Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Hilary Putnam (1926-2016)

 

Rétt í þessu bárust mér þær fregnir að bandaríski heimspekingurinn Hilary Putnam hefði látist fyrir fimm dögum.

 

Hann var kannski síðasti endurreisnarmaðurinn, með ólíkindum fjölhæfur. Hann var ekki síður lærður í stærðfræði en heimspeki, vissi allan fjárann um eðlisfræði. Um leið vann  hann brautryðjandaverk um heimspeki hugans  og var áhugasamur um siðfræði og stjórnspeki. Og skrifaði af viti um heimspeki bókmenntanna.

 

Hann var með eindæmum sjálfsgagnrýninn og skipti um skoðanir oftar en flestir skipta um jakka. Frægasta kenning hans er kveikjan að Matrix myndunum.

 

Hugsum okkur að við séum ekki raunverulegar mannverur heldur heilar sem vondar vísindaverur á fjarlægri reikisstjörnu hafa stungið í krukkur. Vísindaverurnar tengja heilana við ofurtölvu sem matar þá á skynhrifum og hugsunum. Tölvan skapar blekkingarheim, við (heilarnir) höldum að við séum mannverur með skrokk, að við búum á plánetunni jörð o.s.frv. Þetta virðist vera  röklegur möguleiki, svona hugsanatilraunir nota ýmsir hugsuðir til að sýna fram á að við getum ekki sannað að til sé veröld handan okkar eigin skynjana og hugsana. Putnam beitir svo flóknum rökum til að sanna að þetta sé ekki röklegur möguleiki.

 

Ég hlustaði á Putnam halda fyrirlestra í Frankfurt fyrir 36 árum og talaði svo lítið við hann. Hann virtist opinn og fádæma geðsleg manneskja.

 

Blessuð sé minning þessa mikla hugsuðar.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu