Hannes R og hið illa fullveldi
Í DV bloggum mínum í fyrra ræddi ég hugmyndina um innlimun Íslands í Noreg. Ég lagði þunga áherslu á að fullveldi væri mér ekkert sáluhjálparatriði, samt teldi ég hugmyndina arfavitlausa, m.a. af því að hún væri illframkvæmanleg. Þess utan væru rökin fyrir henni af græðgistoga spunnin og græðgi er dauðasynd (ég tefldi fram mörgum fleiri rökum fram en látum þetta nægja).
Nú gerist að Hannes Richardsson geysist fram á ritvöllin og segir að vel komi til greina að Íslendingar losi sig við sjálfsstæði sitt, rökin fyrir því séu bara tilfinningaleg. Lífskjör í nágrannaríkjum séu mun betri, þess vegna væri óvitlaust að sameinast annað hvort Noregi eða Danmörku, jafnvel Kanada. Hann útilokar þó ekki að Ísland haldi einhverri sjálfsstjórn.
Vanhugsuð rök Hannesar
Gallinn við þessi rök er að þau eru vanhugsuð. (1) Í fyrsta lagi er ofmælt að lífskjör séu miklu betri á hinum Norðurlöndunum. (2) Í öðru lagi yrði sameining við önnur lönd erfið, ef ekki óframkvæmanleg. (3) Í þriðja lagi virðist Hannes telja að tilfinningarök séu öldungis súbjektív en það er rangt. (4) Í fjórða lagi talar hann eins og sjálfssagt sé að efnahagsrök trompi önnur rök. (5) Í fimmta lagi skilur hann ekki að efnahagsrök eru að miklu leyti tilfinningarök. (6) Í sjötta lagi eru söguleg dæmi hans um aðild smáþjóða að stærri ríkisheildum villandi. (7) Í sjöunda lagi sér hann ekki að smæð ríkja hefur vissa kosti.
1. Eru lífskjör miklu betri á hinum Norðurlöndunum eins og Hannes vill vera láta? Hann setur þessa staðhæfingu fram án nokkurs rökstuðnings, án þess nefna heimildir.
Samkvæmt nýjum tölum um verga landsframleiðslu á hvern íslenskan mann er hún meiri en á hvern einstakan íbúa í Bretlandi, Frakklandi og Finnlandi. Það eftir hrunið mikla. Þess utan segja staðtölur að tekjum sé tiltölulega jafn dreift þótt eignadreifing mætti vera jafnari (ójöfn eignadreifing gerir auðmenn of volduga, gegn því ber að berjast).
Staðtölur sýna að meðal-Íslendingur hefur til umráða tíu fermetrum meira íbúðarrými en meðal-Svíinn. Bendir það til þess að Svíar búi við miklu betri kjör en Íslendingar? Samkvæmt staðtölum er bílaeign hlutfallslega meiri á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum. Bendir það til þess að lífskjör séu miklu verri á Íslandi en þar?
Og af hverju sýna alþjóðatölur (árið 2011) að innviðir á Íslandi séu betri en á hinum Norðurlöndunum? Bendir það til þess að allt sé betra þar en á Fróni?
En eru ekki laun á hverja unna klukkustund mun lægri á Íslandi en í nágrannalöndunum? Það er vissulega sannleikskjarni í þessu en ekki er allt sem sýnist á Íslandi. Íslenskir launþegar þiggja oft spúslur frá vinnuveitendum sínum, spúslur sem ekki eru beinlínis laun. Slíkt er lítt þekkt í í nágrannalöndunum. Til dæmis fá íslenskir háskólakennarar að nafninu til töluvert lægri grunnlaun en norsk starfssystkini þeirra. En nánari aðgæsla sýnir að svo einfalt er málið ekki. Háskólakennarar á Íslandi fá borgað fyrir birtingar fræðigreina og bóka, sú greiðsla fer beint í vasa þeirra sem aukatekjur. Ekki hér í Noregi, hér fer greiðsla fyrir birtingar í sérstakan sjóð og fjármagnar sá sjóður aðeins ferðir á ráðstefnur, bókakaup o.s.frv. Menn verða að leggja fram alls konar reikninga og sannanir til þess að fá ráðstefnuferðir og bókakaup endurgreidd. Þetta fé er sem sagt ekki hluti af tekjum norskra háskólakennara, gagnstætt þeim íslensku.Því verður ekki annað séð en að minni munur sé á tekjum háskólakennara í Noregi og Íslandi en ætla mætti við fyrstu sýn. Annað dæmi um það sem ég nefni „spúslur“ er hin svonefnda fasta, óunna yfirvinna sem algeng er á Fróni. Slíkt og þvílíkt er óþekkt meðal grannþjóða okkar.
En er ekki voðaleg vinnuþrælkun á íslandi? Vissulega, miðað við hin Norðurlöndin, að Finnlandi undanskildu. En samkvæmt statistík OECD þá vinna Íslendingar minna en meðal-OECD-þjóð, minna en Írar, Kanar, og Ítalir en álíka mikið og Kanadabúar.
Allar tölur um lífssæld sýna að Íslendingar njóta allmikillar lífssældar, engu minni en hinar Norðurlandaþjóðirnar. Til dæmis lifa íslenskir karlmenn lengur en karlar í öðrum Evrópulöndum. Auk þess er ungbarnadauði á Íslandi með þeim minnsta sem um getur.
Samkvæmt alþjóðarannsóknum er hvergi betra að vera kona en á Íslandi.
Önnur alþjóðarannsókn sýnir að Ísland sé fjórða besta land heimsins fyrir ellilífseyrisþega.
Þessar tölur benda gegn því að velferðarríkið íslenska sé miklu lakara en velferðarríki hinna Norðurlandanna, gagnstætt því sem Hannes heldur. Hann staðhæfir þetta án rökstuðnings, án þess að nefna heimildir.
Hvað um það, væru Íslendingar á vonarvöl, ástandið líkt og í Grikklandi, væri athugandi að innlima landið í nágrannaríki. Vinnuálagið er vissulega of mikið, lánamál í ólestri og kreppunni hreint ekki lokið. En eins og sést hér að framan þá njóta Íslendingar sæmilega góðra lífskjara og lífssældar. Því er allt tal um að hið illa fullveldi hafi leitt til efnahagsógæfu tóm vitleysa og Hannesi lítt til sóma.
Eftir sextíusex ára fullveldi (árið 1971) var verg þjóðarframleiðsla á mann í Noregi mun lægri en í Svíþjóð og Danmörku, minni en á Ítalíu og litlu meiri en í Grikklandi (skv Aftenposten 13/2 2015). Væri Hannes samkvæmur sjálfum sér hlyti hann að telja að þetta sýndi að tilraunin með norskt sjálfsstæði hefði verið misheppnuð. Hefði ekki verið gráupplagt fyrir Norðmenn að losa sig við hið illa sjálfsstæði og gerast danskir þegnar á ný? Um 1970 óraði mönnum ekki fyrir því hversu mikið magn olíu væri að finna við Noregsstrendur, þeir héldu að olían myndi ekki endast nema í fáein ár. Hefði Noregur sameinast Danmörku árið 1971 þá hefðu Norðmenn orðið að deila olíuauðnum með Dönum og væru síður ríkir en þeir eru í dag. Gætu Íslendingar lent í svipaðri stöðu eftir innlimun í annað ríki?
2. Innlimun Íslands í annað ríki yrði flókin, dýr og erfið. Hún gæti ekki gerst í einu vetfangi. Það yrði að vera langur aðlögunartími, semja þyrfti um ókjör hluta, t.d. um örlög RÚV, mögulega herskyldu, kvótakerfi, breytingar á námsbókum, stöðu íslenskunnar, skuldir ríkisins, eignir þess, sendiráð o.s.frv.
Fyrst yrði að athuga hvort stjórnarskrár ríkjanna leyfði innlimun. Einnig hvort þjóðaratkvæðagreiðsla yrði að fara fram um málið. Myndi einfaldur meirihluti í íslenskri atkvæðagreiðslu nægja? Hver á að ákveða það? Að gerast hluti af öðru ríki er ekki eins og skipta fótboltafélag, öðru nær.Samningaferlið yrði firnaflókið og gífurlega dýrt. Samningamenn Íslands myndu örugglega sjá til þess að Íslendingar fengju alls konar undanþágur frá norskum/dönskum lögum og gífurlega styrki. Allmiklar líkur eru á því að styrkirnir myndu renna að einhverju leyti til þeirra sem samningamenn hafi velþóknun á. Í ofan á lag yrði að sjá til þess að íslenskir ríkisstarfsmenn sem missa myndu vinnuna við innlimun fengju eitthvað að gera eða opinberan framfærslueyri. Íslenska hagkerfið myndi verða að heroínista, rétt eins og hagkerfi Finnmerkur og Færeyja. Danski fjárausturinn kom ekki veg fyrir efnahagshrun Færeyja upp úr 1990 og stórfelldan landflótta (nú hefur ástandið batnað mikið í Færeyjum og þjóðinni fjölgar, hún talar nú fullri alvöru um sjálfsstæði). Ekki hefur opinber fjáraustur til Finnmerkur komið í veg fyrir stórfelldan landflótta, öðru nær. Innlimun í annað ríki myndi þýða aukin landflótta af Ísland, allt framagjarnt fólk myndi flytja til Kaupmannahafnar eða Óslóar því þar væru tækifærin í viðskiptum, menningu og pólitík. Til þess að ná einhverjum árangri í þessumsamfélögumyrðu Íslendingar að læra mál þeirramjög vel. Ekki er nóg að kunna þau nógu vel til að stunda pípulagningar eða vinna álager í þessum löndum. Menn verða að geta skilið flókna lagatexta, viðskiptasamninga og annað slíkt til að geta tekið virkan þátt í norsku eða dönsku samfélagi, t.d. sem embættismenn, viðskiptahöldar og Stórþingsmenn/þingmenn á danska þinginu. Málakennslan yrði dýr og tæki mikinn tíma sem mætti nota til þarfari hluta. Ekki yrði ástandið betra ef íslenskir þingmenn á þingi Norðmanna eða Dana kæmu fram sem íslenskur þrýstihópur. Þeir gætu gert allra handa hrossakaup við aðra þingmenn og dælt styrkjum frá Ósló eða Köben til þeirra sjálfra og gæðinga sinna á Íslandi. Rotið pot („spilling“) gæti því hæglega stóraukist við innlimun í annað þessara ríkja.
Ekki bætir úr skák að öfgafullir íslenskir þjóðernissinnar myndu aldrei sætta sig við innlimun. Þeir gætu hugsanlega gripið til vopna og hafið hryðjuverkastarfsemi, bæði á Íslandi, eins í Danmörku eða Noregi. Danir og Norðmenn myndu missa áhugann á innlimun þegar sprengjur fara að springa í Köben eða Ósló. Þess utan er mikill kostnaður af hryðjuverkastarfsemi, eiga íslenskir skattgreiðendur að borga hann?
Hannes skilur ekki að „the devil is in the details“. Spurningin um mögulega innlimun er spurning um fjölda flókinna, smárra og stórra þátta. Flækju- og magnstigið er svo hátt að innlimun er tæpast framkvæmanleg.
Eins og sjá má af fyrsta og öðrum lið minnar rökfærslu er sú staðhæfing Hannesar röng að rök fyrir sjálfsstæði séu einvörðungu tilfinningarök.
3. Þess utan eru tilfinningarök ekki endilega algerlega handan skynsemi, gagnstætt því sem Hannes virðist halda. Ótti getur gefið okkur upplýsingar um að hætta sé á ferðum, sá sem ekki kann að hræðast getur lent í vondum málum. Til er fólk sem ekki finnur sársauka, það er í stöðugri lífshættu þess vegna, sársaukin veitir upplýsingar um hættur. Þannig má finna skynsemisþátt í tilfinningum á borð við ótta og sársauka.
Hugsum okkur að Bjarni sé reiður Gunnu vegna þess að hún hafi stolið hjólinu hans. En nú hef ég áreiðanlegar heimildir fyrir því að Ragnar sé þjófurinn, ekki Gunna. Ég get nú rökstutt að reiði Bjarna í garð Gunnu eigi ekki rétt á sér því reiðin byggir á röngum forsendum. Reiði manna getur því verið misvel rökstutt, reiði er ekki handan raka og því ekki öldungis huglæg. Hannes telur sennilega að tilfinningarök fyrir sjálfsstæði byggi á þjóðerniskennd og að hún sé bara súbjektíf.
En sé reiði ekki handan raka þá þarf þjóðerniskennd heldur ekki að vera það. Ef skipa beri efnahagsrökum í öndvegi má benda á að án þjóðerniskenndar hefðu Norðmenn tæpast geta safnað svona miklu í sinn volduga olíusjóð (sjá færslu mína um sjóðinn). Þjóðerniskennd eykur að öllu jöfnu samstöðu meðal manna í tilteknu samfélagi, samstaða dregur úr skiptakostnaði (e. transaction cost). Því getur þjóðerniskennd af ákveðnu tagi verið efnahagslega hagkvæm undir vissum kringumstæðum, hana má verja efnahagsrökum.
Lag Hannesar gegn tilfinningarökum geigar allhressilega.
4. Hannes rökstyður ekki ágæti þess að skipa efnahagnum öndvegi, bara gefur sér án raka að það sé rétt. Til að bæta gráu ofan á svart sér Hannes ekki að í rökfærslu sinni er hann á braut hinna hálu raka (e. slippery slope argument). Fyrst er að segja að efnahagslegur ábati trompi sjálfsstæði og að sjálfsstæði sé efnahagslega skaðlegt, eftir fáein skref taka menn kannski það skref að segja að í lagi sé að drepa langlegusjúklinga þar eð þeir sé efnahagnum skaðlegir og efnahagsrök trompi önnur rök, þ.á.m. mannúðarrök.
5. Séu tilfinningarök ónýt rök þá gildir slíkt hið sama um efnahagsrök því áhugi manna á bættum kjörum er tilfinningalegur. Að vilja bætt kjör er að þrá eitthvað eða hafa löngun til einhvers. Þrá og löngun eru tilfinningar, rök Hannesar gegn sjálfsstæði byggja áefnahags-þrá og –löngunum. Það þýðir að rök hans eru tilfinningaleg en þá er hann mótsögn við sjálfan sig. Það er alltént ekkert því til fyrirstöðu að taka tillit til raka sem byggja á þjóðerniskennd. Ekki er gefið að þau rök séu verri en rök, tengd löngunum í bætt kjör. Bæði eru tilfinningarök.
6. Lítum nú á dæmi Hannesar um stöðu smáþjóða innan stærri ríkisheilda.Hann vegsamar Skota fyrir að hafna sjálfsstæði en nefnir ekki að sjálfsstæðissinnar fengu tæp 45% atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðin er klofin í málinu. Honum finnst fordæmi Nýfundnalands gott, íbúarnir samþykktu að ganga í Kanada í þjóðaratkvæðagreiðslu. En hann virðist ekki vita að landið var ekki fyllilega sjálfsstætt ríki heldur nátengt Bretlandi. Ég efast um að íbúarnir hafi haft eiginlega þjóðerniskennd, Kanadamenn dagsins í dag eru ekki mjög þjóðernissinnaðir. Þess utan hafði Kanada lengi þrýst á Nýfundnaland um að gerast kanadískt, samt studdi bara rúm52% kjósenda aðild að Kanada.
Hannes nefnir ekki velheppnaðan skilnað Slóvaka og Tékka, heldur ekki þá staðreynd að Vestur-Þjóðverjar voru að sligast undan greiðslubyrðinni sem fylgdi innlimun A-Þýskalands (sjá nánar Stefán Snævarr (2011): Kredda í kreppu, bls. 123). Setjum svo að innlimun Íslands í annað ríki yrði jafn kostnaðarsöm. Er rétt að láta erlenda skattgreiðendur taka á sig slíkan kostnað?
7. Hannes virðist ekki skilja að sjálfsstæði smáríkis hefur ýmsa kosti en einblínir á ókostina. Smæð gerir að verkum að gegnsæi getur orðið allmikið og því auðveldar en ella að sjá veilur samfélagsins, og uppgötva mistök og misgjörðir valdsmanna. Síðan má reyna að leiðrétta þessar skekkjur og bæta þjóðfélagið. Einnig gerir smæð að verkum að stjórnendur hafa betra yfirsýn yfir samfélagið en ella. Sú góða yfirsýn ætti að geta stuðlað að skynsamlegri ákvarðanatök. Alltént gengur ýmsum örríkjum mjög vel efnahagsega, t.d. Lúxemborg og Barbados.
Einsleitni er heldur ekki án sinna kosta. Einsleit samfélög hafa yfirleitt þann kost að tiltölulega mikið traust er milli íbúanna en mikill kostnaður hlýst af vantrausti. Eða hvað veldur því að einsleitum löndum á borð við Finnland og Suður-Kóreu vegnar svona vel efnahagslega? Í fjölmenningarsamfélögum treystir fólk hvert öðru miklu síður. Ísraelskur læknir tjáði mér að gífurlegur tími og orka færi í að eiga við fólk frá öllum þeim menningarheimum sem fyrirfinnast í Ísrael (en auðvitað hafa fjölmenningarsamfélög ýmislegt fram yfir einsleit samfélög, bæði á efnahagssviðinu og öðrum) (sjá nánar Kreddu í kreppu, bls. 154). Hannes verður að svara þessum rökum ef taka á boðskap hans alvarlega. Athugið að þessi rök fyrir kostum smæðar og einsleitni eru fjarri því að vera tilfinningarök, enn sést hve fáránleg staðhæfing Hannesar er. Það er einfaldleg rangt hjá honum að rökin fyrir sjálfstæði Íslands séu fyrst og fremst tilfinningarök. Til að gera illt verra talar hann eins og smæð hljóti að leiða til meiri spillingar en ella. En spilling er miklu meiri hjá stórþjóðum eins og Kínverjum og Ítölum, ekki skortir spillingu heldur hjá Írum og eru þeir þó mun fjölmennari en Íslendingar. ÞorvaldurGylfason segir að rannsóknir bendi til þess að spilling sé minni í smáríkjum en stórríkjum og að smæð sé að jafnaði hagkvæm þótt hún hafi ýmsa galla.
Hannes athugar ekki þann möguleika að þótt frændhygli sé einatt fylgifiskur smæðar þá geti gegnsæi í smáum samfélögum komið í veg fyrir stórfellda spillingu. Nýlega afhjúpaði þýska vikuritið Der Spiegel spillingu hins valdamikla stjórnmálamanns Franz-Josef Strauß. Hann mun hafa hreinlega tekið við mútum frá stórfyrirtækjum í aldarfjórðung og haft sérstaka bankareikninga fyrir þær. Þetta uppgötvast meir en 25 árum eftir dauða hans, hefði verið hægt að dylja slíka mútuþægni í örríkinu íslenska?
Allt um það, hvernig væri að Hannes reyndi að hnekkja niðurstöðum þeirra rannsókna sem benda til þess að smæð borgi sig og að smáríki séu síður spillt en stórríkin? Getur Hannes í fúlustu alvöru haldið því fram að þessar rannsóknir byggi á tilfinningarökum einum?
ESB eða Sambandsríki Norðurlanda?
En það er auðvitað rétt hjá Hannesi að sjáfsstæði smáríkja hefur ýmsa galla. Hættan á frændhygli er mikil, eins og Íslendingar vita af biturrri reynslu. Vegna fámennis eru minni líkur en ella að til séu nógu margir einstaklingar sem hæfir séu til að stjórna landinu. En draga má úr áhrifavaldi slíkra þátta með inngöngu í ESB, möguleika sem Hannes hefur ekki fyrir því að nefna. Þá myndi eitthvað af valdinu lenda í höndum manna sem valdir eru úr miklu fjölmenni og því meiri líkur (að öllu jöfnu) að þeir séu hæfir stjórnendur. Auk þess er sambandsríki Norðurlanda engan veginn vitlaus hugmynd en það yrði nóta bene samveldi sjálfsstæðra ríkja. Það gæti haft sameiginlegan, öflugan gjaldmiðil, sameiginlegan seðlabanka, sameiginlega utanríkisstefnu, verið varnarbandalag o.s.frv. Ekki þyrfti að breyta norrænum ríkjunum verulega mikið til að stofna sambandsríkið, gagnstætt þeirri róttæku breytingu sem innlimun íslenska ríkisins í annað ríki þýddi. Slíkt sambandsríki er framkvæmanlegt, gagnstætt innlimunar-vitleysunni. Aðild að norræna sambandsríkinu gæti orðið Íslendingum efnahagsleg lyftistöng um leið og þeir héldu sjálfsstæði sínu á mörgum mikilvægum sviðum. Svipað og ríki BNA, jafnvel meir. Frá mínu sjónarmiði er ekki síst mikilvægt að aðildin að slíku sambandsríki gæti beint sjónum Íslendinga í norðaustur, til þjóða sem ekki hafa ensku að móðurmáli. Það gæti dregið úr enskumennsku Íslendinga sem gæti minnkað hættuna á að móðurmál vort hrökkvi upp af vegna enskusnobbs tískuhyskisins. Þess utan væru Skandínavar líklegar til að vilja vernda íslenskuna enda standi hún fornnorrænu nær en önnur tungumál (innlimun í Kanada myndi þýða endalok íslenskunnar, það skal aldrei!). Mér er ekki launung í því að ég tel varðveislu tungunnar mikilvægari en fullveldi.
Lokaorð
Pistill Hannesar er vissulega málefnalegur, samt er gagnrýni hans á fullveldi Íslands lítils virði enda rökstyður hann vart mál sitt og vísar ekki í neinar heimildir.
Hann skilur ekki eðli tilfinningaraka, setur efnahagsrök í hásæti án eiginlegrar rökfærslu, ofmetur lífskjör Skandínava, vanmetur íslensk lífskjör og sér ekki vandkvæðin við að innlima Ísland í önnur lönd.
Hann bregður þessum týpíska, íslenska no-nonsense-hagkvæmnis-hjúpi yfir rök sín. En þau eru nærri nonsensi en góðu hófi gegnir og hreint engin hagkvæmnisrök, öðru nær. Hann hugsar ekki hið óhugsandi heldur hið óvitlega.
Fullveldi er hvorki fullkomið né alillt, meta verður gildi þess bæði með reiknisrökvísi og tilfinningarökum.
Athugasemdir