Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Frá Kananum til Panama

Panamaskjölin. Öll íslensku nöfnin í þeim. Hvað veldur, hver heldur?

Einhverjar af rótum þess hugsunarháttar  sem gerði Panamamennskuna möguleika má finna í Keflavíkur-herstöðinni.

Kanaættuð spilling

Í forvitnilegri rannsókn  Þórólfs Matthíassonar og Jóhannesar Karlssonar á  íslenskum skattsvikum  kemur í ljós að skattsvik aukast hlutfallslega mjög mikið á fimmta tug aldarinnar. Þeim áratug þegar Kaninn dældi  fé inn í landið, fyrst með stríðsvinnunni, svo Marshallaðstoðinni. Þessi skattsvik eru dæmi um þá spillingu sem fylgdi Kananum og gegnsýrði samfélagið. Svipað gerðist á Ítalíu, Bandaríkjamenn dældu fé í Ítala til að forða þeim frá kommúnisma. En fjáraustrið var bensín á hið ítalska spillingarbál. Og hið íslenska, nokkru eftir stríð birti gríntímaritið Spegillinn skopmynd af tveimur ráðamönnum sem nýkomnir eru frá Washington. Lítið barn bendir á þá og spyr móður sína „mamma, hvor er kók og hvor er kóla?“ Þá höfðu þessir ráðherrar  notað tækifærið til að verða sér út um umboð fyrir innflutningi á amerískum varningi. Slíkur sóðaskapur var ekki mögulegur fyrir stríð.  Í skáldskap þessa tíma koma einatt fyrir svindilbraskarar ýmis konar sem þénuðu vel á nærveru hersins, eins og glöggt sést í Atómstöð Halldórs Laxness.

Áhrif Kanans á flokkana

Til að gera illt verra gat  herveran af sér helmingaskiptakerfið. Upp úr 1950 var sett á laggirnar verktakafyrirtæki sem hafði einkarétt á framkvæmdum á Vellinum. Því stjórnuðu Framsóknar- og Sjálfsstæðismenn í sameiningu. Fyrir Kanakomu bárust flokkar þeirra á banaspjótum en hverfðust svo í Tvíflokk, þökk sé Kananum. Kanakoman jók líka á sundrung vinstriflokkanna,  kommar og kratar hötuðust vegna ólíkrar afstöðu til ameríska hersins. M.a. þess vegna hefur ekki orðið til sterkur jafnaðarmannaflokkur á Íslandi, flokkur sem hefði getað skákað Tvíflokknum. Flokkur sem ekki hefði verið háður gróðapungum og getað barist gegn auðvalds-spillingu.

Reglurof

Snöggar og víðfeðmar breytingar á samfélagi leiða oft til reglurofs (anomie). Menn hætta að fylgja hefðgrónum reglum, að siðareglum meðtöldum, en án þess að tileinka sér nýjar reglur. Gott dæmi er ástandið þegar stúlkur, vart af barnasaldri, lögðust með hermönnum.  Fyrir stríð hefði fæstum svo ungum stúlkum  dottið í hug að brjóta gegn hinum fremur ströngu kynferðisreglum samfélagsins. En reglurnar misstu sitt gildi þegar herinn kom. Hermennirnir sjálfir hljóta að teljast barnaníðingar, þótt alþjóðarembungar, sem nú verja ástandið, vilji ekki skilja það. Alla vega er afleiðingin af reglurofi m.a.  tómatilfinning og  ráðleysi. Góða lýsingu á því má finna í skáldssögu Indriða G. Þorsteinssonar, 79 af stöðinni. Söguna um leigubílstjórann sem er klemmdur milli hins Kanahersvædda  samtíma síns og hinnar rótgrónu sveitamenningar. Í kvikmyndinni er sunginn fallegur bragur: „Vegir liggja til allra átta, enginn ræður för“. Reglurofið býður upp á nýja möguleika en veldur einatt um leið siðleysi.  Mönnum  sem orðið hafa fyrir reglurofi finnst  þeir mega gera hvað eina, vaða yfir allt og alla. Til dæmis setja fé sitt í skattaskjól. Græðgin fyllir einatt í tómið, alla vega gerðist það á Íslandi í kjölfar þess reglurofs sem Kanaherinn olli. Gamalt fólk sem upplifiði Kanakomuna segir að Bretavinnan hafi eyðilagt vinnusiðferðið íslenska. Þeir sem störfuðu hjá Bretum eða Könum komust upp með mikla hyskni. Eftirlitið var lítið enda hafði enginn efnahagslegan hag af þessari starfsemi.

Enn er skáldskapur góð heimild. Í smásögu eftir Guðberg Bergsson segir frá verkamönnum í frystihúsi. Háaldröðum manni finnst hann afkasta minna en áður og telur það skyldu sína að  bæta það upp með því að fara fyrr til vinnu en aðrir. Strákarnir gera gys að honum, hann er fulltrúi reglusemi fyrri tíðar, kannski undirlægjusemi. Kanakoman var ekki bara neikvæð, á stríðsárunum er slík eftirspurn eftir vinnuafli að atvinnurekendur urðu nánast að lúta verkamönnum. Ég tel mjög líklegt að jöfnuður hafi aukist á stríðsárunum, þrátt fyrir allt stríðsgróðabrölt Kanamelludólganna. Kaninn var haf sem lyfti fyrst öllum bátum en hvolfdi  þeim svo.  Peningaflaumurinn ameríski hefur líkast til stóraukið rentusókn, þetta var ekki fé sem menn höfðu unnið fyrir eða þénað í heiðarlegum viðskiptum. Ameríska féð virkaði eins og heróín, fyrst var íslenski dópistinn alhress, svo þurfti hann æ stærri skammt til að fúngera. Og hugsaði með hæðishætti „því ameríski herinn svo réttsýnn og rogginn, hann réttir oss vafalaust eitthvað í gogginn.“ Hugsaði líka „fljótur nú sámur minn fyndu eitthvert patentfrí úrræði“. Sámur frændi átti að redda landanum. Kannski átti þetta Kanahersættaða reddingarhugarfar þátt í ofdirfsku og ábyrgðarleysi útrásarmanna.

Hæðishugarfarið, aukin spilling stórbokka í boði Kananas og  versnandi  vinnusiðferði hafa  smám saman skaddað íslenskt efnahagslíf.  Í ofan á lag hefur reglurofið líklega dregið úr trausti en skortur á trausti er efnahagnum skaðlegur.

Græðgisfræið sem Kaninn sáði

Ekki bætir græðgin úr skák, Kaninn sáði, líklega óafvitandi,  græðgisfræi á Íslandi.  Tungumál segja oft mikið um veruleikaskyn mælenda sinna, ekki er hægt að þýða „lífsgæðakapphlaup“ á norsku. Fátt hefur verið Íslendingum skaðvænlegar en þetta kapphlaup, sérstaklega þar sem sumir hafa haft meira forskot aðrir. Forskot vegna  auðs og tengsla.  Ein gerð Kanagræðgi er hin íslenska einkabílagræðgi. Almenningur heimtaði einkabíla og engar refjur, engar almenningssamgöngur. Lúxustolllar voru afnumdir á bílum og 60% Reykvíkinga kaus hin einkabílasinnaða Sálfsstæðisflokk í borgarstjórnarkosningunum 1990. Hefðu þeir viljað bættar almenningssamgöngur þá hefðu þeir kosið vinstriflokkana. En á þeim árum voru engar kröfur uppi um bættar almenningssamgöngur, öðru nær. Bílgræðgin hefur stórskaddað íslenskt efnahagslíf, gert Íslendinga að einni ljótustu þjóð Evrópu og mun sennilega valda stórauknum heilbrigðisútgjöldum í framtíðinni. Allt vegna þess hugarfars sem fylgdi Kanakomunni.

Gamla hugarfarið lifði lengi til sveita, maður sem var í sveit fyrir um hálfri öld sagði mér að bændurnir hefðu látið bæina dankast vegna þess að þeir lágu yfir bókum. Þeir tóku sem sagt ekki þátt í lífsgæðakapphlaupinu (margir Íslendingar halda  að fégræðgi sé mönnum ásköpuð, það er tóm vitleysu, Kanagræðgisættuð vitleysa).  Ég held líka að Kanakoman hafi átt mikinn þátt í þeirri andúð á menntamönnum sem landlæg er á Íslandi. Öldungis ómenmntaðir menn urðu allt í miklu fjáðari en kennararæflar og aðrir menntamenn. Fólk tók að líta niður á þá, fyrir stríð var litið upp til kennara í sjávarplássum, eftir stríð voru þeir fyrirlitnir enda áttu þeir ekki „monní“ í neinum mæli. Þeir höfðu tapað í hinu Kanaættaða lífsgæðakapphlaupi. Mig grunar að þessi fyrirlitning á menntamönnum hafi dregið úr menntunarsókn Íslendinga sem aftur hefur skaðað efnahagslífið.

Puerto Rico norðursins

Ekki þýðir að koma með tískupíp um að sjálfsstæðið hafi skaðað Íslendinga efnahagslega. Ísland var Puerto Rico norðursins, amerískt leppríki, alla vega til 1956. Margt má ljótt um vinstristjórnina 1956-8 segja en hún dró alltént úr amerískum áhrifum á Íslandi, jók sjálfsstæði landsins.

Óætlaðar afleiðingar

Er ég að segja að Kaninn hafi meðvitað spillt Íslendingum? Nei, ég held að sú vanþróun sem ég ræði hér sé að miklu leyti óætluð  afleiðing margs konar gjörða   bæði bandarískra og íslenskra gerenda. Íslendingar eru alls ekki saklausir af þessari vanþróun. Menn mega heldur ekki skilja orð mín svo að ég haldi að ekki hafi verið nein spilling á Íslandi fyrir daga Kanans. Ég er einfaldlega að segja að herveran hafi gert illt miklu verra.

Einnig  skal  tekið  fram að  Kanakoman var ekki bara neikvæð, hún  hafði ýmis jákvæð áhrif. Það er ekki ósennilegt að sú kappgirni og sá metnaður sem Íslendingar hafa sé Kanaættuð. Þeir eru alla vega kappgjarnari og metnaðargjarnari en Skandínavar  sem engan Kana fengu. En þeir  sluppu líka við græðgiseitrið.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni