Hagsagan, goðsagan, aðferðin
Nú er mjög í tísku að efast um fornar hagsöguhugmyndir, hugmyndirnar um að Ísland hafi verið örfátækt á danska nýlendutímanum og að Íslendingar hafi fyrst komist í álnir eftir að landið varð sjálfsstætt.
Við skulum líta á staðhæfingar þeirra Guðmundar Gunnarssonar og Gunnars Smára Egilssonar um þessi mál.
Goðsaga Guðmundar
Guðmundur Gunnarsson vegur að þessari hugmynd í Herðubreiðarpistli. Hann staðhæfir að landsframleiðsla á mann á Íslandi í lok nítjándu aldar hafi verið í miðju Evrópuríkja. Evrópa hafi verið langríkasta svæði heims og Ísland því í hópi tuttugu ríkustu landa heims fyrir 150 árum. Eftir að landið varð sjálfstætt hafi landið bara haldið stöðu sinni vegna margfaldrar Marshallaðstoðar. Það sé goðsaga að Íslendingar hafi hagnast á sjálfsstæði.
Spurt er: Hverjar eru heimildir Guðmundar? Hann nefnir engar heimildir, svo lengi sem hann gerir það ekki er erfitt að taka staðhæfingar hans alvarlega.
Hann virðist ekki athuga að afar lítið er vitað um landframleiðslu á mann í mismunandi löndum fyrir tuttugustu öldina. Það er lítið vitað um efnahagslíf landa utan Evrópu og Norður-Ameríku á nítjándu öldinni og ekki mikið vitað um efnahagslíf Vesturlanda. Það er fyrst þegar Bandaríkjamenn fara að borga tekjuskatt í byrjun tuttugustu aldar að menn fara að geta kortlagt bandarískt efnahagslíf af einhverju viti.
Hagstofan íslenska var ekki sett á laggirnar fyrr en eftir stríð og það sem sagt er um íslenskt efnahagslíf fyrir þann tíma eru hreinar getgátur. Við höfum því engar sannanir fyrir því að Ísland hafi verið með tuttugu ríkustu þjóðum heims fyrir 150 árum. Ekki kom sá meinti auður í veg fyrir að afar mínar dræpust næstum úr hungri.
Til að gera illt verra veltir Guðmundur því ekki fyrir sér hvort Marshallaðstoðin hafi verið bjarnargreiði. Sú aðstoð og annað slíkt kann að hafa haft neikvæð langtímaáhrif á hagkerfið. Íslenska hagkerfið varð að hálfgerðu hækjuhagkerfi vegna stríðsgróða og Marshallaðstoðar. Margt bendir til þess að endalausir styrkir og stuðningur að utan skaði hagkerfi, dragi úr dýnamík þeirra. Færeyjar kunna að vera dæmi um slíkt, einnig Finnmerkur-fylki, og hugsanlega sum þriðja heims ríki sem gert hafa út á þróunaraðstoð.
Óháða breytan í dæminu kann að vera amerísk aðstoð, ekki hið illa fullveldi.
Guðmundur er skeleggur talsmaður verkalýðshreyfingar og Evrópusamvinnu en verður laglega á í messunni í þessum pistli. Það ekkert vit í að bera saman landsframleiðslu eftirstríðsáranna og nítjándu aldar vegna þess að við vitum mikið um hið fyrstnefnda, lítið um hið síðarnefnda.
Guðmundur vill berjast gegn pólitískum goðsögum og er oft drjúgur við þá iðju en skapar goðsögn í þessum pistli. Goðsögu um að hægt sé að vita með öruggri vissu að Ísland hafi jafnvel tapað efnahagslega á sjálfsstæði. Það er ekki víst að hægt sé að skera úr um það.
Gunnars þáttur Smára
Gunnar Smári Egilsson heggur í sama knérunn og Guðmundur. Hann gengur jafnvel lengra og segir að sjálfsstæðið hafi staðið í vegi fyrir velsæld. Hann nefnir til sögunnar urmul af meintum hagtölum en getur ekki heimilda fremur en Guðmundur. Ég minni á að lítið mark er að slíkri talnasúpu nema heimilda sé getið.
Hvað um það, Gunnar Smári staðhæfir að árið 1870 hafi landsframleiðsla á mann á Íslandi verið 52% af þeirri dönsku, 60% af þeirri sænsku, 77% af þeirri norsku og 90% af þeirri finnsku. Ég veit ekki hvaðan hann hefur þessar tölur en ég leyfi mér að draga í efa að til séu nógu nákvæmar efnahags-upplýsingar frá þessum tímum. Upplýsingar dagsins í dag eru líklega þokkalega nákvæmar en það gerir að verkum að lítið er að marka samanburð á hagtölum okkar daga og (meintum) hagtölum frá 1870. Sama gildir um hagtölur sem hann nefnir frá því fyrir daga hagstofunnar og þar með sjálfsstæðisins, það er ekki mikið að marka samanburðinn við nútíma hagtölur.
Annað er að Gunnar Smári ruglar saman fylgni og orsakasambandi. Hann telur sig sjá fylgni milli sjálfsstæðis og lélegar efnahagsafkomu og dregur þá ályktun að þar með hljóti sjálfsstæðið að hafa orsakað lélega afkomu. Þetta er eins og að segja að af því að það er fylgni milli eldinga og þruma þá hljóti eldingar að orsaka þrumur. Þetta var hald manna lengi en nútíma náttúruvísindi sýna að ekkert orsakasamband er á milli eldinga og þruma en þær eigi sér sama orsakavald (orsakavaldurinn er þá óháða breytan (e. the independent variable).
En orsakasamhengi liggja ekki á lausu. Lengi héldu vísindamenn að streita orsakaði magasár. Stressað fólk fékk magasár miklu fremur en hinir rólegu. En svo kom í ljós að sennilegri skýring væri bakteríusýking, streitan dragi úr viðnámsþreki en sé ekki hinn grundvallandi orsök.
Þessi kenning kann að verða hrakin á morgun, kannski líka kenningin um sameiginlegan orsakavald eldinga og þruma. Það gengur bölvanlega að finna nýtilegar orsakaskýringar í samfélags- og hugvísindum. Þess vegna ættu menn ekki að ofreyna sig á því að trúa á kenningar um orsakasamband milli fullveldis og efnahagsskaða.
Þess utan getur Gunnar Smári ekkert sannað með því að einblína á Ísland. Það er eins og að halda að maður geti sannað að líf sé á öllum hnöttum með því að einblína á þann hnött sem við byggjum.
Hann verður að þaulkanna hagsögu fjölda annarra ríkja, kannski aðallega örríkja, og grennslast fyrir um hvort eitthvert neikvætt samband sé milli sjálfsstæðis og hagsældar í þessum ríkjum. Öll hugtök sem við sögu koma verður að skilgreina nákvæmlega, t.d. hugtökin um sjálfsstæði, landsframleiðslu á mann, o.s.frv.. Athuga ber hvaða mælikvarðar á landsframleiðslu notaðar hafa verið í hinum ýmsu rannsóknum. Þessir mælikvarðar eru umdeildir og hafa breyst í tímans rás. Er gefið að mælikvarðinn sem notaður var til að mæla landsframleiðslu árið 1870 sé sá sami og mælikvarðinn sem notaður var til að mæla framleiðsluna á þessari öld?
Auk þess er lítið spunnið í slíka rannsókn nema menn rökstyðji að landsframleiðsla á mann sé góður mælikvarði á hagsæld, um það deila hinir lærðu.
Lokaorð
Menn verða að temja sér lágmarks virðingu fyrir vísindalegum aðferðum ef þeir vilja vera gjaldgengir í umræðu um tengsl sjálfsstæðis og hagsældar. Sjálfur hef ég enga ákveðna skoðun á því hvort það hafi borgað sig fyrir Íslendinga að verða sjálfstæðir. Það er ekki einu sinni víst að hægt sé að svara spurningunni um það.
Athugasemdir