Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Febrúarbyltingin rússneska, 100 ára afmæli

„Hvílíkar lygar hvílík óheilindi hvílík söguleg stórslys“ segir Sigfús Daðason í ljóðabókinni Hendur og orð. Ekki fylgir sögunni hvað Sigfús hafði í huga enda er skáldskapur þeirrar náttúru að heimfæra má (og á) hann upp á hið ýmsasta. Franski heimspekingurinn Paul Ricœur segir skáldskap hafa óakveðna  tilvísun, gagnstætt staðhæfingum daglega málsins og vísindanna.

Októberbyltingin: Valdarán fámennrar klíku

Ég leyfi mér að heimfæra þessi orð Sigfúsar á októberbyltinguna rússnesku, hún var stórslys sem olli dauða milljóna. Um hana hefur verið logið einhver býsn og jafnt vinir hennar sem féndur sýnt mikil óheilindi. Eiginlega var bylting bolsévíka valdarán fámennrar klíku. Í desember 1917 fóru fram nokkurn veginn frjálsar þingkosningar sem fyrirrennarar bolsanna höfðu skipulagt Bolsévíkar fengu   þar háðulega útreið, fengu aðeins tæpan fjórðung atkvæða, hinn vinstrisinnaði flokkur félagsbyltingarmanna fékk um 40% atkvæða. En bolsévikar ráku þingið heim með vopnavaldi í janúar árið eftir, einræðið var staðreynd, mörgum mánuðum áður en borgara- og íhlutunarstríðið hófst. Þegar í byrjun aldarinnar vöruðu byltingarmennirnir Rósa Lúxemburg og Lev Trotskí við flokkshugmyndum Leníns. Sá hafði sagt að byltingarflokkurinn yrði að vera miðstýrður stigveldisflokkur fáeinna atvinnubyltingarmanna. En Trotskí og Lúxembúrg bentu á að næði slíkur flokkur völdum  myndi það þýða  einræði flokksins yfir almúganum. Þau höfðu lög að mæla en Trotskí gleymdi (?) sinni gagnrýni og varð einn helsti gerandi októberbyltingar. Lúxembúrg hélt sínu striki og gagnrýndi einræði bolsévíka frá marxísku sjónarmiði, þegar árið 1918. Sama ár tók annar yfirlýstur marxisti, Karl Kautsky, í sama streng og fordæmdi ógnarstjórn bolsanna.

Febrúarbyltingin: Uppreisn alþýðu

Gagnstætt októberbyltingunni var febrúarbyltingin bylting fjöldans (samkvæmt hinu forna rússneska tímatali hófst byltingin í febrúar, samkvæmt okkar tímatali þann 8 mars 1917). Konur tóku virkan þátt í henni, einnig hermenn enda stríðsþreyta einn helsti aflvaki byltingarinnar. Byltingin var algerlega sjálfsprottin, engin pólitísk öfl höfðu skipulagt hana. Afleiðingin varð sú að  keisarinn neyddist til að segja af sér, það er útbreiddur misskilningur (ein lygin) að bolsévíkar hafi steypt honum. Komið var á bráðabirgðastjórn en forsvarar hennar voru ekki miklir bógar og náðu aldrei alveg tökum á stjórn landsins. Þeir báru heldur ekki gæfu til að hætta þátttöku í heimsstyrjöldinni. Einhver staðar las ég  að Frakkar og Bretar hafi haft hreðjartök á þeim,  Frakkar í krafti mikilla fjárfestinga, en ég sel það ekki dýrara en ég keypti það. Alla vega var ringulreið  í landinu og efnahagurinn í ólestri. Verkamanna- og hermannaráðin höfðu engu minni völd en stjórnin.

Hvað hefði getað gerst?

Kannski hefði Rússland orðið að raunverulegu ráðsstjórnarlýðveldi ef bolsarnir hefðu ekki náð undirtökum í ráðunum. Ef til vill hefðu ráðin stjórnað í anda lýðræðisjafnaðarstefnu, ekki kommúnisma eftir forskriftum  Leníns. Hætt þátttöku í heimsstyrjöldinni.  Gert Rússland að velferðaríki og notað náttúruauðæfin í þágu almennings. Því miður eru miklar líkur á að afturhaldssamir herforingjar hefðu framið valdarán,  stundað grimmilegar gyðingofsóknir og annan sóðaskap. Ef til vill hefði rússneskur Hitler náð völdum þar eystra.  Í stað þess tók annar fjöldamorðingi, Jósef Vissarionvitsj Stalín, völdin.

Vilji menn vera byltingarsinnar er best að vera febrúarbyltingarsinni.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni