FIFA og spillingin
BBC sagði rétt í þessu frá því að svissneskir dómstólar hefðu kveðið upp þann dóm að framselja mætti enn einn varaforseta Alþjóða knattspyrnusambandsins til Bandaríkjanna.
Það er kunnara en frá þurfi að segja að upp hefur komist um meiriháttar spillingu innan sambandsins. Spurningin er hvort álíka sambönd í öðrum íþróttagreinum séu mikið skárri.
Lengi hefur legið grunur á því að fjársterkir forsetaframbjóðendur í Alþjóðaskáksambandinu kaupi atkvæði aðildaríkja.
Spyrja má hver orsök þessa ósóma sé.
Svarið kann að vera að þessi sambönd séu hreinræktuð einokunarfyrirtæki, það er bara eitt FIFA og eitt FIDE.
Slík einokun býður spillingarhættunni heim.
En hvað er til ráða?
Ekki skortir samkeppni í boxheimum, þar er fleiri en eitt alþjóðasamband. Og alger ringulreið, engin veit hver er heimsmeistari í þungavikt.
Auk þess eru hnefaleikar þekktir fyrir flest annað en spillingarskort.
Af þessu má sjá að ekki er til nein einföld lausn á þeim vanda sem við er að glíma í heimi íþrótta.
Enda eru góðar lausnir vandfundnar þótt geiparar haldi annað.
Athugasemdir