Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Gamaldags-er-vont-orðræðan

Á Íslandi hefur skapast hefð fyrir því sem ég kalla „gamaldags-er-vont-orðræðuna“. Í slíkri orðræðu er gefið að það sem er gamaldags, gamalt og fortíðarlegt sé af hinu illa, nútíminn og framtíðin af hinu góða. Það er aldrei útskýrt hvers vegna hið gamla sé vont, hið nýja gott. Áður en Bjarni Ben og Katrín Jakobs gerðu sitt bandalag afgreiddi Bjarni skoðanir hennar með því að þær væru gamaldags. Einhver mun hafa borið á Katrínu að hún væri á móti framtíðinni. Í nýliðnum borgarstjórnarkosningum gengu klögumálin á víxl, Eyþór Arnalds bar fortíðardekur á borgarstjórn, hún svaraði fyrir sig með að segja Eyþór vera mann hins liðna tíma.

Kolbrúnar þáttur Bergþórsdóttur

Á dögunum reit Kolbrún Bergþórsdóttir Fréttablaðspistil um verkalýðshreyfinguna („Stéttastríð“, 29 október). Hún telur hana vera helst til vinstrisinnaða, t.d. þegar hún gagnrýnir meinta borgarastétt. Kolbrún segir um þessa gagnrýni: „Þetta er talsmáti gamals tíma sem runnið hefur sitt skeið“. Ennfremur ásakar hún verkalýðshreyfinguna fyrir „gamaldags baráttuaðferðir“. En það að afgreiða baráttuaðferðir sem gamaldags eða skoðanir sem ættaðar úr gömlum tíma er ómálefnalegt, Kolbrún verður að rökstyðja að það að vera gamaldags eða forneskjukynja sé af hinu illa. Að öðru leyti er pistill hennar málefnalegur, ég er sammála sumu, ósammála öðru, hlutlaus um annað.

Tískumennska og framfaratrú

Eitt er fyrir sig að gamaldags-er-vont-orðræðan á sér vel mögulega rætur í íslenskri tískumennsku, þeirri áráttu alltof margra Íslendinga að hlaupa á eftir tískunni, vilja það nýjasta nýtt strax í gær. Tískmenninu finnst hið gamla lummó, halló og púkó. Annað er að gamaldags-er-vont-orðræðan er röklega bundin línulegri framfaratrú. Hið nýja er ávallt framför miðað við hið gamla, framfaraferlið er línulaga, segir framfaratrúarmaðurinn. En „sínum augum lítur hver silfrið“, það sem er framför frá einu sjónarhorni er afturför frá öðru sjónarhorni. Til dæmis finnst hinum trúaða aukið trúleysi vera afturför, trúleysinginn telur það framför. Bæta má við að ýmsir fræðimenn telja að tilkoma landbúnaðar fyrir nokkrum árþúsundum hafi leitt til þess að menn hafi þurft að vinna meira og haft lakari heilsu heldur en fyrri tíma fólk sem lifði á veiðum og söfnunum. Margir telja því að uppfinning landbúnaðar hafi markað afturfararspor. Það er meira að segja ekki gefið að náttúruvísindin taki framförum í þeim skilningi að þau nálgist sannleikann hægt og bítandi. Vísindaheimspekingurinn Thomas Kuhn hafði eitt og annað við þá framfara-kenningu að athuga. En um þetta allt deila hinir lærðu.

Lokaorð

Endalaust tuð um hið vonda, gamla, er hvimleitt. Gamaldags-er-vont-orðræðan er ekki bara þreytandi,   heldur líka ómálefnaleg. Og hún á sér rætur í lítt sannfærandi kenningu um línulegar framfarir.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni