Frjálshyggja, fasismi, nasismi, kommúnismi
Lesendur kannast sjálfsagt við samanburðarmálfræði. Tala mætti um samanburðar-stjórnmálafræði, þ.e. þau fræði sem bera saman stjórnmálastefnur og flokka með ýmsum hætti. Slík samanburðarfræði er nú ofarlega á baugi í umræðunni (?) íslensku. Andri Sigurðsson og Jóhann Páll Jóhannsson vilja flokka frjálshyggju með fasisma en Hannes Gissurarson dregur nasisma og fasisma í dilk með kommúnisma. Flokkanir.
Gallinn við slíkar flokkanir er að öll fyrirbæri í heiminum geta talist lík eða ólík öllum öðrum fyrirbærum. Svo notað sé dæmi frá heimspekingnum Harold Osborne þá á stærsta málverk heimsins það sammerkt með stærstu risaeðlu allra tíma að vera stærsta eintak sinnar tegundar. Málverkið og risaeðlin er lík hvað stærð varðar. Nefna má að líffræðingar flokka ekki dýrategundir eftir því hvort þau eru lík eða ólík hvert öðru heldur eftir uppruna og skyldleika. Hið sama gildir um málfæðinga, mál eru flokkuð eftir uppruna og skyldleika. Engu að síður tel ég rangt að ekkert verði sagt af viti um hluti með tilliti til þess hvort þau séu lík eða ólík hvert öðru. Ég sé enga ástæðu til að ætla annað en að við höfum einhvers konar reynsluþekkingu en slík þekking byggir á því að hægt sé að alhæfa út frá þess sem líkt er í niðurstöðum fjölda athugana. Forfeður okkar lifðu af og gátu aukið kyn sitt vegna þess að þeir lærðu af reynslunni, t.d. sýndi fjöldi athugana að tiltekin ber væru eitruð, önnur holl. Án þess að geta metið hvað var líkt og ólíkt með athugunum hefðu þeir ekki getað öðlast slíka þekkingu og því dáið út. Víkjum aftur að samanburði stjórnmálastefna. Í ljósi þess sem hér segir um líkt og ólíkt má ætla að slíkur samanburður geti verið frjór svo fremi menn séu gætnir og yfirvegaðir í samanburði. Annars gætu þeir átt á hættu að fremja það sem undirritaður kallar „hliðstæðuvilluna“, draga vafasamar ályktanir um skyldleika fyrirbæra út frá hliðstæðum og því sem líkt er og ólíkt með þeim.
Jóhann Páll, fasisminn og frjálshyggjan.
Jóhann Páll Jóhannsson gerir meira en að gefa í skyn að frjálshyggjan sé náskyld fasismanum, alla vega það afbrigði hennar sem hann nefnir „íhaldsfrjálshyggju“. Hann vitnar í ummæli frjálshyggjupáfans Ludwig von Mises um fasismann en Mises lofsöng hann árið 1927. Ekki er ósennilegt að Jóhann Páll hafi fundið þessa tilvitnun í bók minni Kredda í kreppu. Þar nefni ég annað sem Jóhann Páll gerir að umtalsefni, nefnilega samstarf Mises við austurríska einræðisherrann Engelbert Dollfuß (Stefán 2011: 192). Dellufúsi markaði stefnu austurríska fasismans sem var íhaldssöm og klerklega sinnuð stefna, og nasistum mjög andsnúinn! Austurríski nasistaflokkurinn var bannaður og meðlimum hans stungið í tugthúsið. Vel má vera að andnasisminn hafi heillað Gyðinginn Mises en hann hefur örugglega líka verið ánægður með það hvernig Dollfuß braut verkalýðshreyfinguna á bak aftur. Í bókinni nefni ég líka að frjálshyggjumenn hafi talsverðar efasemdir um ágæti lýðræðis. Hafi maður slíkar efasemdir gæti maður lent á hálli braut raka (e. slippery slope arguments). Að viðbættum fáeinum forsendum gæti frjálshyggjumaðurinn ályktað sem svo að einræði væri í himnalagi. Enda sagði Hayek það beinum orðum í viðtalinu sem Jóhann Páll vitnar í (mig minnir að ég nefni það í bókinni). Á móti kemur að Hayek hefur líka sagt að lýðræðið hefði þó þann kost að skipta megi um valdhafa með friðsamlegum hætti (Stefán 2011: 192-193). En fasistar sáu fátt gott við lýðræðið. Nefna má að spænski hagfræðingurinn Germa Bel segir að á árunum 1922 til 1925 hafi Mússólíní og félagar einkavætt allt milli himins og jarðar. Þeir byrjuðu á því að afnema ríkiseinkasölu á eldspýtum og líftryggingum. Svo var símkerfið einkavætt, þá stórfyrirtækið Gio. Ansaldo & co sem framleiddi vélar og tæki ýmis konar. En eftir 1925 hafi fasistar breytt um stefnu, hætt einkavæðingu og aukið ríkisafskipti (Bel 2010: 34-55). Það er kannski þessi frum-frjálshyggju-Mússólíni sem heillaði Mises, vart hinn síðari, ríkisafskipta-Mússi. Telji Jóhann Páll að öll afbrigði frjálshyggju séu hálfgildings fasismi, þá gengur hann ansi langt. Eins og áður segir eru öll fyrirbæri heims lík eða ólík hver öðru á einhvern hátt. Það gildir líka um frjálshyggju og fasisma. Þó er sannleikskjarni í málflutningi Jóhanns Páls, sum afbrigði frjálshyggju, ekki síst þau sem tengjast íhaldsstefnu, eru ekki án skyldleika við fasismann. Hið sama gildir um anarkó-kapítalisma Hans-Hermans Hoppe. Hann óskar lýðræðinu norður og niður og mælir með anarkó-kapítalísku samfélagi. Þar muni eðlilegt (!!!) stigveldi ríkja og aðalsmenn hafa töglin og haldirnar (Hoppe 2001).
Hannes og nasisminn.
Er rétt að spyrða nasisma og kommúnisma saman eins og Hannes Gissurarson gerir? Ekki hvað efnahagsstefnu áhrærir. Germa Bel segir að Hitler hafi fetað í fótspor Mússólínís og einkavætt af kappi á árunum 1934-1937 (Bel 2011: 937-956). Það á tímum þegar ríkisumsvif jukust víðast á Vesturlöndum. Nasistar hafi selt einkaaðiljum stóran hluta hlutabréfa í Deutsche Reichsbahn, járnbrautarfyrirtæki ríkisins. Þá var stálfyrirtæki í eigu ríkisins einkavædd að miklu leyti, einnig stór skipafélög. En nasistar voru hvað stórtækastir í einkavæðingu banka. Fyrir 1929 átti ríkið um 40% af þýska bankakerfinu en eftir hrunið mikla jókst hlutur ríkisins mjög, varð um 70%. Nasistarnir tóku til við einkavæða bankana, Commerzbank, Deutsche Bank og Dresdner Bank voru seldir einkaaðilum. að ríkisafskipti hafi ekki beinlínis minnkað á þessum einkavæðingarárum. Ríkið hafi "bætt sér upp tapið" með auknum pólitískum afskiptum og setningu allra handa reglugerða. Nasistarnir þjóðnýttu ekki fyrirtæki, eigur Gyðinga voru «aríavæddar», þ.e. «gefnar» nasistabroddum og gerðar þeirra einkaeign. Sænski fræðimaðurinn Herbert Tingsten sagði hæðnislega að það eina sem nasistarnir hafi þjóðnýtt hafi verið eigur verkalýðsfélaganna (Tingsten 1992: 112). Nasistarnir tóku vissulega að stunda eins konar áætlunarbúskap árið 1938 en hann varð aldrei altækur eins og sá sovéski (þess utan var einræðið orðið staðreynd fimm árum fyrr). Eins og áður segir var ekki hróflað við einkaeign og markaðurinn lifði áfram góðu lífi. Breski fræðimaðurinn Martin Kitchen segir að tveir af hverjum þremur af starfsmönnum áætlanakerfisins hafi jafnframt starfað hjá stórfyrirtækinu I.G. Farben. Áætlanirnar hafi verið gerðar í samráði við þýsku stóriðnaðarfyrirtækin. Sveiflur í átælunarstefnunni megi að miklu leyti rekja til átaka milli stórfyrirtækjanna (Kitchen 1976: 55). Þessi áætlunarbúskapur artaði sig töluvert öðruvísi en sá kommúníski þar sem efnahagslífið var að langmestu leyti í höndum ríkisins, markaður vart til og áætlunarkerfið drottnaði yfir öllu efnahagslífinu. Hinn takmarkaði áætlunarbúskapur nasista var aðallega tæki til að efla hernaðarmátt þjóðverja, ekki hugmyndafræðilegt takmark. Franz Neumann segir réttilega að ekki hafi verið til nein nasísk efnahagsstefna, nasistar hafi haft pragmatíska afstöðu til efnahagslífisns og aðallega leitað að efnahagsleiðum til að undirbúa stríð (Neumann 1942: 187). Alla vega sagði Hitler í ræðu á Ríkisþinginu árið 1935 að vegna sérstakra ytri aðstæðna verði því miður að láta þýska efnahagslífið lúta áætlunarforystu. En áætlunarbúskapur sé hættuspil, hann geti stuðlað að hrikalegri skrifræðisvæðingu og með því skaddað „hið eilíft skapandi einstaklingsframtak“ („…det evigt skabende, private Enkeltinitiativer“) (Hitler 1936: 11). Annar galli áætlunarbúskaparins sé sá að hann hneigist til að taka úr sambandi þau hörðu lögmál sem sjái til þess að hinir bestu verði ofan á efnahagslega á meðan undirmálsliðið troðist undir. Hitler hlýtur að hafa haft lögmál markaðarins í huga, lögmál sem honum augljóslega þykja af hinu góða. Hann sagði einnig að illu heilli verði að stuðla að því að Þýskaland verði sjálfu sér nægt efnahagslega þótt slíkt sé efnahagslega óhagkvæmt þegar til lengdar lætur (Hitler 1936: 10). Í Mein Kampf gefur Hitler í skyn að menn hafa ranglega talið nasismann vera af sömu rótum runninn og sósíalismi, marxismi og jafnaðarstefna (Hitler 1943: 73). Kommúnistar trúðu á heildstæða hugmyndafræði sem kölluð var „Marx-Lenínismi“, vei þeim sem ekki beygðu sig undir alsannleika þeirrar stefnu! Öðru máli gegndi um nasistana, þeir voru ekki bara tækifærissinnar í efnahagsmálum, heldur hentistefnumenn eða vingular í mörgum hugmyndafræðilegum efnum. Til dæmis í trúmálum, Heinrich Himmler daðraði við fornnorræn trúarbrögð en ýmsir nasistabroddar hneigðust til kristni eða voru trúleysingjar. Enda segja sumir fræðimenn að nasistarnir hafi ekki haft heildstætt hugmyndakerfi (Spinner 1978: 458-468). Þýski sagnfræðingurinn Joachim Fest segir að á fjórða áratugnum hafi sú skoðun verið útbreidd að nasistarnir hafi ekki haft eiginlega hugmyndafræði. Hann bætir við að þeir hafi ekki tileinkað sér hugmyndafræðilega þætti nema það þjónaði valdahagsmunum þeirra. Um leið sé ekki hægt að skilja valdapólitík þeirra nema að þekkja hina hugmyndafræðilegu þætti, hversu óljósar og skammlífar sem hugmyndirnar hafi verið. Fest telur sig finna fáeina fasta í hugsun Hitlers: Þjóðernisstefnu, and-semítisma og andbolsévisma. Öllu þessu hafi verið fléttað saman við darwiníska baráttuhugmyndafræði (Fest 1973: 174). Niðurstaðan hlýtur að vera sú að mjög vafasamt sé flokka nasismann með kommúnismanum. En ekki má gleyma að voðaverk voru framin í nafni beggja stefna, það kann að benda til einhvers skyldleika. Þess utan voru til vinstrinasistar sem reyndar misstu mest öll áhrif árið 1934 þegar foringi SA, Ernst Röhm og fleiri vinstrinasistar voru teknir af lífi. Vinstrinasistar kunna að teljast einhvers konar skyldmenni kommúnismans. Um leið má ekki gleyma því að til eru ýmsar útgáfur af kommúnisma, sumar tiltölulega mannúðlegar og æði ólíkar nasisma, bæði vinstri og hægri útgáfu hans. Nasismi getur aldrei orðið mannúðlegur.
Lokaorð.
Hæpið er að kenna frjálshyggju við fasisma og nasisma við kommúnisma. Þótt ekki sé örgrannt um að ýmis afbrigði frjálshyggju séu skyld fasisma, og eitt afbrigði nasismans skylt kommúnisma. Fara skal varlega þegar menn flokka fyrirbæri saman með tilliti til þess sem er líkt og ólíkt með þeim.
Heimildir:
Bel, Germa (2010) „Against the mainstream: Nazi privatization in 1930′s Germany“, Economic History Review, 63 (1), 34-55.
Bel, Germa (2011) “ The first privatization: Selling shoes and privatizing public monopolies in fascist Italy (1922-1925)“, Cambridge Journal of Economics, 35 (5), 937-956.
Fest, Joachim C. (1973): Hitler: en biografi (þýðandi Tom Rønnow). Ósló: Gyldendal.
Hitler, Adolf (1935): Lighed giver fred (þýðandi Clara Hammerich): København: Hasselbalch.
Hitler, Adolf (1943): Mein Kampf. München: Zentralverlag der NSDAP.http://ia700200.us.archive.org/11/items/Mein-Kampf2/HitlerAdolf-MeinKampf-Band1Und2855.Auflage1943818S.pdf. Sótt 31/10 2012.
Hoppe, Hans-Hermann (2001): ”Democracy: The God that failed”, http://www.lewrockwell.com/hoppe/hoppe4.html. Sótt 6/8 2010.
Kitchen, Martin (1976): Fascism. London: MacMillan Press.
Neumann, Franz (1942): Behemoth. The Structure and Practice of National Socialism. London: Victor Gollanz Ltd.
Spinner, Helmuth (1978): Popper und die Politik. Berlin: Dietz Verlag.
Stefán Snævarr (2011): Kredda í kreppu. Frjálshyggjan og móteitrið við henni. Reykjavík: Heimskringla. Tingsten, Herbert (1992): Nazismen och fascismens idéer. Den nationella diktaturen. Gautaborg: Ratio.
Athugasemdir