Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Harari og saga hins vitiborna (?) manns

 Margir lesenda kannast sjálfsagt við bókina Sapiens: A Brief History of Humankind

Höfundurinn er ungur ísraelskur sagnfræðingur,    Yuval Noah Harari að nafni. Hann skrifaði bókina á hebresku en svo var hún  þýdd af höfundi við annan mann. Ekki verður sagt að enska þýðingin  sé torlæs, enskan er ansi einföld. Hvað um það, bókin er í hæsta máta læsilegt yfirlit yfir mannkynssöguna sem sögð er með heimspekilegum hætti. Dregnar eru stórar línur gegnum söguna, síður farið í smáatriði. Harari tekur að jafnaði undir vinsælar kenningar um þróun mannsins, t.d. talar hann um hugsunar- og þekkingarbyltunguna (e. the cognitive revolution) á steinöld, u.þ.b. 70.000-30.000 f.kr. Mannkynið virðist skyndilega hafa vitkast, það tekur að gera listaverk sem sýna hæfni til sértækrar hugsunar o.s.frv. Réttara sagt hafi eitt af mörgum mannkynum vitkast, það mannkyn sem nefnist „homo sapiens“, hinn vitiborni maður. Hin  mannkynin með Neandertalsmenn í broddi fylkingar hafi staðnað.  Harari er fylgjandi vinsælli kenningu  um að einhverjir erfðavísar í forfeðrum okkur hafi stökkbreyst með þeim afleiðingum að greind þeirra hafi aukist snarlega. Hann telur líka sennilegt að þessir ofurkláru forfeður hafi átt drjúgan þátt í að útrýma risaspendýrunum. Vinsæl kenning í dag rétt eins og önnur kenning sem Harari samsinnir, kenningin um að landbúnaðarbyltingin hafi að mörgu leyti verið mönnum skaðvænleg. Til dæmis hafi meðalhæð manna minnkað. En Harari bætir við ýmsu frá eigin  brjósti, t.d. að hveitið hafi fullt eins „tamið“ menn eins og menn hveitið. Þegar akuryrkja hófst og menn tóku að sá hveiti skipulega hafi þeir þjónað hagsmunum hveitisins.

Vestræn útþensla

Harari staðhæfir að menning okkar sé eins konar ímyndun, ímyndun sem er „intersúbjektif“, sameiginleg fjölda manns. Harari talar eins og sá hluti heims sem ekki er menningarbundinn, eigi sér algerlega hlutlæga tilvist. En getur hann útilokað að efnisheimurinn sé líka "intersúbjektíf“ ímyndun eða að mynd okkar af honum sé með nauðsyn „lituð“ af slíkri ímyndun? Eftirtektarverð er sú kenning hans að útþenslustefna Vesturlandabúa eigi sér rætur í könnunar- og útþensluþrá. Stórveldi Asíu voru fremri Evrópu hvað tækni varðaði og  valdsmenn þar eystra skorti hvorki  gróða- né valdafíkni. Kínverjar sendu mikinn flota undir forystu Zheng Hes aðmíráls, um Asíu sunnanverða og stóran hluta Afríku. En flotinn var eyðilagður er hann sneri heim og Kínverjar gerðu engar tilraunir til að verða sér út um nýlendur eða verslunarmiðstöðvar í fjarlægum löndum. Harari nefnir að ráðamenn Kína og múslimsku stórveldanna hafi vitað af uppgötvun Ameríku en ekki lyft litlaputta til að skaffa sér nýlendur þar. Þótt þeir hefðu haft bolmagn til þess arna, Harari segir: „What made Europeans exceptional was their unparalelled and insatiable ambition to explore and conquer“ (Harari (2011): 324).

Vandinn er sá að orðasambönd á borð við "insatiable ambition to explore and conquer" eru margræð og því ekki auðvelt að prófa sannleiksgildi tilgátu þar sem slík orðasambönd leika lykilhlutverk.

Þrælasala á frjálsum markaði

Harari  segir að þrælasala vestrænna manna  hafi verið í boði einkafyrirtækja sem sóttust eftir gróða, ekki voldugra konunga og vondra rasista. Hann segir beinum orðum: „The slave trade was not controlled by any state or government. It was a purely  economic enterprise, organised and financed by the free market according to the laws of supply and demand“ (Harari (2011): 169-170). Mikið til í þessu enda segi ég slíkt hið sama í Kreddu í kreppu en Harari eflir kenninguna rökum. Sé þetta rétt þá var eitthvert mesta ofbeldisverk veraldarsögunnar, þrælaverslun Evrópubúa, í boði markaðar og einkaframtaks (múslimar voru ekki síður afkastamiklir í þrælabusiness, var sá business líka á einkavegum?)

Nýlendustefnan

Hann ræðir ofbeldisverk vestrænna nýlenduvelda og nefnir að Bretum tókst að útrýma frumþjóð Tasmaníu. En vestræn nýlendustefna var ekki án sinna kosta. Margar nýlendur nutu  góðs af vestrænum tækninýjungum, Bretar lögðu járnbrautarteina um allt Indland (sjá t.d. Niall Ferguson (2003): Empire, bls 169-170).  Í dag er farsíminn efnahagsleg lyftistöng víða í Afríku Sá möguleiki er auðvitað fyrir hendi að nýlendukúgunin hafi hindrað Indverja og Afríkumenn að finna upp járnbrautir og farsíma. Alla vega hefur Harari lög að mæla er hann segir að     afskipti nýlenduveldanna af málum nýlendanna hafi verið svo margþætt og flókin að ekkert mál sé að finna „sannanir“ fyrir ýmsum kenningum um nýlendustefnuna. Þeir sem telja að nýlendustefnan hafi skaðað nýlendurnar efnahagslega geti fundið gnótt slíkra „sannana“. Hinir sem halda því fram að nýlendustefnan hafi stuðlað að framförum geta líka fundið helling af „sönnunum“.

Nýtt og betra (?) mannkyn

Það kennir margra grasi í bókinni, höfundur virðist hallur undir Búddasið og dýraverndarsinni. Þess utan er hann á vissan hátt tæknibjartsýnismaður. Takist mannkyninu ekki að útrýma sjálfu sér eða náttúran gangi að því dauðu þá mun hinn vitiborni geta endurskapað sig með fulltingi gena- og tölvutækni. Hægt verði að skapa menn sem gæddir verða ofurafli, ofurgáfum og sem munu verða ódauðlegir, „ég boða yður komu ofurmennsins“ segir Zaraþústra Nietszches. Nýtt mannkyn mun verða til.

Lokaorð

Eins og sjá má er bókin sneisafull af spennandi pælingum  þótt höfundur fari kannski helsti hratt yfir sögu, yfir sögu hins vitiborna manns sem kannski er hallur úr heimi.

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni