Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Hannes, þróunar- og Marshallaðstoð

Hannes Gissurarson hefur löngum haldið því fram að þróunaraðstoð sé af hinu illa.

Rökin gegn þróunaraðstoðinni

Hann vitnar grimmt í frjálshyggju-hagfræðinginn Peter Bauer sem segir að þróunaraðstoð auki tilhneigingu viðtakanda til að færa efnahagslegar ákvarðanir frá markaðnum til ríkisins þar eð ríkið sé að jafnaði móttakandi þróunaraðstoðar. Það sé efnahagslífi þessara landa skaðvænlegt, þess vegna nái þróunaraðstoð ekki markmiði sínu, öðru nær. Hannes nefnir Tansaníu sem dæmi, land sem gerði tilraunir til að koma á e.k. sósíalisma með hörmulegum afleiðingum. Landið hafi orðið svo hátt þróunaraðstoð að árið 1980 hafi hún numið hærri upphæð en skatttekjur ríkisins. Samt sjáist fá merki um framþróun í landinu. Þróunaraðstoð leiði einatt til mikillar spillingar, valdhafar geti stungið þróunarfénu í eigin  vasa. Hún geti leitt til þess að framtaksemi minnki, menn í þriðjaheimslöndum  bíði bara eftir fjár-innspýtingu frá auðugu ríkjunum í stað þess að taka til hendinni. Tígrisríkin í Asíu, Hong Kong, Singapúr, Tævan og Suður-Kórea hafi öll komist í álnir án þróunaraðstoðar (Hannes Gissurarson (1997): Hádegisverðurinn er aldrei ókeypis. HÍB, bls. 292-298).

Það er einhver sannleikskjarni í þessum boðskap, nýlega var ljóstrað upp um misnotkun á þróunaraðstoð Norðmanna við Angóla, féð lenti að mestu í vösum spilltra valdsmanna.

Gagnrýni á þau rök

En það er rangt hjá Hannesi að Tígrisríkin í Austur-Asíu hafi ekki notið þróunaraðstoðar. Bandaríkin dældu þróunarfé í Suður-Kóreu að sögn m.a. dagblaðsins The Guardian.

Landið hafi á árunum 1946 til 1978 þegið 60 milljarða bandaríkjadala frá Bandaríkjunum, ýmist mynd beinnar aðstoðar eða lána. Á sama tíma hafi þróunaraðstoð BNA við Afríku numið 68 milljörðum dala. En blaðið segir að Suður-Kóreumenn hafi kunnað með féð að  fara, þeir hafi notað það skynsamlega. Bandasríski fræðimaðurinn Nick Cullather gerir hina miklu þróunaraðstoð Bandaríkjamanna við Tævan að umtalsefni. Tævanar notuðu féð á skynsaman máta  og hætti BNA þróunaraðstoð árið 1965, þjóðin þurfti ekki lengur á henni að halda (Cullather (1996): „Fuel for the Good Dragon“: The United States and Industrial Policy in Taiwan, 1950-1965“, Diplomatic History, Volume 20, Issue 1, janúar, bls. 1-26).

Rannsóknarhópur WIDER-stofnunarinnar í Helsinki  er sagður halda því fram  að þróunaraðstoð, sem að meðaltali hafi numið  5% þjóðarframeiðslu þróunarríkja á árunum  1970-2006, hafi þýtt meðalhagvöxt upp á 1.5% Nefna má að breski hagfræðingurinn Paul Collier mun hafa sagt  árið 2006 að án þróunaraðstoðar væri Afríka 25% fátækari en álfan hefði verið án aðstoðar. (samkvæmt Asbjørn Eidhammer, Aftenposten 8/12 2015).

 Collier er hins vegar engan veginn ógagnrýnin á þróunaraðstoð sem hann segir að hafi ýmsar neikvæðar hliðar (samkvæmt The Economist)

Marshallaðstoðin og Ísland

Víkur nú sögunni til Íslands þar sem því hefur haldið fram með nokkrum rétti af  Gunnari Smára Egilssyni að hin mikla Marshallaðstoð sem Íslendingar nutu hafi í reynd verið þróunaraðstoð.

Spurningin er hvort þessi aðstoð sé ekki dæmi um þróunaraðstoð sem virkar illa. Ég hef ískyggilegan grun um að Kanakoman og Marshallaðstoðin hafi skapað heroínistahagkerfi, hagkerfi sem ekki treysti á framtakssemi fólks heldur á aðstoð að utan. Vel mögulegt er að heroínistahagkerfið hafi haldið lífinu í haftakerfinu, Íslendingar gátu leyft sér að viðhalda þessu skaðvænlega kerfi þar eð Kaninn borgaði brúsann. Án Kanafjár hefði Íslendingum líklega verið nauðugur einn kostur að losa sig við höftin.

 Í kringum Kanaféð skapaðist margháttar spilling, helmingaskiptakerfi Framsóknar og Íhalds  varð til í hermanginu. Þess utan urðu ráðherrar, sem fóru  vestur um haf að þinga við Kanann, sér út um einkaleyfi á hinum og þessum amerískum vörum. Fræg er skopmynd í Speglinum þar sem ráðherrar stíga út úr Ameríkuflugvél og barnið bendir á þá og spyr mömmu "hvor er Kók og hvor er Kóla?" Skyldi íslenska spillingin eiga sínar meginrætur í Kanakomu og Marshall-"aðstoð"?

Einnig varð reglurof (anomie) meðal Íslendinga vegna hinna snöggu breytinga sem urðu á samfélaginu þegar herinn kom. Gömul gildi hurfu í einu vetfangi, afleiðingin varð minna traust manna hver á öðrum en lítið traust er efnahagslífinu skaðvænlegt þegar til langs tíma er litið. Reglurofið hefur líklega líka  ýtt undir spillingu. Auk þess segir mér fólk sem upplifði stríðsárin að Breta- og Kanavinnan hafi eyðilagt vinnusiðferði, skapað hefð fyrir vinnusvikum. Eins og sungið var eitt sinn „En vinnusvik á Íslandi þau eru voðaleg“. Þessi vinnusvikahefð á örugglega þátt í hinni litlu  framleiðni á hverja unna klukkustund sem hrjáir Íslendinga. Kanaféð skapaði líka græðgishugsunarhátt og heimtufrekju sem eru meðal  ástæðna  þess að Íslendingar hafa lifað um efni fram á eftirstríðsárunum, efnahagslífinu til mikils langtímaskaða.

Hugsanlega má rekja  fifldirfskuhneigð íslenskra athafnamanna til heroínistahagkerfisins. Það skapaði þær væntingar að einhver kæmi og reddaði Íslendingum hvað sem á dyndi, þessar væntingar kunnu að hafa átt þátt í hinni þjóðhættulegu fífldirfsku útrásarmannanna.

Því má vel vera að Bandaríkjamenn hafi gert Íslendingum bjarnargreiða með Marshallaðstoð og öðru slíku. Kannski hefðu þeir plummaði sig betur án hers og aðstoðar.

Lokaorð

Gagnrýni Hannesar og annarra frjálshyggjumanna á þróunaraðstoð er ekki alröng, Ísland kann að vera dæmi um land sem fór illa vegna slíkrar aðstoðar. En öðru máli gegnir um Suður-Kóreu og Tævan sem virðast hafa grætt á aðstoðinni. Til eru ýmis umhugsunarvekjandi rök fyrir því að þróunaraðstoð geti verið til góðs ef rétt er á málum haldið.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni