Gagnrýnin jafnaðarstefna!
Við þurfum gagnrýna jafnaðarstefnu. Hvernig skal hún arta sig? Kratinn krítiski er gagnrýninn jafnt á auðvald sem skrifræði, ójafnaðarmenn sem umhverfisspjallendur. Um leið er hann sjálfsgagnrýninn og leitast stöðugt við að bæta stefnu sína. Auk þess veit hann að öllu er takmörk sett, þar á meðal gagnrýni. Hryggjarstykkið í jafnaðarmennsku hans er sannfæringin um að ójöfnuður hafi víðast hvar aukist um of og að velferðaríkið sé illskásti kosturinn. En hann er gagnrýninn að vanda, hann er efins um að öllu megi fórna fyrir jöfnuð og meðvitaður um að velferðaríkið sé ekki hafið yfir gagnrýni. Hann horfir til Skandinavíu og telur að margt megi læra av norrænum krötum, bæði því sem þeir hafa gert vel, eins mistökum þeirra.
Jöfnuður (og Noregur)
Lítum nánar á jöfnuð með augum krítiska kratans: Margt bendir til þess að efnahagslegur jöfnuður sé efnahagslega hagkvæmur. Þetta kemur fram í nýlegri skýrslu OECD. Ein ástæðan kann að vera sú að jöfnuður auki traust manna og traust er sagt efnahagslega hagkvæm. Ég hef margnefnt rannsóknir norska hagfræðingsins Alexander Cappelens en hann telur mikið traust Norðmanna helstu auðlind þeirra. Rússar væru 70% auðugri ef traust væri jafnmikið þar eystra og í Noregi. Fátt dregur meir úr trausti en efnahagslegur ójöfnuður, a.m.k. ef menn hugsa nokkurn veginn eins og nútímafólk á Vesturlöndum gerir (hugsa má sér mikið traust í ójafnaðarsamfélagi þar sem menn eru aldir upp í því að treysta hinum auðugu í blindni). Ætla má að menn vinni betur saman ef þeir treysta hver öðrum vel, samanber hefð Norðmanna fyrir trausti og samvinnu. Það voru almennar sættir í Noregi um að setja olíusjóðinn á laggirnar. Engir sjálftökumenn sem reyndu að hrifsa til sín góssið, engir frekjuhundar sem heimtuðu að fénu yrði varið til uppbyggingar á uppáhaldssviðum þeirra (frekjuhundanna). Norðmenn eru taldir í öðru sæti á eftir hinum erkikratísku Finnum þegar mannauður (e. human capital), miðaður við höfðatölu, er annars vegar. Noregur er talið það veraldarinnar þar sem lífssæld er mest, þrátt fyrir eða vegna þess að markaðsfrelsi sé ekki ýkja mikið í landinu (skylt er að geta þess að Sviss og ástralía eru í öðru og þriðja sæti lífssældarmælinga 2016, þessi lönd eru öllu markaðsfrjálsari en Noregur). Staðtölur ýmissa hægriþankaveitna sýna að markaðsfrelsi sé meira á Fróni en í Noregi, sjá t.d. nýjar tölur frá Heritage Foundation. Ríkið á meginþorra (67%) hlutabréfa í langöflugasta fyrirtæki landsins, Statoil. Yfir því gnæfir svo ríkisfyrirtækið Petero sem reyndar er yfir öllum olíubransanum norska. Ríkissiðanefnd olíubransans hefur líka allmikil völd og hefur neytt Statoil til að hætta við arðbærar en siðlausar fjárfestingar (vald siðanefndarinnar takmarkar markaðsfrelsi norska olíubransans). Eins og þetta væri ekki nóg á norska ríkið 35% af öllum hlutabréfum í Noregi. Landbúnaðurinn er nánast ríkisrekinn og fákeppni, jefnvel einokun, á mörgum sviðum o.s.frv. Þetta sýnir að mikil ríkisumsvif eru ekki endilega efnahagnum skaðleg, mestu máli skiptir hvernig ríkisvaldið artar sig.
Á velmektardögum kratanna fyrstu árin eftir stríð var stundaður áætlunarbúskapur í Noregi og harðsvíruð haftastefna mörkuð. Lengi var bannað að flytja inn bíla. Samt (eða þess vegna) stóðu Norðmenn sig nokkuð vel efnahagslega. Var ástæðan mikil samvinnuhæfni? Íslendingur sem dvaldi í Noregi skömmu eftir stríð talaði mikið um öflugan samvinnuanda, menn vildu vinna saman til að reisa landið úr rústum stríðsins.
Eins og Einar Benediktsson orti:
„Maðurinn einn er ei nema hálfur,
með öðrum er hann meiri en hann sjálfur“.
Samvinnan blífur! En það er kostnaður af sáttum eins og öðru, eins og ég hef margnefnt þá hafa sættirnar norsku þrúgandi og kúgandi þætti. Samkeppni hefur líka sína kosti, þörf er á kjörvægi milli samvinnu og samkeppni, markaðar og ríkis.
Samræðustjórnmál
Samvinna er ekki möguleg án samræðna, krítiski kratinn er fylgjandi samræðustjórnmálum. Íslenskar ríkisstjórnir verða að hætta að valta yfir stjórnarandstöðuna, í stað þess ættu þær að ræða við stjórnarandstöðu og reyna að finna samvinnufleti. Eins og gert er í Noregi, þótt samvinnan þar gangi stundum helsti langt í þrúgandi sáttaátt. Í Noregi þykir sjálfsagt að hafa minnihlutastjórnir sem semja við stjórnarandstöðuflokka í ýmsum málum. Skárra en skotgrafahernaðurinn íslenski.
Alþjóðasamvinna
Alþjóðasamvinna og samtöl eru af hinu góða, segir gagnrýni kratinn. Samræðustjórnmál á hnattvísu. Samt er hann enginn alþjóðarembungur, hann veit vel að hnattvæðingin hefur ekki bara kosta heldur líka galla. Hún á sinn þátt í auknum ójöfnuði á hnattvísu. Hnattræn fyrirtæki hafa mun betra aðgengi að mikilvægum upplýsingum en „lókal“ gerendur. Aðgengið er ósamhverft (e. assymetirc). Þetta hefur eflt vald risafyrirtækja mjög, nægir að nefna alþjóðlegt ofurvald risanna í Kísildal. Þeir skulu vessgú borga skatta eins og aðrir! Hvað sem því líður er krítiski kratinn ekki haldinn trúarlegri sannfæringu um að ESB aðild leysi allan vanda Íslendinga. Það þótt hann hallist fremur að ESB aðild en hitt. Hann veit að margt af því sem sumir telja séríslenskan vanda er alþjóðlegur í eðli sínu. Fákeppni er t.d. ekki séríslensk. Eitt er fyrir sig að fyrirtækin í Kísildal stunda fákeppni, jafnvel einokun. Annað er að þýska vikuritið Der Spiegel heldur því fram að risarnir fimm í þýska bílaiðnaðinum hafi gert með sér leynilegan samning um kartellmyndun. Samkvæmt samningnum skuldbinda bílafyrirtækin sig til að keppa ekki hvert við annað nema á vissum sviðum (Spiegel 22/7 2017) Auðvitað kann íslensk fákeppni að eiga sér aðrar rætur en sú þýska eða fákeppnin í Kísildal. Samt er líklega best að berjast gegn fákeppni með alþjóðlegri samvinnu, slík takmörkun á samkeppni á sér oft hnattrænar rætur, samanber það sem segir um aukið vald hattrænna fyrirtækja.
Vistvá
Jafnaðarmaðurinn gagnrýni veit að oft var þörf en nú nauðsyn, nauðsyn að berjast gegn vistvá. Líf mannkyns liggur við, jafnvel allra lifanda dýra. Hann telur enga sérstaka ástæðu til að efast um að jörðin hlýni óeðilega hratt og að hlýnunin sé af mannavöldum. Hann staðhæfir að rannsóknir vísindamanna í mismunandi fræðigreinum bendi í þessa átt: Rannsóknir jöklafræðinga, haffræðinga, kóralrifasérfræðinga og veðurfræðinga. Allt (eða velflest) ber að sama brunni. Krítiski kratinn bætir því að jafnvel þótt hlýnin kynni að vera minni vandi en flestir telja þá steðji allra handa vistvandi að okkur. Nægir að nefna plastmengun sjávar sem gæti ógnað lífríki hans og þar með mannkyninu. Hvað um það, gagnrýni jafnaðarmaðurinn veit að rósin rauða þrífst best í grænu landslagi.
Lokaorð
Gagnrýnin jafnaðarstefna er sæmilega góður pólitískur kostur. Kostur sem kjósa ber.
Skammt er til kosninga, nú er ögurstund. Stund til að greiða auðvaldi og spillingaröflum hressilegt rothögg. Stund til að auka jöfnuð, stund til að efla velferð, stund til að sporna gegn vistvá.
Með gagnsæi, gegn spillingu!
Jafnaðarmenn allra flokka, sameinist!
Athugasemdir