Donald Trump DUCK og forsetaslagurinn
Donald Trump minnir á nafna sinn Donald Duck eða Andrés Önd eins og við köllum hann á Íslandi.
Sama skapvonskan og frekjan, andlitið afmyndast með líkum hætti þegar þeim er mikið niðri fyrir.
Um leið minnir hann á frænda Andrésar, Jóakim Aðalönd.
Fokríkur og slægur, telur sig réttborinn til valda vegna auðs síns.
Lesendur hafa örugglega fylgst með uppátækjum hans í kosningabaráttunni, dónalegum ummælum hans um mexíkóa og konur.
Sem stendur sýna skoðanakannanir að hann hafi mest fylgi meðal frambjóðenda repúblikana en það mun tæpast vara.
Árið 2003 virtist Rudy Giuliani með mest fylgi þeirra sem vildu bjóða sig fram fyrir Repúblikanaflokkinn, fjórum árum síðar hafði Rick Perry forystu. Ekki urðu þeir frambjóðendur flokksins.
Repúblikanaflokkurinn er fremur miðstýrður, valdakjarni hans fær einatt sínu framgengt. Allt bendir til þess að hann vilji Jeb Bush sem líklega verður frambjóðandi flokksins.
En Trump kemur mjög sennilega til með að bjóða sig fram sem óháðan.
Það gæti tryggt Hillary Clinton sigur, Trump gæti hæglega fengið 5-15% atkvæða, atkvæði sem ella hefðu fallið Bush í skaut.
En ef Trump bíður sig ekki fram og Hillary mætir Bush tel ég líklegt að sá síðarnefndi vinni.
Eitt er fyrir sig að óvinsældir Obama smita á Hillary, annað er að stór hluti þjóðarinnar treystir henni ekki, ef marka má skoðanakannanir.
Þriðja atriðið er aldur hennar, mörgum finnst hún í elsta lagi.
Hana vantar líka þennan ógnarsjarma sem fleytti Bill inn í Hvíta húsið.
En hún er hörkufær og reyndur pólitíkus.
Væri forsetaembættið venjulegt embætti sem hægt væri að sækja um þá myndi hún teljast langhæfust umsækjanda.
Mín von er sú að Bernie Sanders velgi henni nógu mikið undir uggann til þess að hún færist ögn til vinstri (hún er of Wall Street sinnuð sem stendur).
Hún barðist á sínum tíma fyrir bráðnauðsynlegum umbótum í heilbrigðiskerfinu ameríska og er tvímælalaust fremur alþýðunnar megin en silfurskeiðungurinn Jeb Bush.
Svo ekki sé talað um skrípið Trump.
Athugasemdir