
Erlendur nokkur Magnússon mun vera stjórnarformaður Borgunar og því
réttnefndur „Borgunarmaður“ (vonandi líka borgunarmaður með litlum staf). Hann geysist nú fram á ritvöllinn og vegur að Oxfam. Oxfam hefur haldið því fram að átta ríkustu menn heimsins eigi jafn miklar eignir og fátækasti helmingur mannkynsins. Erlendur leiðir ýmis rök að því að þetta sé villandi og skal ekki útilokað að eitthvað sé til í því. En ég hnaut um eina staðhæfingu Erlendar, þá að flestir áttmenningana hafi orðið svona ríkir vegna þess að almenningur víðast hvar á hnettinum hafi viljað kaupa varninginn sem þeim framleiddu.
Ofurauður, klíkukapítalismi og ríkissstuðningur
Í fyrsta lagi bendir ýmislegt til þess að sumir hinna fokríku sé hreinræktaðir klíkukapítalistar. Einn áttmenninganna, mexíkóski auðjöfurinn Carlos Slim, er sagður slíkur. Hann hafi auðgast vegna tengsla sína við spillta pólitíkusa í Mexíkó.
Í öðru lagi eru fjárreiður auðkýfinganna svo flóknar að erfitt að finna út hvort fé þeirra stafi af markaðsviðskiptum einum eða eigi einhverjar rætur í svindli og/eða óviðurkvæmilegum ríkistengslum. Hinn ofurríki Trump er gott dæmi, það ganga sögur fjöllum hærra um vafasöm viðskipti hans en ekkert vitað með öruggri vissu. Enda hafa ríkisbubbar eins og Trump möguleika á því að fela upplýsingar um svindilbrask, stundi þeir slíkt brask. Í þriðja lagi hefðu tæknirisarnir bandarísku ekki komist langt ef bandaríska ríkið hefði ekki stutt grunn- og tæknirannsóknir dyggilega (Stefán (2011): 125-128). Væru Bill Gates og Mark Zuckerberg á listanum yfir hina átta ríkustu menn heims ef þessa ríkisstuðnings hefði ekki notið? Tæpast, það er ekki bara áhugi almennings á vörum þeirra sem gert hefur þá ríka heldur líka skattfé.
Auðurinn og valdið
Í fjórða lagi má líta á rök kanadíska heimspekingsins Gerry Cohens og heimfæra á þau mál sem hér eru rædd (Cohen 1995: 67-91). Margir þeirra sem keypt hafa vörur, sem gert hafa hina fokríku auðuga, hefðu kannski látið eiga sig að kaupa þær hefðu þeir vitað að kaupin leiddu til ójafnrar tekjudreifingar. Auði fylgir vald og því gætu hinir fokríku öðlast vald yfir fólki sem ekki keypti varning þeirra. Þetta fólk átti engan þátt í að skapa hina ójöfnu tekjudreifingu og er því saklaust fórnarlamb hennar. Erfingjar hinna moldríku gætu í krafti auðs síns öðlast vald yfir fólki sem enn er ófætt og á því engan þátt í að gera þá ríka. Símarisafyrirtækið ITT átti þátt í valdaráninu í Síle árið 1973, notaði auð sinn til þess arna (sjá t.d. Davies 1985: 12-13). Vel má vera að allt fé fyrirtækisins hafi verið vel fengið samkvæmt formúlum markaðsssinna en féð var notað til að kúga fólk og það að viðskiptavinum fyrirtækisins fornspurðum.
Ójöfnuður, traust og hagvöxtur
Í fimmta lagi bendir margt til þess að skortur á trausti dragi úr hagvexti og að ójöfnuður dragi úr trausti. Ég hef áður nefnt skýrslu OECD þar sem þetta er staðhæft. Einnig hef ég rætt rannsóknir hagfræðingsins Alexander Cappelens en niðurstaða þeirra er sú að auður stafi að miklu leyti af trausti sem aftur stafar tiltölulega jafnri dreifingu lífsgæða. Cappelen heldur því fram að Rússar væru 70%-80% ríkari ef traust manna þar eystra væri jafnmikið og í Noregi. Vantraustið rússneska stafi ekki síst af ójafnri dreifingu eigna og tekna. Í hnattvæddu hagkerfi hlýtur mikil ójöfnuður að draga úr trausti og þar með hagvexti á heimsvísu. Oxfam segir að 70% mannkynsins búi í löndum þar sem ójöfnuður hefur aukist á síðustu árum. Gaman væri ef Cappelen reiknaði kostnaðinn af þeim hnattræna ójöfnuði sem Erlendur ver.
Lokaorð
Einhver kann að spyrja hvort ég trúi á marxískar kreddur um að auður hljóti að byggja á arðráni. Nei, þeim trúi ég alls ekki. En það útilokar ekki að mikil samþjöppun auðs geti leitt til arðráns. Hinir fokríku geta notað vald sitt til að taka markaðinn úr sambandi sér í vil. Samþjöppun auðs er samþjöppun valds. Gegn því ber að berjast, einnig gegn ójöfnuði sem dregur úr trausti og hagvexti.
Heimildir sem ekki er að finna á netinu:
Nathaniel Davies (1985): The Last Two Years of Allende. London: I.B. Tauris.
G.A. Cohen (1995): Self-Ownership, Freedom and Equality. Cambridge: Cambridge University Press.
Stefán Snævarr (2011): Kredda í kreppu. Frjálshyggjan og móteitrið við henni. Reykjavík: Heimskringla.
Athugasemdir