DÝRAGARÐUR HEIMSPEKINNAR
Merkilegur fjári hve sterka hneigð heimspekingar hafa til að nota líkingar- og táknmál þar sem dýr leika aðalhlutverkið.
Flugu(heimspeki)menn
Sókrates sagðist vilja vera broddfluga sem angraði samborgara sína svo mjög að þeir hristu af sér slenið og tækju að hugsa.
Ekki sé hægt að hugsa af viti um tilvistarvanda manna nema í samræðum við broddfluguna, það er að segja heimspeking á borð við Sókrates.
Hann kenni mönnum ekkert, hjálpi þeim bara að verða meðvitaðir um það sem þeir hafi alltaf vitað.
Ludwig Wittgenstein notaði líka flugu sem tákn. Markmið heimspeki sinnar væri að hjálpa flugunni að komast upp úr flöskunni.
Með þessu vill hann segja að heimspeki sé honum virkni, ekki kenningasmíð.
Heimspekingurinn bendi mönnum á að þeir séu sem fangaðir í flösku og að leiðin út sé ósköp einföld, bara ef þeir losa sig við ofurtrú á sértækar kenningar.
Ekki þarf mikla skarpskyggni til að sjá að þeir Sókrates og Wittgenstein hafa skylda sýn á heimspeki.
Hún eigi ekki að snúast um sértækar kenningar heldur eigi hún að vera virkni sem hjálpi fólki til að verða betri og skynsamari einstaklingar.
Ljónið, refurinn og skrímslið
Í bók sinni Furstanum segir Niccolo Machiavelli að hinn snjalli stjórnmálamaður verði að vera hugrakkur eins og ljón, lúmskur sem refurinn.
Hann gaf í skyn að aðeins slíkur maður sem væri nánast einráður gæti haldið samfélaginu saman, komið í veg fyrir upplausn (seinna breytti hann um skoðun og gerðist hálfgerður lýðræðissinni).
Breski heimspekingurinn Thomas Hobbes var á svipaðri skoðun, ríkið yrði að hafa nánast öll völd, ella yrði upplausn og stjórnleysi.
Þetta ríki sé eins og skrímslið Leviathan í Biblíunni.
Úlfaldinn, ljónið öskrandi og litla barnið
Í Þannig mælti Zaraþústra segir Friedrich Nietzsche að menn verði að ganga gegnum þrenn stig á þroskaferlinum ef þeir á annað borð vilji verða almennilegar manneskjur.
Fyrsta stigið sé stig úlfaldans sem beri þungar byrðir. Siðferðið og hefðirnar eru slíkar byrðir í mannheimum.
Á næsta stigi rísi maðurinn gegn þessu álagi, hann verði öskrandi ljón.
Á þriðja stiginu verði hann barn sem leikur sér. Leikurinn sé sú virkni manna sem þroskar þá mest.
Listin er jú leikur og hvar væri maðurinn án lista?
Enn eitt ljónið og hundurinn Fídó
Wittgenstein notar líka ljón sem tákn. Hann spyr hvort við gætum skilið talandi ljón og gefur í skyn að það sé ólíklegt.
Líkami manna og félagslegar afstæður þeirra eigi snaran þátt í að ljá orðum og setningum merkingu, líkami ljóns og félagsleg tengsl þess eru ólík mannsskrokknum og mannfélaginu.
Orðin hlytu að miklu leyti merkingu sína af því hvernig þau væru notuð af mönnum. Sú notkun væri aftur bundin virkni og félagslegu tengslaneti.
Því var Wittgenstein enginn unnandi þess sem heimspekingurinn Gilbert Ryle kallaði „Fídó“-Fídó kenninguna um merkingu.
Samkvæmt henni ræðst merking orða af því að þau séu merkimiðar á raunverulega hluti eins og nafnið „Fídó“ er merkimiði á tiltekinn hund.
Kanínan (?) Gavagai
Fleiri kvikindi koma við sögu málspekinnar.
Þegar bandaríski heimspekingurinn Willard Van Orman Quine tók að rýna í merkingarhugtakið kvaddi hann sér til fulltingis kvikindið Gavagai.
Hann velti því fyrir sér hvað gerast myndi ef vestrænn maður hitti mann sem talaði tungumál sem sá vestræna kynni ekkert í og vissi ekkert um.
Þá birtist allt í einu kanína, sá óvestræni segir stundarhátt „Gavagai“.
Getur Vesturlandabúinn verið viss um að kanína heiti Gavagai á tungunni dularfullu? Gæti „Gavagai“ þýtt „óaðskildir kanínuhlutar“?
Eða „kanínu-ferli“? Sá vestræni geti alls ekki svarað þessum spurningum.
Þetta þýði að merking máls, já kenningar almennt, séu vanákvarðaðar af staðreyndum.
Merkingar og kenningar geta ekki verið bara summa af staðhæfingum um staðreyndir.
En hér einfalda ég boðskap Quines all hressilega. Og jafnvel skrumskæli, hann talar hvergi um vestræna menn.
Fuglar og tilleiðsla
Vísindaheimspekingum eru fuglar einatt hugstæðir.
Þegar heimspekingar á borð við Karl Popper hyggjast vega að tilleiðslu gera þeir það einatt með fulltingi svana.
En hvað er tilleiðsla? Hún er alhæfing út frá einstökum tilvikum, hafi menn séð trilljón svani og þeir hafa allir reynst vera hvítir þá beita menn gjarnan tilleiðslu og álykta sem svo að allir svanir séu hvítir.
Þá segir Popper að ekki þurfi nema einn svartan svan til að kollvarpa þeirri kenningu.
Annar vísindaheimspekingur, Carl G. Hempel notaði hrafna sem dæmi er hann hugðist sýna fram á að staðfesting á tilgátum leiddi til þversagna, hann talaði um hrafna-þversögnina.
En það dæmi er alltof flókið, lysthafendur geta gúglað „the raven paradox“.
Amöbur
Áðurnefndur Karl Popper sagði að allar lífverur frá amöbum til Einsteins beittu happa- og glappa-aðferðinni.
Amaban ósjálfrátt og til að lifa af og fjölga sér, Einstein til að skilja tímann, rúmið og afstæðið ógurlega.
Kettir
Greiningarspekingar tönnlast í sífellu á því að kötturinn liggi á mottunni, „the cat is on the mat“ (skyldi kisu ekki leiðast mottuvistin?).
Setningin er oft notuð sem skóladæmi um staðhæfingu.
Meginlandsspekingum þykir lítt til koma og telja þetta dæmi um hve „trívíell“ og andlaus greiningarspeki sé.
Þeim hugnast betur kötturinn frá Cheshire í Lísu í Undralandi. Bros hans var til án kisu, hún var neindin sjálf.
Lokaorð
Í fljótu bragði virðist heimspekin andans megin, fjarri hinu dýrslega.
En nánari athugun sýnir að hún hefur kvikindislegan þátt.
Enda sköpunarverk dýrategundar sem helst vill kenna sig við skynsemi og kallar sig „homo sapiens“.
Athugasemdir