Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Fólskuleg árás í Brussel

Aðeins fjórum dögum eftir handtöku Salah Abdesalam sprungu sprengjur í Brussel.

Sennilega eru sprengjumennirnir samherjar Abdesalams, tengdir óaldalýð þeim sem kallast á arabísku "Daesh".

Mikið er talað um múslimska hryðjuverkamenn frá Belgíu og oft gefið í skyn að þeir hafi orðið terroristar vegna þess að þeir búi við bág kjör í Belgíu. Múslimum sé jafnvel mismunað.

En hvernig stendur á því að kristnir Kongómenn í Belgíu turnast ekki til terrorisma? Ekki er þeim síður mismunað en múslimunum.

Svertingjar í Bandaríkjunum hafa löngum þurft að þola mismunun og beina kúgun. Samt stunda þeir ekki hryðjuverk.

Þá segir kannski einhver að Vesturlönd hafi kúgað múslimaríki, því hafi múslimar harma að hefna.

Ekki ætla ég að verja meðferð Frakka á Alsírbúum eða svik Frakka og Breta við Araba og Kúrda í kjölfar fyrri heimsstyrjaldar. Eða valdaránið  í Íran 1953 sem Bretar og Bandaríkjamenn báru meginábyrgð á.

En Kongómenn hafa mun meiri ástæðu til hefnigirni. Þegar belgíska Kongó var einkanýlenda Belgíukonungs var farið með íbúana eins og hunda. Þeim slátrað í hundrað þúsunda ef ekki milljónatali.

Samt stunda Kongóbúar ekki hryðjuverk.

Þess utan græddu mörg múslimaríki á tæknilegum sköpunarmætti Vesturlanda. Hefðu vondir Vesturlandabúar ekki fundið upp bensínvélina væri olían í Miðausturlöndum einskis virði.

Af hverju hefna hryðjuverkamenn sér ekki á Rússunum? Þeir bera sennilega ábyrgð á drápi fleiri múslima en Vesturlandabúar, t.d. munu þeir hafa stútað um einni milljón Afghana í Afghanistanstríðinu.

Ekki var meðferð þeirra á hinum múslimsku  Tséténum betri, þeir rústuðu Tséténíu og drápu 15-25% þjóðarinnar. Lysthafendur geta litið á  skelfilegar lýsingar Önnu Politkovskaju á Tséténíustríðinu í bókinni Ferð til helvítis.

Þeir múslimar, sem telja sig hafa rétt til að hefna sín á Vestrinu og líta á sig sem stríðsmenn, ættu að sýna hugrekki með því að ráðast á her- og lögreglustöðvar. En þeir ráðast kerfisbundið á óvopnaða, óbreytta borgara.

Þeir eru því ekki bara morðingjar, heldur líka bleyður.

Mikilvægt er að hafa í huga að ég er ekki að tala um múslima almennt, heldur  öfgasinnaða íslamista.

Flestir múslimar eru friðsemdarmenn sem ekki gera flugu mein.

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni