Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Hannes G um fasismann

Fyrir skömmu skrifaði Hannes Gissurarson ádrepu í Morgunblaðið sem bar heitið „Skammt öfganna á milli“. Þar talar hann eins og það að einhverjir norskir kommúnistar urðu nasistar eða fasistar sanni að síðarnefndu stefnurnar séu sama tóbakið og kommúnisminn.

Fullt eins mætti „sanna“ að frjálshyggjan væri „eiginlega“ kommúnismi vegna þess að Jónas Haralz, Benjamín Eiríksson  og Guðmundur Magnússon voru kommúnistar á yngri árum en turnuðust svo til frjálshyggju.

Við má bæta að bandaríski hagfræðingurinn Thomas Sowell var marxisti á yngri árum og var reyndar þýdd marxísk grein eftir hann á íslensku. En hann snerist til frjálshyggju (hann er reyndar blökkumaður).

Hið sama gildir um David Horowitz sem var marxisti og skrifaði bók um heimsvaldastefnu sem þýdd var á íslensku. En hann gerðist hægrisinni og frjálshyggjumaður.

"Sannar" dæmið um Sowell og Horowitz að frjálshyggjan sé náskyld kommúnisma?

Mises, Marx og Dellufúsi.

Frjálshyggjumaðurinn Ludwig von Mises lofsöng fasismann ítalska árið 1927 og sagði (í enskri þýðingu úr þýsku):

“It cannot be denied that Fascism and similar movements aiming at the establishment of dictatorships are full of the best intentions and that their intervention has, for the moment, saved European civilization. The merit that Fascism has thereby won for itself will live on eternally in history” (Mises (1985): 51).

Gerir þetta frjálshyggjuna að systur  nasismann og fasismans? Hannes nefnir  þessa athugasemd Mises í bók sinni Twenty-Four Conservative-Liberal Thinkers (2 bindi) (bls 94-95). Hann bendir á að Mises slái ýmsa varnagla hvað þetta varðar.

En bætir sá varnaglasláttur upp þetta halelúja Mises um fasismann og hans meintu góðu ætlanir?

Hannesi láist  að nefna þá staðreynd að Mises starfaði fyrir hinn ástró-fasíska einræðisherra Austurríkis,  Engelbert Dollfuß. Gerir það Mises að fasista?

Dellfúsi (Dollfuß)  mátti eiga að hann var andsnúinn nasistum og hefur það sjálfsagt haft sitt að segja fyrir þá  ákvörðun Gyðingsins Mises að vinna fyrir hann.

Einnig hlýtur Mises að hafa glaðst fyrir því að Dellufúsi mölvaði verkalýðsfélögin og afnam lýðræði. Frjálshyggjumenn telja lýðræði og verkalýðsfélög ógn við það sem þeir kalla „frelsi“.

Það er alltént  ansi langsótt að spyrða frjálshyggju við fasisma  en er það nokkuð langsóttara en að flokka marxismann með nasisma? Boðaði ekki Marx trú á alfrjálsan kommúnisma, jafnstöðu allra manna og víðfeðmt lýðræði (t.d. Marx 1968: 248-293, Marx og Engels 1983: 31). 

Ekki er slíkt og þvílíkt í anda nasismans en kannski fremur í anda frjálshyggju (reyndar ekki áherslan á víðfeðmt lýðræði en sú áhersla er mjög and-nasísk).  

Enn frjálshyggju-kenndari skoðun má finna í Kommúnistaávarpinu þeirra Marx og Engels.: "...frjáls þróun hvers einstaklings er skilyrði fyrir frjálsri þróun heildarinnar" (Marx og Engels 2008: 206)

Í ofan á lag líkti Marx  ríkinu við sníkjuæxli sem „…nærist á þjóðfélaginu og hindrar eðlilega þróun þess…“ (Marx 1968: 271). Mjög í samræmi við  frjálshyggjuna  eða hvað?

Er hér með sannað að marxisminn og frjálshyggjan sé náskyld? Auðvitað ekki. 

 Sú staðreynd að einhverjir af þessum norsku nasistum/fasistum  þusuðu í andkapítalískum tóni sannar hvorki eitt né neitt.

Bæði ítalski fasistaflokkurinn og þýski nasistaflokkurinn höfðu vinstri- og hægriarm. Vinstrinasistarnir biðu ósigur í valdabaráttu þegar Hitler lét drepa helstu vinstrinasistana, þ.á.m. Erich Röhm og Otto Strasser.

Auk þess höfðu hvorki fasismi né nasismi eiginlega efnahagsstefnu, þeir Hitler og Mússólini voru tækifærissinnar í efnahagsmálum. Þeir fylgdu einfaldlega þeirri efnahagsstefnu sem þeir töldu að þjónaði hagsmunum sínum á hverju gefnu augnabliki (Hitler gaf sk… í stefnuskrá nasistaflokksins sem hafði vissa vinstriþætti).

Einkavæðing fasista og nasista

Spænski hagfræðingurinn Germa Bel hefur gert úttekt á einkavæðingu fasista og nasista. Hann segir að á árunum 1922 til 1925 hafi Mússólíní og félagar einkavætt allt milli himins og jarðar. Þeir byrjuðu á því að afnema ríkiseinkasölu á eldspýtum og líftryggingum.

Svo var símkerfið einkavætt, þá stórfyrirtækið Gio. Ansaldo & co sem framleiddi vélar og tæki ýmis konar. Þjóðvegir ýmsir voru boðnir út og gátu hæstbjóðendur hirt tekjur af þeim með vegatollum.

Bel segir að  Mússólíní  hafi tekið að boða einkavæðingu um 1920 til að auka fylgi flokksins og fá fjárframlög frá einkafyrirtækjum. Einnig hafi einkavæðingin verið tæki til að bæta fjárhag ríkisins. En eftir 1925 hafi   fasistar breytt  um stefnu, hætt einkavæðingu og aukið ríkisafskipti   (Bel 2010: 34-55).

Bel segir að Hitler  hafi fetað í fótspor Mússólínís og einkavætt af kappi á árunum 1934-1937 (Bel 2011: 937-956). Það á tímum þegar ríkisumsvif jukust víðast á Vesturlöndum.

Nasistar hafi selt einkaaðiljum stóran hluta hlutabréfa í Deutsche Reichsbahn, járnbrautarfyrirtæki ríkisins. Þá var stálfyrirtæki í eigu ríkisins einkavætt að miklu leyti, einnig stór skipafélög.

En nasistar voru hvað stórtækastir í einkavæðingu banka. Fyrir 1929 átti ríkið um 40% af þýska bankakerfinu en eftir hrunið mikla jókst hlutur ríkisins mjög, varð um 70%. Nasistarnir tóku til við einkavæða bankana, Commerzbank, Deutsche Bank og Dresdner Bank voru seldir einkaaðilum.

Velferðarkerfið var að nokkru einkavætt en með þeim makalausa hætti að nasísk félög á borð við Vetrarhjálpina og Vinnufylkinguna tóku að sér velferðarþjónustu.

Sem sagt nasistar og fasistar hegðuðu sér á tímabili eins og góðir frjálshyggjumenn.  

En muna skal að þekking hefur  þá leiðu áráttu að vera fallvölt, kannski hefur Bel á röngu að standa. Hvað um það,  sönnunarbyrðin er þeirra sem því trúa.

Lokaorð

Þegar öllu er á botninn hvolft snýst umræðan um hið varasama hugtak „líkt og“. Heimspekingar halda margir því fram að allt í þessum heimi sé líkt eða ólíkt öllu öðru á einhvern hátt.

Stærsta málverk sögunnar og stærsta risaeðlan eru líkar hvað stærð varðar en erfitt er að sjá hvort frjótt sé að flokka þetta tvennt saman.

Það sama gildir um stjórnmálastefnur, það má endalaust finna eitthvað sem er líkt eða ólíkt með öllum stefnum. Samlíkingar af þessu tagi eru venjulega fremur ófrjóar. Þeir sem þær stunda gera sig seka um það sem ég kalla "flokkunarvilluna". 

Það er ekki einu sinni víst að frjótt sé að spyrða nasismann og ítalska fasismann saman, hvað þá ástró-fasismann austurríska og nasismann.

Það er tæpast tilviljun að líffræðingar flokka lifandi verur eftir skyldleika, ekki því hvort þau séu lík eða ólík. Málsagnfræðingar hafa farið sömu leið, flokka mál eftir skyldleika.

Fara ber mjög varlega í allan samanburð á stjórnmálastefnum. Og ekki eru til nein  afgerandi rök fyrir því að kommúnismi og fasismi/nasismi  séu af sama toga, öðru nær.

Heimildir

Bel, Germa 2010: „Against the mainstream: Nazi privatization in 1930′s Germany“, Economic History Review, 63 (1), 34-55.

Bel, Germa  2011:  „The first privatization: Selling shoes and privatizing public monopolies in fascist Italy (1922-1925)“, Cambridge Journal of Economics, 35 (5), 937-956.

Marx, Karl  1968: „Borgarastríðið í Frakklandi (þýðandi Franz A. Gíslason),  Úrvalsrit.  2 bindi. Reykjavík: Heimskringla, bls. 248-293.

Marx,  Karl  og Engels, Friedrich  1983: Þýska hugmyndafræðin (þýðandi Gestur Guðmundsson). Reykjavík: Mál og menning.

Marx, Karl og Engels, Friedrich 2008: Kommúnistaávarpið (þýðandi Sverrir Kristjánsson). Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.

Mises, Ludwig von 1985:  Liberalism in The Classical Tradition (þýðandi Ralph Raico). Irvington N.Y: The Foundation for Economic Education, Irvington, NY (Online edition Copyright The Mises Institute, 2000). Upprunalega skrifuð á þýsku, birt 1927. http://mises.org/books/liberalism.pdf Sótt 1/3 2009.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu