Heiðar, Piketty, McCloskey, S-Kórea
Kjarninn birtir aðra grein eftir Heiðar Guðjónsson um dómsdag og
marxisma. Heiðar snyrtir ekki fyrri staðhæfingar heldur endurtekur þær í lítt breyttum myndum. Reyndar bætir hann við staðhæfingum um „cognitive dissonance“ og smávegis um hagfræðinginn Deirdre McCloskey. Heiðar hefur sérkennilegan skilning á orðasambandinu „cognitive dissonance“: „Það nær utan um þá leitni mannsins að fella alla upplifun að fyrirfram mótuðum skoðunum sínum“. Þetta er alrangt, cognitive dissonance er andleg streita sem hlýst af því að hafa skoðanir sem er andstæðar hver annarri (sjá hér). Hann hlýtur að hafa „confirmation bias“ í huga, staðfestingar-áráttuna.
Piketty eina ferðina enn
Ein þeirra staðhæfinga sem Heiðar endurtekur ósnyrta er sú að Thomas Piketty hafi verið marxisti. Í ensku þýðingunni á Auðmagni fyrir 21 öld segir franski hagfræðingurinn um Karl Marx: „Marx‘s dark prophecy came no closer to be realized than Ricardo‘s. In the last third of the nineteenth century, wages finally began to increase…“ (Piketty 2014, bls. 9). Síðar í bókinni segir hann: „Marxists analysis of the falling rate of profit – a historical prediction that turned out to be quite wrong…“ (Piketty 2014, bls 52). Piketty segir sem sagt að tvær af meginspásögnum Marx hafi ekki ræst. Talar marxisti þannig? Ennfremur er lausn Pikettys á vanda síaukinnar misskiptingar á eignum og auði sú að komið verði á hnattrænum skatti á auðmagn og fjárhagslegt gegnsæi aukið (Piketty 2014, bls. 515-539). Marx hefði fussað og sveiað yfir slíkum tillögum og talið borgaralegar. Pikettey er alls ekki fylgjandi byltingu og þjóðnýtingu og er því hreint ekki marxisti þótt hann hafi lært sitthvað af Marx. Hefur Heiðar lesið doðrant Pikettys?
Deirdre/Donald McCloskey
Heiðar virðist hafa bjartsýnistrú sína og kenninguna um vonda dómsdagsspámenn frá McCloskey. Hún segir að orðræða og retorik valdi miklu um efnahagsþróun. Bjartsýni og trú á framtíðina hafi verið einn þeirra þátta gerði Suður-Kóreu velmegandi. Orðræða sem hampar borgaralegum, kapítaliskum gildum hafi oft átt þátt í efnahagslegum framförum. Þetta er mjög eftirtektarverð kenning og skemmtilega ólík kenningum jafnt marxista sem frjálshyggjumanna (McCloskey er reyndar frjálshyggjukona en af frumlegu tagi). Þeir hafa tilhneigingu til að einblína á kerfisþætti sem orsakavalda efnahagsþróunar. Bæta má við því sem ég hef áður sagt um hagkvæmni trausts, hvernig Norðmenn hafa efnast á gagnkvæmnu trausti sem á sér rætur í jafnaðarhyggju, ekki því sem McCloskey kallar „borgaraleg gildi“. Sé rétt að orðræða valdi miklu um efnahagslegar framfarir má ætla að jafnaðarorðræða sé stundum framfarahvati, stundum borgaraleg orðræða. Kannski er hófleg blanda af hvorutveggja best þótt McCloskey sjái það ekki. McCloskey á sér merkilegan feril, var upprunalega karlmaður sem hét Donald en skipti um kyn. Á karlkynsárum sínum skrifaði McCloskey eitt og annað um hagfræði í póstmódernískum stíl. Hann staðhæfði að hagfræði eigi það sammerkt með öðrum vísindum að vera grein á meiði mælskulistar. Hagfræðin sé gegnsósa af frásögum, hún sé eins konar skáldskapur en engin minnkun sé í því. Skáldskapur hafi nefnilega margt sér til ágætis (McCloskey 1990, 61-75). Stundum er lagt fagurfræðilegt mat á kenningar í eðlisfræði, segir McCloskey. Til dæmis þótti ein af kenningum nóbelshafans Steven Weinberg svo ljót að engin nennti að prófa hana um árabil! (McCloskey 1986, bls. 55). Hagfræðingarnir hegði sér eins, þeir beiti estetískum rökum eins og þeim sé borgað fyrir það. Samhverfni (symmetría) í rökfærslu þyki mjög til fyrirmyndar, fátt sé fegurra en jafnvægiskerfi og illa skrifaðar greinar hljóti meinleg örlög. Meðal þeirra mælskubragða sem hagfræðingar (og aðrir mælskumenn) beita er hliðstæðan (hliðstæðan er eitt af helstu tækjum mælskulistarinnar). Enginn myndi neita því að eftirspurnarlögmál gilti um rjómaís og þá hlýtur hið sama að gilda um hliðstæðuna olíu. Olían er svo aftur hliðstæð ýmsu öðru o.s.frv., o.s.frv. Annað gott mælskubragð er að vísa til "intróspeksjóna“, þess að líta inn í huga sinn og hugsa sér hvernig maður sjálfur sem upplýstur eiginhagsmunaseggur hefði breytt við tilteknar aðstæður. Svo er líka þjóðráð að siga tíkinni Statis (statis-tík) á viðmælendur sína. Hundspott þetta er nefnilega fylgisspakt "retorikkinni". Ástæðan fyrir þessari fylgispekt er meðal annars sú að allar staðtölur eru háðar túlkunum. Það er túlkunaratriði hvað geti kallast mikið eða lítið frávik frá meðaltali og allt tal um meðaltal er retorískt (McCloskey 1986, bls. 141-147). Hressileg og ögrandi kenning, sérkennileg í ljósi þess að fæstir þeir sem gagnrýna akademíska hagfræði eru frjálshyggjusinnar. Hvað þetta varðar er McCloskey alveg sér á parti einsog á fleiri sviðum. En ef hagfræði er ekkert annað en mælskulist, af hverju þá trúa á hagfræðikenningar á borð við kenninguna um ágæti hins frjálsa markaðar? Er hún ekki bara afurð mælskubragða?
Suður-Kórea
Þess utan skautar McCloskey alltof oft á yfirborðinu og staðhæfir án raka að vinstrimenn hafi ofmetið skilvirkni suður-kóreskra ríkisafskipta. Skal nú rökstutt að mikil ríkisþátttaka í efnahagslífinu átti drjúgan þátt í hinni miklu velgengni Suður-Kóreu. Tölur frá OECD sýna að ekkert land í veröldinni styrkir landbúnað sinn meir en Suður-Kórea (tölurnar eru frá 2009). Það þýðir að landbúnaðurinn er að nokkru ríkisrekinn og því er alls ekki frjáls markaður í suður-kóreskum landbúnaði. The Guardian staðhæfir að Suður-Kórea hafi notið meiri þróunarhjálpar frá Bandaríkjunum en nokkuð annað land, á tímabili hafi þeir dælt meira þróunarfé inn í landið en í alla Afríku. Slík hjálp þverbrýtur gegn meginreglum hins „frjálsa“ markaðar, frjálshyggjumenn eru algerlega á móti þróunarhjálp sem þeir telja skaðvænlega þeim sem hjálparinnar „njóti". Samt eða þess vegna iðnvæddist Suður-Kórea hraðar en nokkurt annað land í sögunni enda segir Guardian að S-Kóreumenn hafi nýtt þróunaraðstoðina með skynsamlegum hætti. Víkur nú sögunni til Ha-Joon Chang sem er Suður-Kóreumaður og prófessor í hagfræði við Cambridge-háskólann í Bretlandi. Hann lýsir því hvernig föðurland hans, sem þá var örfátækt, gaf frjálshyggjukenningunni um alþjóðlega verkaskiptingu langt nef og setti á laggirnar stálverksmiðju. Það þótt landið hefði lítið fjármagn og lítið af þeim náttúruauðlindum sem stálverksmiðja þarfnast. Samkvæmt kenningunni um verkaskiptingu (sem er ættuð frá David Ricardo) eiga lönd að nýta sér hlutfallslega yfirburði. Suður-Kórea hefði átt að nýta sér sinn mikla mannafla en ekki stofna fjármagnsfrekar stálverksmiðjur. Hið ríkisrekna stálfyrirtæki POHONG var stofnað árið 1968 og forstjórinn var hershöfðingi enda herinn valdamikill. Alþjóðabankinn varaði við þessu stálbralli en Kóreumenn létu sér ekki segjast heldur fengu Japani til að borga sér skaðabætur vegna hernámsins og notuðu féð í stálfyrirtækið. Það tók að framleiða stál árið 1973 og varð fljótlega eitt af afkastamestu lággæðastáls-framleiðendum heims. Á níunda áratugnum var það komið í fremstu stálframleiðanda heims en voru einkavæddar árið 2001 af pólitískum ástæðum. Chang bætir við að ríkið suður-kóreska hafi með fjárstuðningi eða hótunum beint mörgum fyrirtækjum inn á brautir sem þau hefðu ekki farið af sjálfsdáðum. Risafyrirtækið Hyundai hafi verið neytt til að hefja skipasmíðar. Og sjá! Í dag er skipasmíðastöð þessi ein sú stærsta í heimi. Chang 2012, bls. 155-158). Nóbelshagfræðingurinn Joseph Stiglitz sagði að hinar ríkisreknu stálverksmiðjur Suður-Kóreu hefðu verið þær næst skilvirkustu í heimi, á eftir ríkisreknum stálverksmiðjum í Tævan. Hann bætir því við að Suður-Kórea hafi iðnvæðst bak við tollmúra (Stiglitz 2002, bls. 54). Sé þetta satt þá er eitthvað bogið við frjálshyggjukreddur um að ríkisrekstur sé óhagkvæmur og að alþjóðleg verkaskipting eftir formúlum Ricardos sé flestra efnahagsmeina bót. Frjálshyggjumenn telja allan áætlunarbúskap af hinu illa en Suður-Kórea stundaði lengi leiðbeinandi áætlunargerð (t.d. Chang 2012, bls. 241). Gerðar voru fimm ára áætlanir, tollmúrar reistir og bankar þjóðnýttir (um bankana, sjá t.d. Harvey 2005, bls. 107). Einræðisherrann Park Chung-Hee beitti loforðum um styrki og beinum hótunum til að fá smáfyrirtæki til að sameinast í hin risavöxnu „chaebol“, risafyrirtæki á borð við Samsung og Hyundai. Þessi ríkisafskipti svínvirkuðu, margir lesenda minna nota Samsung síma og aka í Hyundai bílum. Suður-Kórea hinna miklu ríkisafskipta varð mikið iðnveldi. Hefðu frjálshyggjukenningarnar átt við rök að styðjast þá hefði landið festst í fátæktargildru. Í stað þess er þjóðarframleiðsla á mann sú þrettánda mesta í heimi og landið í sautjánda sæti á lífsældarkvarða Sameinuðu Þjóðanna.
Lokaorð
Engin ástæða er til þess að kenna Piketty við marxisma eða trúa öllu sem McCloskey segir þótt henni takist stundum vel upp. Kenningar hennar um áhrif orðræðu á efnahagslífið og á retorískt eðli hagfræði eru athyglisverðar. En hún er með steinbarn í maga, frjálshyggjusteinbarn. Flest benda til að Suður-Kórea hafi tekið miklum efnahagsframförum á tímum mikilla ríkisafskipta af efnahagslífi landsins. Stundaður var áætlunarbúskapur, bankar þjóðnýttir, landbúnaðurinn ríkisstyrktur og tollmúrar reistir. Lag Heiðars geigar, eina ferðina enn.
Heimildir:
Ha-Joon Chang (2012): 23 atriði um kapítalisma sem ekki er sagt frá (þýðandi Ólöf Eldjárn). Reykjavík: Vaka-Helgafell.
David Harvey (2005): A Brief History of Neoliberalism. Oxford: Oxford University Press.
Donald McCloskey (1986): The Rhetoric of Economics. Brigthon: Harvester Press.
Donald McCloskey (1990): „Storytelling in Economics“. Í D. Lavoie (ritstjóri): Economics and Hermeneutics. London og New York: Routledge, bls.61-75.
Deirdre McCloskey (án ártals): „The Great Enrichment Came and Comes from Ethics and Rhetorics“http://www.deirdremccloskey.org/docs/pdf/IndiaPaperMcCloskey.pdf
Joseph Stiglitz (2002): Globalization and its Discontents. Harmondsworth: Penguin Books.
Thomas Piketty (2014): Capital in the Twenty-First Century (þýðandi Arthur Goldhammer). Cambridge, Mass og London: Belknap.
Athugasemdir