Gunnar Helgi og meint spilling
Í fréttum RÚV í gær var merkilegt viðtal við prófessor Gunnar Helga Kristinsson um spillingu á Íslandi.
Spillingar-hjátrú
Hann segir að samkvæmt athugun telji 70% kjósenda að allveruleg spilling sé á Íslandi en aðeins lítill minnihluti hefur persónulega reynslu af henni. Ég vil bæta við að í örríki eins og Íslandi væri ósennilegt að meirihlutinn hefði ekki reynslu af spillingu væri landið verulega spillt.
Gunnar Helgi segir að líklega ofmeti menn spillingu á Íslandi. Auk þess bjóði spillingar-hjátrúin (mitt orðasamband) hættunni heim, hún dragi úr trú manna á stjórnkerfið og geti skapað stjórnunarlega erfiðleika sem bitni á venjulegu fólki.
Til að bæta gráu ofan á svart geti spillingar-hjátrúin skapað spillingu, segir prófessorinn. Menn fari kannski að hugsa sem svo „ef spilling er landlæg þá hlýt ég að mega vera spilltur“. Þannig sé ástandið víða í hinum þriðja heimi.
Gunnar Helgi hefði líka getað bætt við að menn tala einatt um spillingu til að göfga eigin mislukkun. Ef Ísleifur Íslandstossi fær ekki stöðu eða styrk sem hann sækir um þá segir hann „iss, þetta er bara spilling, nefndin er öll náskyld henni Gunnu sem fékk stöðuna/styrkinn óverðug“.
Í ágætir bók um Skandínavíu segir breski blaðamaðurinn Michael Booth að ef Dani nái ekki settu marki þá segist hann vera fórnarlamb lögmálsins frá Jante sem kveður á um að engin megi skara fram úr. Sama er uppi á teningnum í Noregi, nái Norðmaður ekki metnaðar-markmiði sínu segir hann einatt „iss þetta er bara jante-lögmálið“.
Summa lastanna er stöðug, í öllum samfélögum er til einhver afsökunarformúla fyrir tapara.
Ég er búinn að tönnlast á því undanfarin ár að eftirhruns-noju-liðið geri alltof mikið úr spillingu á Íslandi. Það er vissulega of mikil frændhygli, frændhygli sem stundum hverfist í hreina spillingu, t.d. einkavinavæðing bankanna.
Þess utan má tala um spillingu í sambandi við prófkjör. Sá sem þiggur stórfé af sægreifum og öðrum skunkum í prófkjöri verður skuldbundinn þeim með hætti sem minnir á stöðu mútuþegans.
Mútur í nágrannalöndum
Stórfelldar mútur eru skóladæmi um spillingu. Þær virðast ekki vera algengar á Íslandi, væri svo þá hefði fjöldi manns reynslu af þeim, ekki er auðvelt að dylja mútur í örríki. En menn virðast ekki hafa handbærar sannanir fyrir mikilli mútuþægni í íslensku samfélagi. Þó má eins og áður segir velta því fyrir sér stuðningur við frambjóðendur í prókjörum nálgist ekki að vera mútur.
Ætla má að spilling sé töluvert meiri á Írlandi og í Þýskalandi en á Fróni, gagnstætt því sem nettröllin telja, þau garga "Ísland er spilltasta land í heimi!"
Lokaorð
Á Íslandi dagsins í dag er enginn maður með mönnum nema hann eða hún tali digurbarkalega um hina svakalegu spillingu ónýta Íslands. En venjulega eru sannanirnar lítið annað en kjaftasögurnar úr heita potti nútímans, Feisbók.
Því má samt ekki gleyma að Ísland er sennilega öllu spilltara en hin Norðurlöndin (þau eru óspilltustu lönd heims). Frændhygli og hálfgildings mútur í prófkjörum á Íslandi eru veruleg vandamál. Gegn þessu ber að berjast og öllum öðrum tilburðum til spillingar en skynsamlega og yfirvegað, ekki með múgæsingarorgi.
Goðsagan um hið gjörspillta Ísland er liður í goðsögunni um ónýta Ísland.
Mýtan um ónýta Ísland er ónýt mýta.
Athugasemdir