Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Er ameríkanísering lífshættuleg?

Stundin birti nýlega frétt um Austurríkismenn sem þóttu íslenskar konur alltof feitar enda væru þær sítroðandi skyndibitum inn í ólögulega skrokka sína.

Staðtölur sýna að Íslendingar eru feitasta þjóð Evrópu.

(hér)

Amerísk bíladella og skyndibitamennska

Hvað kemur til?

 Svar: Ameríkanisering.

Eitt er fyrir sig að skyndibitaát og kókþamb eru amerískrar ættar, annað er bílabrjálæði Íslendinga, það  er eins amerískt  og eplakakan.

Ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir því að víða í smábæjum úti  á landi fari menn milli húsa í bílum enda gera Kanar í amerískum smábæjum slíkt hið sama.

Ekki þýðir fyrir græðgis-göfgendur að göfga bílgræðgina með hjali um að Íslendingum sé nauðugur einn kostur að sitja í bílum lon og don því almenningssamgöngur séu svo lélagar.

Í fyrsta lagi fara menn ekki bílandi milli húsa á nápleisum vegna strætóskorts, í öðru lagi er um að ræða vítahring.

Almenningssamgöngur í Reykjavík voru þokkalegar þar til í lok níunda tugarins þegar lúxusskattar voru afnumdir af bílum og þeir snarlækkuðu í verði.

Allir sem vettlingi gátum valdið keyptu sér bíl og hættu að nota strætisvagna, afleiðingin  varð stórfækkun strætóferða sem aftur gerði bílaeign að nauðsyn.

Í smábæjum eru menn undir miklum þrýstingi að kaupa sér bíl, séu menn bílvana eru þeir stimplaðir kommúnistar.

Í þriðja lagi má spyrja hvort almenningur hafi nokkurn tímann sett kröfu um  betri almenningssamgöngur á oddinn.

Ekki var slík krafa efst í huga þeirra 60% Reykvíkinga sem kusu hið strætófjandsamlega íhald í bæjarstjórnarkosningunum 1990.

Stór hluti Íslendinga hatast við almenningssamgöngur og elskar blikkbeljuna meir en nokkuð annað.

Þjóðin  tók að dýrka einkabílinn þegar Kanaherinn kom, skyndibitaátið  og kókþambið eru líka Kanaherstengd.

Athugið að kyrrseta í bílum og draslfæðuát ógna heilsu manna, búast má við heilsuhruni innan tíðar á Íslandi. Hverjir  ætla að borga fyrir það?

Bandaríkjamenn?

„Á spítölum kvelur mig læknanna lið…“

Sagt er að   íslenskir læknar dæli lyfjum í fólk í ríkari mæli en annars staðar á Norðurlöndum.

(hér)

Bæði fúkka- og geðlyfjum.

Það þótt almennt sé viðurkennt að ofstórir skammtar af fúkkalyfjum geti aukið viðnámsþrótt gerlanna.

Aukið viðnámsþrek þessara kvikinda  getur beinlínis drepið fólk.

Sé þetta rétt má spyrja hvort þessi  meinta lyfjadella stafi af amerískum áhrifum.

Einnig þeirri    amerísku dellu Íslendinga að ekki sé hægt leysa vandamál nema með því nota peninga í stórum stíl, í þessu tilviki nota stórfé til lyfjakaupa, í stað að leita ódýrari og heilbrigðari lausna.

Ég spurði hálærðan lækni um þessi mál og hann kvað þetta vera hárrétt, bæði að dælt væri of miklu af lyfjum í landann, eins að orsakirnar væru amerískar.

Lokaorð

Af ofan sögðu sést að ameríkanísering ógnar ekki bara íslensku máli og menningu heldur er hún beinlínis lífshættuleg.

Margt má læra af Bandaríkjamönnum, bæði gott og slæmt, en Íslendingar hafa aðallega tileinkað sér það versta í fari Kana.

Mál er að linni.

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni