Frelsið, formúlan og hatursorðræðan
Hatursorðræða og tjáningarfrelsi eru ofarlega á baugi í umræðu dagsins.
Sumir telja að banna beri slíka orðræðu þar eð hún sé ofbeldi, aðrir telja að slíkt bann sé aðför að tjáningarfrelsi. Báðir aðilar virðast sammála um að frelsi sé af hinu góða og að ofbeldi sé andstætt frelsi. Meinið er að þessir aðilar hafa ólíkar hugmyndir um hvað teljist frelsi og ofbeldi. Enda eru hugtökin um frelsi og ofbeldi afar flókin.
Neikvætt frelsi
Þeir sem telja að leyfa verði haturorðræðu, hversu grábölvuð sem hún sé, virðast fylgjandi því sem breski heimspekingurinn Isiaha Berlin kallaði “neikvætt frelsi” (menn geta haft jákvætt hugarfar þótt þeir fylgi kenningunni!). Samkvæmt þeirri hugmynd er frelsi einfaldlega það að vera laus við óumbeðin afskipti annarra. Frelsi sé ekkert annað en fjarvera þvingana, frelsi frá einhverju. Menn séu frjálsir í þeim skilningi að annað fólk beiti þá ekki þvingunum. Fylgjendur kenningarinnar um neikvætt frelsi segja að við séum frjáls þá og því aðeins að aðrir hindri okkur ekki í að gera það sem okkur sýnist, svo fremi við skerðum ekki frelsi annarra. Frelsi sé fólgið í því að fá að vera í friði, vilji menn það á annað borð. Því meira svigrúm sem einstaklingurinn hefur því frjálsari sé hann. Frjálshyggjumenn eru yfirleitt fylgjandi neikvæðu frelsi. F.A. Hayek sagði að við getum verið frjáls þótt við eigum engra kosta völ, þótt okkur sé máttar vant. Enginn segði að fjallgöngumaður sem kominn er í ófærur og á engra kosta völ sé ófrjáls nema hann hafi lent í ógöngunum vegna ofríkis annarra.
Breski heimspekingurinn John Stuart Mill var reyndar ekki eiginlegur frjálshyggjumaður en hafði neikvæðnishugmyndir um frelsi. Hann hélt tjáningarfrelsi mjög á lofti. Menn eigi að vera frjálsir til að kalla kornkaupmenn „arðræningja“ í blaðagreinum en öðru máli gegni ef menn haldi ræðu yfir æstum múg fyrir framan heimili kornkaupmanns, staðhæfði Mill. Það geti orðið til þess að múgurinn æsist enn frekar og fremji illvirki, lúskri á kaupmanninum og takmarki með því frelsi hans.
Flókin hugtök
Þetta dæmi sýnir að engan veginn er gefið hvenær tjáningarfrelsi er við hæfi og hvenær beiting þess getur grafið undan frelsinu. Það þótt við gefum okkur að frelsi sé fjarvera þvingana af hálfu annarra. Orð eins og „fjarvera“ og „þvinganir“ eru ekki auðskilgreind og engin formúla fyrir beitingu þeirra. Í vissum skilningi er einkaeign frelsissvipting, ég svipti aðra frelsi til að ráðstafa mínum eigum. Án boða og banna, enginn einkaeignaréttur. Stundum skapar einkaeignarétturinn auðvald sem treður á lítilmagnanum, sviptir hann frelsi. Þá kann að vera rétt að skerða einkaeignaréttin. Því er engin furða þótt sumir telji hatursorðræðu jafngildi þess að æsa fólk til illra verka, til að svipta suma menn frelsi. Þeir sem vilja banna hatursorðræðu telja slíka orðræðu sömu gerð uppákomu og það að þruma yfir æstum múgi í dæmi Mills. Aðrir telja svo aftur á móti að bann við hatursorðræðu sé takmörkun á frelsi og að slík takmörkun hafi slæmt fordæmisgildi. Sé rétt að banna hatursorðræðu má velta því fyrir sér hvort ekki mætti banna jakvæða umfjöllun um jafn hættuleg fyrirbæri og áfengi. Og halda svo áfram að banna eitt og annað þangað til við allt í einu vöknum upp við vondan draum í ófrjálsu samfélagi. Þeir sem vilji banna hatursorðæðu séu því á braut hinna hálu raka í rökfærslu sinni. Bannsinnar kunna að svara fyrir sig með því að segja að margur haldi mig sig: Að leyfa haturorðræðu sé að gefa ofbeldisöflum litla puttann. Fyrst sé að leyfa haturorðræðu, svo að horfa fram hjá misrétti sem minnihlutahópar eru beittir. Bannsinnar kunna að bæta við að hefði hatursorðræða nasista verið bönnuð, og foringjum þeirra stungið inn, þá hefði mátt hindra ofbeldisveldi þeirra.
Jákvætt frelsi
Um þetta skal ekki dæmt heldur litið á fleiri skilgreiningar á hugtakinu um frelsi. Berlin talaði líka um jákvætt frelsi, sumir hugsuðir teldu frelsi aðallega vera frelsi til athafna, það að hafa mátt og möguleika á framkvæmdum. Jákvætt frelsi kallast líka getufrelsi. Frelsun (e. emancipation) felist í því að öðlast sjálfræði, losna við jafnt ytri sem innri hömlur (innri hömlur geta verið sálræn vandamál sem eiga sér samfélagslegar rætur).
Norman
Meðal fylgismanna jákvæðu kenningarinnar má nefna breska heimspekinginn Richard Norman. Hann segir að neikvæða kenningin byggi á þeirri forsendu að skörp skil séu milli einstaklings og samfélags. En þessi forsenda sé röng, hugtökin um einstakling og samfélag séu samofin. Þess vegna sé út í hött að líta á frelsi sem það að eiga eigið svið, afmarkað frá samfélaginu. Í annan stað leiði af kenningunni um neikvætt frelsi að kalla megi stein "frjálsan" fái hann að vera í friði. Þetta sýni að frelsi verði að vera annað og meira en bara það að við séum óáreitt. Menn geta ekki verið frjálsir nema að eiga einhverra kosta völ. Því betri og fleiri sem kostirnir eru og því hæfari sem við erum til að velja, því frjálsari erum við. Frelsi er því ekki aðeins fjarvera ytri tálmana heldur líka möguleikinn á vali. Frelsi er á vissan hátt vald (og val). Góð efnaleg kjör, menntun og pólitískt vald geta aukið hæfni okkar til að velja og fjölga um leið kostunum sem kjósa má um. Menntun geti t.d. aukið hæfni okkar til að gagnrýna ríkjandi ástand og þannig sjá nýja félagslega kosti. Bætt kjör þýða að kostum okkar fjölgar og sama gildir um aukið pólitískt vald.
Amartya Sen
Indverski nóbelshagfræðingurinn Amartya Sen heggur í sama knérunn. Hann segir að þótt neikvætt frelsi sé mikilvægt þá sé það lítils virði án hins jákvæða. Honum er reyndar tamt að kalla jákvætt frelsi ”inntaksríkt frelsi” (e. substantive freedom). Það er sem sagt ekki bara formlegur réttur sem menn geti kannski ekki hagnýtt sér heldur felst það í getu, hæfni og möguleikum manna (e. capabililites). Til þess að teljast fyllilega frjálsir verða menn að hafa getu, hæfni og möguleika til að velja lífsmáta sem þeim hugnast. Lágmarksmenntun, aðgangur að heilbrigðisþjónustu o.s.frv. eru meðal þess sem gerir mönnum kleift að ná þessu markmiði. Sen og Norman skilja frelsið þeim skilningi sem algeng er meðal vinstrimanna.
Innra frelsi og verðmætamat
Bæði Norman og Sen leggja ofuráherslu á getu-þátt jákvæða frelsisins, kanadíski heimspekingurinn Charles Taylor beinir fremur sjónum sínum að innra frelsi. Rétt eins og Norman gagnrýnir Taylor hugmyndina um neikvætt frelsi, sérstaklega þá hugmynd að frelsi sé ekkert annað en fjarvera ytri tálmana. Í reynd eru til óendanlega margar ytri tálmanir, við verðum að greina á milli mikilvægra og lítilvægra hindrana. Mikilvægi þeirra ræðst af verðmætamati okkar, segir Kanadamaðurinn fjölvísi. Ef svo væri ekki gætum við fullt eins sagt að Albanía kommúnismans hafi verið frjálsara land en Bretland þótt trúarbrögð hafi verið bönnuð í balkneska alræðisríkinu. Það voru nefnilega miklu færri götuljós þar syðra en í Stóra-Bretlandi og rautt ljós hindri örugglega fleiri athafnir en ófrelsi í trúmálum. En við teljum Bretland frjálsara land því trúarbrögð eru okkur mikilvægari en gönguferðir.
Taylor segir að frelsi sé ekki bara ytra frelsi heldur líka innra frelsi. Óskynsamleg hræðsla getur til dæmis komið i veg fyrir að við förum inn á þá starfsbraut sem við helst vildum fara. Reyndar erum við ekki endilega æðsta dómsvald um slíkar tilfinningar. Hræðsla er ekki bara kennd heldur líka ákveðinn máti að skynja veröldina, sá hræddi sér hluta af heiminum sem hættulegan. Og honum kann að skjátlast, hann kann til dæmis að vera haldinn sjúklegri hræðslu við að fljúga þótt skynsemin ætti að sýna honum að hann er fullt eins öruggur í háloftunum og á jörðu niðri. Ekki er víst að hann skilji þetta sjálfur, aðrir geta vitað betur og reynt að benda honum á villur síns vegar.
Kristján og ábyrgðarkenningin
Kristján Kristjánsson andæfir mörgu í boðskap Taylors og gerir vel. Kristján segir að Kanadamaðurinn skilji ekki að uppruni tálmana skiptir sköpun. Menn geti vart talist ófrjálsir ef þýlyndi þeirra eða hræðsla eru meðfædd. Öðru máli gegnir ef uppeldi eða samfélagshættir valdi þýlyndi. Þá megi tala um frelsisviptingu því hún sé öðrum mönnum að kenna. Þessi gagnrýni Kristjáns virðist hitta í mark. Eftir stendur að frelsi er að einhverju leyti innra frelsi og máttur til gjörða; sá sem engan máttinn hefur er annað hvort ófrjáls eða ófær um að nýta sér frelsi sitt. Frelsishugtakið er sumpart máttarhugtak þótt það kunni að vera að öðru leyti neikvætt hugtak eins og Kristján telur. Það fylgir sögunni að hann er einn mikilvægasti fulltrúi hinnar svonefndu ábyrgðarkenningar um frelsi (e. the social responsibility view). Fylgjendur hennar eru sammála frjálshyggjumönnum um að frelsi hljóti að vera neikvætt en skilgreina ”tálmanir” eða ”frelsishömlur” öllu víðar en frjálshyggjumenn. Hafi foreldrar alið börn sín upp í undirgefni þá hafa þau hindrað börnin í að standa á rétti sínum. Foreldrarnir beri ábyrgð á ófrelsi barnanna en ófrelsið sé neikvætt. Ábyrgðarkenningin er að mínu mati besta útgáfa kenningarinnar um neikvætt frelsi, ekki síst vegna hinnar snjöllu rökfærslu Kristjáns.
Enn um innra frelsi
Sé rétt að tala megi um innra frelsi þá eykur það líkurnar á að hatursorðræða geti talist stuðla að frelsissviptimgu (ef frelsissvipting er aðeins ytri þvingun eins frjálshyggjumenn ætla þá er tómt mál að tala um hatursorðræðu sem ógnvald frelsis). Fólk sem er alið upp í þýlyndi skortir innra frelsi. Hugsum okkur að ákveðinn minnihlutahópur hafi innhverft hugmyndir valdhafa um að hann sé minni máttar og eigi að skríða fyrir valdinu. Í því tilviki gætu hatursorðræða gegn þessum minnihlutahóp verið olía á eldinn, aukið undirlægjusemina og þar með dregið úr innra frelsi hópmeðlima. Í slíku tilviki væri eðlilegt að banna þessa gerð hatursorðræðu (ég gef mér hér að menn séu almennt fylgjandi e.k. frelsi, í þessu tilviki er rétt að banna hatursorðræðuna í nafni frelsisins).
Pettit og forræðisleysan
Írski heimspekingurinn Philip Pettit vill fara bil beggja, finna gullinn meðalveg milli neikvæðs og jákvæðs frelsis. Hann er sammála neikvæðnissinnum um tvennt: Því að frelsi sé frelsi undan forræði og því að sjálfræði (innra frelsi) sé ekki nauðsynleg forsenda frelsis. En hann er jákvæðnissinni að því leyti að hann telur að frelsi sé ekki bara frelsi frá óumbeðnum afskiptum. Hann talar um “frelsi sem forræðisleysu” (e. liberty as non-domination). Menn geti lifað lífi sínu í ró og næði en samt verið upp á náð annarra manna komnir. Þeir síðastnefndu gætu hafa látið geðþótta sinn ráða er þeir afréðu að láta mennina í friði og gera þá þannig frjálsa að hætti frjálshyggjunnar (frjálshyggjumenn segja menn frjálsa ef enginn treður þeim um tær). En þessir menn séu ekki raunverulega frjálsir því afskiptaleysið sem þeir búa við sé skilyrt (e. contingent), tilviljunum undirorpið, staðhæfir Pettit. Það vildi einfaldlega svo til að ákveðnir einstaklingar ákváðu að láta þá í friði. Þeir lúti forræði þessara einstaklinga, þeir séu upp á náð þeirra komnir og frelsi þeirra sé því takmarkað.
Lokaorð
Þetta held ég að sé að miklu leyti rétt, frelsi verður að vera frelsi frá forræði, Pettit gerir líka rétt í að vilja sameina það besta frá neikvæðu og jákvæðu hugmyndinni um frelsi. Sen hefur líka lög að mæla er hann segir að neikvætt felsi sé ekki nóg þótt mikilvægt sé, menn verða líka að hafa getufrelsi. Taylor og Kristján leggja réttilega áherslu á innra frelsi, frelsi getur ekki bara verið frelsi frá ytri hömlum. Minna máli skiptir hvort það frelsi sé jakvætt eða neikvætt. Taylor bendir réttilega á að verðmætamat okkar ráði miklu um hvað teljist frelsi og frelsissvipting, því er engin furða þótt menn deili um þessi hugtök. Ekki er ósennilegt að deiluaðilar í hatursorðræðumálinu hafi ólíkt verðmætamat á sviðum sem varða þessi mál. Erfitt er að finna allsherjar formúlu fyrir því hvernig skilgreina beri frelsi og hvernig beita eigi hinum ýmsu skilgreiningum. Stundum er rétt að hyggja að neikvæða frelsinu og auka það, Norður-Kórea yrði betra samfélag ef neikvæða frelsið ykist. Smáskammtur af markaðsfrelsi myndi ekki skaða kúgaða Kóreumenn norðursins. Í öðrum tilvikum er rétt að efla getufrelsi, t.d í samfélögum þar sem stéttskipting er mikil og félagslegur hreyfanleiki lítill. Bandaríkin eru að verða þannig samfélag, Ísland kemur í humátt á eftir. Að banna hatursorðræðu kann að vera liður í eflingu þessa getufrelsis. Í samfélögum þar sem innra frelsi er lítið vegna hugmyndafræðilegrar kúgunar gæti verið rétt að banna hatursorðræðu, bendi líkur til þess að hún geti eflt þetta ófrelsi. Í samfélögum þar sem stór hluti kvenna er undirdánugur vegna þess að þær innhverfa hugmyndafræði karlveldisins gæti hatursorðræða gegn konum gegnt illt verra.
Hvað um Ísland í dag? Ég hallast frekar að því að rétt sé að banna haturorðræðu á Fróni: Í einn stað vegna að slík hatursorðræða getur ávallt verið hvati til illvirkja, í annan stað vegna þess að á Íslandi er að verða til undirstétt innflytjenda og einstæðra mæðra. Hatursorðæða gegn innflytjendum og konum getur stuðlað að því að þessar hópar fái neikvæða sjálfsmynd sem þýtt getur minnkað innra frelsi. En þetta eru flókin mál sem ber að ræða vel og vandlega.
Rangt er að tala um frelsisregluna í eintölu. Rétt að tala um ýmsar þumalfingursreglur frelsins og um frelsi eingöngu í fleirtölu.
Helstu heimildir
Isaiah Berlin (1994) "Tvö hugtök um frelsi” (þýðandi Róbert Víðir Gunnarsson), í Einar Logi Vignisson og Ólafur Páll Jónsson: Heimspeki á tuttugustu öld. Heimskringla: Reykjavík, bls. 157-168.
Friedrich von Hayek (1960): The Constitution of Liberty. London og New York: Routledge.
Kristján Kristjánsson (1992a): “Sendibréf um frelsi”, Hugur, 5 ár, Bls. 5-18.
Richard Norman (1987): Free and Equal. A Philosophical Examination of Political Values. Oxford: Oxford University Press.
Amartya K. Sen (2009): The Idea of Justice. London: Allen Lane.
Charles Taylor (1996a): "What is Wrong With Negative Liberty?", Philosophical Papers 2. Cambridge: Cambridge University Press, Bls. 211-229.
Philipp Pettit (1997): Republicanism. A Theory of Freedom and Government. Oxford: Oxford University Press.
Stefán Snævarr (2011): Kredda í kreppu. Reykjavík: Heimskringla.
John Stuart Mill (1989): On Liberty and Other Writings. Cambridge: Cambridge University Press.
Athugasemdir