Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Hallgrímur Helga og trúarjátningin nýja

Hallgrímur Helgason er fjölhæfur maður, prýðilegur rithöfundur, skemmtilegur myndlistarmaður og á köflum góður álitsgjafi.

 Hann skrifar hressilega ádrepu um íslenska efnahagsspillingu hér á Stundinni. Þar segir  að í tímans rás hafi pólitísk tengsl hafi ráðið miklu um hverjir fengið hafi að njóta sín í efnahagslífinu íslenska. Vart sé hægt að tala um frjálsa samkeppni hér, gagnstætt löndum eins og Bandaríkjunum þar sem meginreglan sé „love all, serve all“. Heilmikið til því sem hann segir um Ísland, því miður. 

Trúarjátning í þremur greinum

En gallinn er sá að hann virðist  trúa  á a.m.k. tvær   af þremur greinum eftirhrunsmóður- og vænissýkis-trúarjátningarinnar. Þær eru: 1.  Heiðra skaltu markaðinn og hina frjálsu  samkeppni. 2. Trúa skaltu því  að Ísland eigi einkarétt á spillingu og klíkukapítalisma. 3. Trúa skaltu því að landbúnaðarstefan íslenska sé  sú versta í heimi.

Hvað fyrstu grein varðar má nefna til sögunnar Hólmsteinslögmálið: Því meir  sem menn hamast  gegn Hannesi H,  þess meiri líkur er á því að þeir trúi blint á boðskap hans um ágæti markaðar og samkeppni.

Þeir skilja ekki að frjáls markaður er vart mögulegur. Meðal annars vegna þess að hann getur sálgað sér sjálfum. Bandaríska hagkerfið var að mestu ríkisafskiptalaust á síðari helmingi  aldarinnar nítjándu. Samt (eða þess vegna) náðu stórfyrirtæki eins Standard Oil og US Steel algerri einokun á markaðnum. Fyrirtækin beittu markaðsklækjum einum til að klekkja á keppinautunum. Auðmennirnir sem áttu þessi fyrirtæki, menn eins og   John Rockefeller og J.P.Morgan, notuðu markaðsgróðann til að kaupa stjórnmálamenn og réttarkerfið. Bandaríkin urðu þrælspillt vegna markaðs-afskipta af ríkisvaldinu, markaðurinn er fullfær um að skapa spillingu,  einn og óstuddur. Á okkur dögum hafa Microsoft, Facebook og Google svipaða einokunaraðstöðu, einokun sem skapast hefur af markaðnum einum saman. Aftenposten vitnar í dag í bandaríska fræðimanninn Robert Epstein sem segir að Google og Facebook geti ráðið úrslitum um hver verði næsti forseti.

Aukið markaðsfrelsi er ekki alltaf til  bóta, gagnstætt sem trúarjátningin  segir.  Hagfræðingar á borð við Joseph Stiglitz og Paul Krugman leiða rök að því að sá frjálshyggjugjörningur að afnema greinarmun á viðskipta- og fjárfestingabönkum sé ein af ástæðum kreppunnar 2008. Stiglitz bætir við að kjánalegir ríkisafskiptagjörningar hafi gert illt verra, skattfé hafi verið dælt í bankana. Og fjárglæframenn ekki sóttir til saka enda réttarkerfið og stjórnmálamenn í vasa auðvaldsins (voru ekki einhverjir bankamenn dæmdir á vonda Íslandi?). Bandaríska ríkið selji stórfyrirtækjum auðlindir á gjafaverði, Bandaríkin séu orðin þrælspillt enda klíkukapítalismi grasserandi. "Love some rich girls, serve some rich guys". Þetta er ekki beinlínis í samræmi við aðra  grein trúarjátningarinnar.

E.m.o.v.s, valdabrask og spilling víða um lönd

Reyndar dýrka eftirhruns móður- og vænisjúklingar (e.m.o.v.s.) ekki Bandaríkin lengur, nú trúa þeir á hina heilögu skandínavísku þrenningu, Noreg, Danmörku og Svíþjóð. E.m.o.v.s. vita ekki að til skamms tíma var stundað gallhart valdabrask (e. patronage) í þessum löndum. Í Svíþjóð og Noregi röðuðu Kratabroddarnir Krötum á jötuna, það  komst engin áfram í ríkisgeiranum nema að vera í  Krataflokknum. Þetta hefur breyst til batnaðar, alla vega í Noregi. Þar var mikill haftabúskapur fyrstu áratugina eftir stríð, mér er til efs að haftafarganið hafi verið minna meðal norskra en á vonda, ljóta Íslandi. Landbúnaðarstefnan er alltént af sama tagi, margt er líkt með skyldum. Norska mjólkursamsalan TINE er núorðið að nafninu til ekki lengur  einokunarfyrirtæki en er samt beggja megin borðsins þegar samningar og opinber stefnumörkun  eru annars vegar. Fyrir nokkrum árum varð smjörþurrð rétt fyrir jólin  í hinum þrælríka Noregi, jólabakendum til armæðu og leiðinda. Ástæðan er talin einokun TINEs. Hér má sjá að stundum er rétt að auka markaðsfrelsi, nú mætti auka það all nokkuð í landbúnaði  víða um lönd, ekki síst á Íslandi og í Noregi.

Þýsk spilling

Og sjálfsagt í Bæjaralandi líka, þar dvaldi  Hallgrímur dvaldi um nokkurt skeið á velmektardögum landsföðurins  Franz-Josef Strauß. Hann  varð næstum kanslari Þýskalands og var lengi ráðherra. Aldarfjórðungi eftir dauða hans kom í ljós að hann hafði þegið mútur frá stórfyrirtækjum áratugum saman. Spurt er: Af hverju komst þetta svona seint upp? Kann  ástæðan að vera  stærð Þýskalands? Getur verið að erfiðara sé að dylja spillingu í örríki eins og Íslandi en rísaríki eins og því þýska? „Count your blessings“ segir Kaninn. Meðan ég man, nú er verið að afhjúpa stórkostlega spillingu í þýska knattspyrnuheiminum og er sjálfur Franz Beckenbauer talinn henni tengdur. Meðal annars mun þýska knattspyrnusambandið hafa mútað mönnum til að fá að halda HM 2006.

Lokaorð

Ekki má skilja orð mín svo að ég telji Hallgrím  sérstakan fulltrúa e.m.o.v.s., ég er ekki einu sinni viss um að hann tilheyri þeirri leiðu sveit. Alla vega er skárra að vera e.m.o.v.s. en a.b.o.h., þ.e. auðvalds-bulla og hægriöfgamaður. Hvað sem því líður þá hefur Hallgrímur á röngu að standa þegar hann segir að pólitískur og efnahagslegur sóðaskapur á Íslandi sé séríslenskt fyrirbæri. Slíkur sóðaskapur  er eins algengur og kvef. Hallgrímur er    mistækur álitsgjafi, ekki var vörn hans fyrir útrásina  upp á marga fiska. Álitsgjafinn í honum var með Bauga undir augum. Rithöfundurinn  ekki, skáldsaga hans Rokland er napurt og snjallt  uppgjör við útrásargræðgina. Skáldið í Hallgrími sá það sem álitsgjafanum var hulið. Og  sem  áður segir er margt vel athugað í pistli hans en hann mætti skilja að vandinn er alþjóðlegur. Sá vandi kann að heita   „Auðvald“. Eða  eitthvað allt annað.  

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni