Dómarinn og sálfræðingurinn, böðull hans
Þorsteinn heitinn Gylfason skrifaði á sínum tíma snaggaralega ádrepu um sálfræði. Hann spurði hvort sálfræði ætti sér einhvern tilverurétt. Og eftir að hafa gagnrýnt ýmsar þekktar sálfræðikenningar svaraði hann: Ég veit það ekki (Þorsteinn 2006: 23-56). Ekki ætla ég mér þá dul að svara spurningunni í stuttri færslu en hyggst ræða dálítið um mögulega veikleika sálfræðinnar. Einnig mun ég taka til umfjöllunar hlutverk sálfræðinnar í dómsmálum, þá einkum og sérílagi í frægasta dómsmáli Íslands síðustu áratugi, Guðmundar- og Geirfinnsmálinu (héðan í frá „G&G málið“). Það mál verður tekið til almennrar umfjöllunar með ögn nýstárlegum hætti. Mikilvægt er að hafa í huga að ég velti fyrir mér ýmsum möguleikum, hugsa „hypotetískt“ og staðhæfi lítið. Gagnstætt meðal álitsgjafanum íslenska (erki-læmingjanum) er ég ekki alvitur.
Eymd sálfræðinnar?
Athyglisvert er að tilraunir til að rannsaka sálartetrið með vísindalegum hætti hafa ekki skilað miklum árangri. Margir fræðimenn telja sálgreiningu Freuds ekki ýkja vísindalega. Karl Popper sagði að meginkenningar hans væru ekki hrekjanlegar og þar með ekki vísindalegar, samkvæmt forskriftum Poppers (t.d. Popper 2009: 73-79). Bandaríski vísindaheimspekingurinn Adolf Grünbaum maldaði í móinn og sagði að Popper hefði á röngu að standa hvað hrekjanleika varðaði. Kenningar Freuds væru margar hverjar hrekjanlegar en þær séu alls ekki vel staðfestar af reynslunni. Því væru þær ekki upp á marga fiska (Grünbaum 1984). En nýlega skaut Mark nokkur Solms skildi fyrir Freud og staðhæfir að nútíma taugalíffræði staðfesti margar af kenningum Freuds (t.d. Solms og Kaplan-Solms 2000).
Reyndar hefur Freudismi aldrei haft veruleg áhrif á akademíska sálfræði, atferlisstefnan (e. behaviourism) þess meir, meðan hennar vegur var sem mestur. Aferlissinnar vildu kasta hugtökum eins og sál og huga fyrir róða og láta sér nægja að rannsaka atferli okkar. Hugurinn skipti litlu fyrir skilning á mannskepnunni, atferlisrannsóknir þess meir (t.d. Skinner 1971/3: 16-24). En þrátt fyrir endalausar rannsóknir og tilraunir í massavís leið atferlisstefnan nánast undir lok. Fræðimaðurinn frægi, Noam Chomsky, átti mikinn þátt í að ganga að henni dauðri, ásamt því að vera einn þeirra hugsuða sem lagði grundvöll að nýrri tískukenningu (?), hugfræðinni (e. cognitive science) (t.d. Chomsky 1971). Hennar fylgjendur beita tölvulíkönum á mannshugann, en neita samt ekki tilvist hans, gagnstætt allra rótttækustu atferlissinnunum. Aðalvirkni heilans felist aðallega í því að meðhöndla upplýsingar, einatt með ómeðvituðum hætti (t.d. Branquinho 2001: xi-xlvii). En hve lengi verður Adam í þessari paradísinni, er víst að hugfræðin verði eilíf? Kann hún að hverfa þótt ekkert betra komi í staðinn?
Til að gera illt verra fyrir sálfræðina þá bendir ýmislegt til þess að margar tilraunir sálfræðinga séu vart á vetur setjandi enda sé illmögulegt að endurtaka þær (Sjá Nosek og fleiri 2015). Lítum á Milgram-tilraunina og Stanford fangatilraunina. Þær voru gerðar til að kanna hvort menn væru tilbúnir til að misþyrma náunganum undir vissum kringumstæðum ef valdsmenn hvöttu þá til að gera það. Á síðustu árum hefur framkvæmd þessara tilrauna verið gagnrýnd harkalega og sálfræðingunum, sem tilraunina gerðu, jafnvel borið á brýn að hafa hagrætt staðreyndum. Þeir hafi ætlað að sýna fram á að menn væru almennt tilbúnir að hlýða valdsmönnum og manipúlerað staðreyndir til að fá þá útkomu (t.d. Whitbourne 2013 og Resnick 2018).
Ekki skal dæmt um það en bent á að talsverð missætti eru meðal sálfræðinga um mikilvæg mál og erfitt að ákvarða hver hafi á réttu að standa. Þróunarsálfræði þeirra Jean Piagets og Lawrence Kohlberg hefur verið afar umdeild, t.d. hefur íslenski heimspekingurinn Kristján Kristjánsson gagnrýnt hana og vitnað í sálfræðinga, máli sínu til stuðnings (t.d. Kohlberg og Hersh 1977: 59, t.d. Kristján 1992: 191). Greindarmælingar eru líka umdeildar, bandaríski fræðimaðurinn Howard Gardner telur að ekki sé til nein ein allsherjar greind, heldur margar greindargerðir. Aðrir sálfræðingar andæfa því og tala um g-þáttinn sem samþætti greindargerðir sem á yfirborðinu viðrast ólíkar hver annarri ("Theory of Multiple Intelligence" og "G-factor"). Ekki má gleyma deilunni um hvort geðveiki sé raunveruleg. Fræðimenn á borð við Thomas Szasz, R.D. Laing og Michel Foucault neituðu því að svo væri (t.d. Szasz 1972). Aðrir, bæði sálfræðingar og geðlæknar, vörðu hugmyndina um geðveiki (um Szasz og gagnrýnina á hann, sjá t.d. Ghaemi 2018). Séu sammæli um grundvallarforsendur kennimark þróaðra vísinda þá getur sálfræðin ekki talist til þeirra.
Tekið skal fram að ég er ekki sálfræðimenntaður þótt ég hafi grautað talsvert í heimspekilegri sálfræði. Líka skal tekið fram að ég fordæmi alls ekki sálfræði. Ég hef sjálfur lært mikið af lestri sálfræðirita og útiloka ekki að hugfræðin muni skapa sálfræðinni traustan grundvöll. En sálfræði er, alla vega enn sem komið er, fjarri því að vera pottþétt.
Hið brigðula minni
Á síðustu áratugum hefur sú kenning orðið vinsæl meðal sálfræðinga að minni mannskepnunnar sé brigðult. Stór hluti þess sem við höldum að séu raunverulegar minningar séu tilbúningur, stundum vegna ytri áhrifa (köllum þær „gerviminningar“). Hægt sé að manipúlera menn til að trúa því að allra handa fantasíur séu raunverulegar minningar (t.d. Eisold 2012). En hvað ef ekki er hægt að endurtaka þær tilraunir, sem kenningin byggir a.m.k. að einhverju leyti á? Hvað ef hér er á ferðinni enn ein vafasöm tískukenningin sem gleymist á morgun? Kenningunni um að valdsmenn geti manipúlerað minni fólks minnir ekki eilítið á kenningar Stanley Milgrams og Philips Zimbardo (maðurinn á bak við Stanfordtilraunina). Byggi síðarnefndu kenningarnar á vafasömum forsendum þá má spyrja hvort kenningin um hið manipúleraða minni sé skárri.
Víkur nú sögunni að Gísla Guðjónssyni, virtum og víðfrægum réttarsálfræðingi. Hann hefur haldið því fram að játningar manna í ýmsum sakamálum byggi á gerviminningum. Það gildi m.a. um játningarnar í frægasta sakamáli Íslands, Guðmundar og Geirfinnsmálinu (Gísli 2011). En efast má um rannsóknir og mögulegar tilraunir Gísla á þeim forsendum að sálfræði sé ekki nógu öflug fræðigrein. Sú staðreynd að Gísli er góður fulltrúi fræðigreinarinnar breytir engu um það. Þess utan gildir almennt um velflestar alvöru fræðikenningar, meira að segja í eðlisfræði, að þær eru fallvaltar sem þýðir að þær gætu verið rangar. Reyndar er með nauðsyn óhrekjanlegur þáttur í alvöru vísindakennikerfum, það sá Popper ekki (Stefán 2011: 205-234 og Stefán 2016: 59-86). Þessi þáttur er safn meginforsendna kerfanna og er óprófanlegur, alla vega tímabundið. Sé hugfræðin réttm nefnd „vísindi“ þá má ætla að hún hafi slíkan óhrekjanlegan þátt, auk fjölda fallvaltra kenninga.
En engin ástæða er til að ætla að kenningar Gísla séu hluti af óhrekjanlegum þætti kennikerfis, þær varða ekki meginforsendur þess. Því hljóta flestar þeirra að vera fallvaltar (eða ættu a.m.k. að vera það). Þær gætu meira að segja verið rangar, þó ekki væri nema vegna þess að það er mannlegt að skjátlast. Kenningar hans um játningarnar í G&G málinu hafa valdið miklu um breytta afstöðu manna til þess, vel mögulega líka um sýknudóminn nýja. Engum virðist hafa hugkvæmst að þolprófa niðurstöður Gísla með hliðsjón af margháttaðri gagnrýni á sálfræðina.
Í Noregi hefur verið deilt um hvort mikið mark sé takandi á umsögnum sálfræðinga í dómsmálum, t.d. hvort þeir séu færir um að meta hvort sakborningar hafi verið með sjálfum sér þegar þeir frömdu meintan glæp. Og hvort líklegt sé að þeir muni gera sig seka um svipaða glæpi í framtíðinni (t.d. Helmikstøl 2015: 266-275). Alla vega er engin ástæða til þess að láta sálfræðinga fá síðasta orðið í dómsmálum, jafnvel þótt þeir séu virtir fræðimenn eins og Gísli Guðjónsson.
Játningar og sakamál
Af einhverjum ástæðum hefur sú saga komist á kreik að sakborningar í G&G málinu hafi einvörðungu verið dæmdir á grundvelli játninga sinna. Þetta er rangt, vitnisburður ýmissa aðila og meint verksummerki ýmis höfðu sitt að segja (t.d. Dómur 1980: 5, 12, 110, 118-119, 300-348). Sævar játaði á ellefta degi eftir handtöku, hafi lögreglumenn getað vélað hann á svo stuttum tíma til að bera fram falsjátningu þá hafa þeir verið drjúgari við heilaþvott en Norður-Kóreumenn. Það tók þá síðarnefndu allmarga mánuði að heilaþvo bandaríska stríðsfanga. En ekki má útiloka þann möguleika að Sævar og hinir sakborningarnir hafi beinlínis verið neyddir til að játa með hótunum um ofbeldi. Hinir voru handteknir skömmu síðar og játuðu líka ansi fljótt. Sú staðreynd að þeir drógu játningarnar síðar tilbaka sannar hvorki eitt né neitt, ekki er óalgengt að sakborningar geri slíkt þótt sekir séu (Erla hafði ekki dregið vitnisburð sinn um Guðmundarmálið tilbaka þegar Hæstaréttardómur féll 22 febrúar 1980, sjá Dómur 1980: 6).
Og ef gerviminningar eru eins algengar og margir sálfræðingar telja þá má fullt eins vera að í hugum sakborninga hafi orðið til gerviminningar um sakleysi þeirra og harðræði. Sem sagt: Þeir gætu hafa farið að trúa þvi að þeir væru saklausir þótt þeir væru ef til vill sekir. Athugið að ég útiloka alls ekki að játningarnar hafi byggt á gerviminningum, ég segi aðeins að fullt eins sé líklegt að sýknukröfur sakborninga gætu hafa byggt á slíkum gerviminningum. Athugið líka að ég er efins um ágæti sálfræðilegra rannsókna, eins og áður segir kann einhver meiriháttar veila að vera í þeim rannsóknum sem kenningarnar um gerviminningar byggja á.
Tekið skal fram að vel má vera að sakborningar hafi verið beittir harðræði í fangavistinnni en það þýðir ekki að játningarnar HLJÓTI að hafa skapast vegna harðræðis. Kannski voru þeir beittir harðræði en bara EFTIR játningarnar. Reyndar var á sínum tíma gerð rannsókn á staðhæfingum sakborninganna um illa meðferð og komust menn að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki (t.d Dómur 1980: 6). Síðari rannóknir bentu í aðra átt en ekki er gefið að meira sé að marka þær en fyrri rannsóknir. Að öllu jöfnu ætti að vera meira að marka fyrri rannsóknir, þar eð margt gleymist á löngum tíma og tímans tönn skaddar og eyðileggur sönnunargögn. En auðvitað kunna að hafa verið meinbaugar á fyrri rannsóknum, ekki þeim síðari. Víst er um að á dögum G&G málsins voru í gildi lög sem kváðu á um að halda mætti mönnum í gæsluvarðhaldi æði lengi, mér sýnast slík lög vera óréttlát.
Menn verða að skilja að ég er ekki að dæma um sekt eða sakleysi í þessari færslu. Ég er aðeins að velta vöngum yfir ýmsum möguleikum í stöðunni. Kannski voru játningar sumra sakborninga falsjátningar, annarra ekki. Kannski byggði sýknukrafa sumra þeirra á raunverulegum minningum, annarra ekki. Kannski voru þeir allir sekir eða allir saklausir, hver veit. Kannski voru þeir allir sekir um hvarf annað hvort Guðmundar eða Geirfinns en saklaus af hvarfi hins. Kannski voru sumir sekir um hvarf Guðmundar, aðrir um hvarf Geirfinns. Hver veit, kannski eru þeir enn á lífi, hafandi komið sér fyrir í fjarlægum löndum.
Dómar
Það eru engin ákvæði í íslenskum lögum um að ekki sé hægt að dæma menn fyrir morð nema lík finnist. Auk þess hafa menn verið dæmdir fyrir eiturlyfjasmygl þótt smyglvarningur fyndist ekki. Því verður ekki annað séð en að dómarar hafi farið að lögum þegar þeir dæmdu sakborninga í G&G málinu árið 1980 þótt lögin kunni að hafa verið gölluð. Dómararnir gátu ekki séð fram í tímann og því ekki þekkt kenningarnar um gerviminningar. Þeir voru heldur ekki skyldugir að kokgleypa öllu sem sálfræðingar segja. Ekki heldur staðhæfingum sakborninga um að þeir hefðu verið beittir harðræði, engar órækar sannanir voru fyrir þeim. Þvert á móti, eins og áður segir bentu rannsóknir þess tíma að svo væri ekki, dómarnir gátu ekki séð fyrir að seinna tíma rannsóknir leiddu til annarrar niðurstöðu. Og eins og áður segir er ekki óalgengt að sekir menn dragi játningar tilbaka.
Í dómnum frá 1980 kemur fram að Helga Gísladóttir, áður starfsmaður Kópavogshælis, staðhæfir að Andrea nokkur Þórðardóttir hafi hringt í sig og beðið sig að draga fyrri vitnisburð sinn tilbaka og segja réttinum að Sævar hafi verið á Kópavogshæli lungann úr nóttinni 26 janúar 1974, nóttina sem Guðmundur hvarf (Dómur 1980: 4-5 ). Sé þetta rétt þá hefur Andrea, jafnvel Sævar sjálfur, beðið Helgu um að bera fram ljúgvitni. Samkvæmt dóminum frá 1980 reyndu sakborningar hvað eftir annað að bendla aðra við málin en játuðu svo að um væri að ræða rangar sakargiftir (Dómur 1980: 11, 36, 357 og víðar). Í ofan á lag höfðu þeir verið dæmdir fyrir margháttuð afbrot, þar á meðal skjalafals og auðgunartilraunir þar sem blekkingum var beitt (Dómur 1980: 29-37, 140-150 og víðar). Að bera rangar sakargiftir vísvitandi á menn, falsa skjöl og beita ýmsum blekkingum er að ljúga með ýmsum hætti. Var óeðlilegt að láta sér detta í hug að sakborningar lygu líka þegar þeir lýstu yfir sakleysi sínu og drógu játningarnar tilbaka?
Nefna má að Sævar staðhæfði er hann dró játninguna tilbaka að hann hefði verið heima hjá móður sinni nóttina sem Geirfinnur hvarf. Hann gaf allnákvæma lýsingu á sjónvarpsþætti sem hann sagðist hafa horft á þetta kvöld (Dómur 1980: 201). En athugið að þetta segir hann nokkrum árum síðar. Að muna hvaða þátt hann horfði á ósköp venjulegt nóvemberkvöld og hvert inntak hans hafi verið getur ekki þýtt annað en að hann hafi haft klísturheila. Nema hann hafi ekki séð myndina heldur hafi einhver lýst myndinni nákvæmlega fyrir honum og hann lagt lýsinguna á minnið. Í ofan á lag sagði .móðir hans aðra sögu, þau mæðgin hefðu kvatt hvort annað klukkan tíu þetta kvöld og hún ekki séð hann aftur þetta kvöld (Dómur 1980: 316-317). En auðvitað gæti henni hafa skjátlast eða hún hafi af einhverjum ástæðum sagt ósatt. Nema rangt sé skýrt frá ummælum hennar í Dómi 1980. Vel má vera að ýmislegt sé ranghermt í þeim dómsskjölum.
Í ljósi alls þessa má telja skiljanlegt að dómararnir skyldu ekki taka mark á afturköllun játninga. Ekki verður það síður skiljanlegt í ljósi þeirrar staðreyndar að Erla hafði ekki dregið játningu sína tilbaka þegar Hæstiréttur réttaði í málinu. Dómararnir gátu ekki vitað að hún myndi draga játninguna tilbaka eftir að dómur féll.
Þeir virðast hafa beitt þeirri vísindalegu aðferð sem kölluð er „ályktun að bestu skýringu“ (e. inference to the best explanation) (Harman 1965: 88-95). Slík ályktun byggir á því að menn leita að bestu skýringu á tilteknu fyrirbæri, í ljósi FYRIRLIGGJANDI GAGNA. Þau gögn voru játningar sakborninga, meint verksummerki og vitnisburður ýmis. En slíkar ályktanir eru fallvaltar, kannski er veila í fyrirliggjandi gögnum, kannski hafa þeir sem ályktuna draga ekki aðgang að öllum gögnum sem máli skipta. Þess vegna getur vel verið að dómurinn hafi verið rangur, að sakborningar hafi í reynd verið saklausir en dómararnir ekki þekkt öll gögn sem máli skiptu. En ekki er hægt að tala um dómsmorð nema dómarar hafi vanvirt lögin og lögin réttnefnd „ólög“. Svo var ekki í þessu tilviki.
Aftur á móti er mannlegt að skjátlast, dómarar eru fallvaltir eins og aðrir menn. En hér ber þó að nefna að lög verður að túlka, engin lagabókstafur er 100% einræður, m.a. vegna þess að stöðugt þarf að beita lögum á nýjar og óvæntar aðstæður. Einnig breytast skilgreiningar á háttsemi stöðugt, t.d. var fransk-sænski menningarvitinn Jean-Claude Arnault dæmdur fyrir nauðgun í ljósi nýrrar skilgreiningar á hugtakinu en hefði tæpast verið dæmdur fyrir tuttugu árum þegar skilgreiningin var öllu þrengri. Kannski túlkuðu dómararnir í G&G málinu 1980 lögin í of miklum mæli sakborningum í óhag. Ef til vill hefði átt gefa því meira vægi að hvorki fundust lík né morðvopn, jafnvel þótt engin ákvæði hafi verið í lögum um „habeas corpus“. Hæstiréttur gaf þessu reyndar nokkuð vægi og mildaði hinn upprunalega dóm lægra dómsstigs, meðal annars vegna þess að lík höfðu ekki fundist (Dómur 1980: 378).
En athugið að hugsanlega túlkuðu dómarnarnir í sýknunardóminum nýja lögin sakborningum óþarflega mikið í hag (Dómur 2018). Spyrja má hvort ekki sé fulldjarft af Hæstarétti að dæma í málinu nú, þegar allmargir hlutaðeigandi aðilar eru látnir, minningar teknar að fölna og sönnunargögn mörg horfin í tímans elfur. Merkilegt nokk verður vart sagt að dómaranir 2018 rökstyðji ákvörðun sína um að sýkna sakborninga, gagnstætt því fylgdi mjög ítarlegur rökstuðningur dóminum frá 1980. Auk þess var margt sérkennilegt við nýafstaðin réttarhöld, saksóknari og allir verjendurnir voru innilega sammála um rétt væri að sýkna sakborninga. Rétt eins og saksóknari og verjendur við Moskvuréttarhöldin árið 1937 sem voru sannfærðir um sekt sakborninga. Þessi einhliða málflutningur hefur dunið á dómurunum alllengi og kann að hafa litað afstöðu þeirra. Einnig kann óttinn við almenningsálitið hafa haft áhrif á þá, íslenska læmingjahjörðin, sem áður heimtaði höfuð sakborningar á silfurfati, breytti um stefnu og heimtaði sýknun og engar refjur. Hið sama kann að hafa átt við um dómana 1980, kannski hafði krafa læmingjanna um refsingu áhrif á afstöðu dómaranna þá. Mikilvægt er að hafa í huga að ég held ekki að sýknudómurinn 2018 hafi verið dómsmorð, dómararnir dæmdu að einhverju leyti eftir öðrum lögum en þeim sem í gildi voru árið 1980. Sum part höfðu þeir aðgang að nýjum gögnum, t.d. rannsóknum Gísla, skilgreiningar á lykilhugtökun kunna líka að hafa verið aðrar. Meðal þeirra gagna sem dómararnir 2018 höðfu aðgang að, ekki fyrirrennarar þeirra, er vitnisburður konu sem nýlega steig fram og staðhæfði að hún hefði setið í bíl sem óvart ók á Guðmund og varð honum að bana. Hún segir að ökumaður hafi falið líkið og farið á lögreglustöð og bendlað Sævar og félaga við hvarfið (Kristján Kormákur og Óðinn 2018). Hér vakna auðvitað spurningar um hve mikið sé að marka minningar um atburði meira en fjörutíu árum eftir að þeir áttu sér stað (gleymum heldur ekki kenningunni um gerviminningar). En kann vitnisburður ökumannsins (réttur eða rangur) að hafa átt þátt í að grunur féll á Sævar og félaga? Hvort sem dómararnir 2018 tóku mikið eða lítið mark á framburði konunnar þá eru dómar þeirra fallvaltir rétt eins og dómarnir frá 1980.
Nú kann einhver að spyrja hvort ég sé hlutlaus aðili í þessu máli. Ég spyr á móti hvort hægt sé að meta það með hlutlausum hætti. Og þótt ég kunni að vera hlutdrægur þá gæti ég hafa slysast til að höndla sannleikann um G&G málið. Karl Marx var ekki hlutlaus í dómum sínum um kapítalismann en kann samt að hafa rambað á einhver sannindi um hann. Milton Friedman var heldur ekki hlutlaus í dómum sínum um markaðskerfi en gæti samt hafa slysast til að finna einhver sannindi um það. Eins og áður segir dæmi ég alls ekki um sekt eða sakleysi sakborninga í G&G málinu, ég hef enga skoðun á því.
Mikilvægt er að nefna að sýkna ber menn ef sannanir eru ónógar þótt dómarar hafi kannski grun um að sakborningar séu sekir. Sýknun er ekki það sama og yfirlýsing um sakleysi.
Hvað sem því líður er allt hjal um dómsmorð í þessu máli er út í hött. Athugum að lokum eftirfarandi röklega möguleika: 1) Játningar sakborninga hafi fengist með ólögmætum hætti (harðræði) en þær hafi samt verið sannar. 2) Játningar sakborninga hafi fengist með ólögmætum hætti og verið ósannar. 3) Játningar sakborninga hafi fengist með lögmætum hætti og verið sannar. 4) Játningar sakborninga hafi fengist með lögmætum hætti og verið ósannar. Af 1-4 leiðir að ýmsir möguleikar eru fyrir hendi: a) Ekki hafi verið framið dómsmorð árið 1980 og niðurstaða dóms verið rétt; b) Dómsmorð hafi verið framið 1980 en samt hafi niðurstaða dóms verið rétt; c) Ekki hafi verið framið dómsmorð árið 2018 og niðurstaða dóms verið rétt; d) Ekki hafi verið framið dómsmorð árið 2018 en niðurstaða dóms verið röng; e) Framið hafi verið dómsmorð árið 2018 en niðurstaða dóms hafi verið rétt; f) Framið hafi verið dómsmorð árið 2018 og niðurstaða dóms verið röng. Þessum möguleikum verða menn að velta fyrir sér áður en þeir koma með stórkarlalegar yfirlýsingar um G&G málið.
Lokaorð
Ég hóf grein mína með því að benda á ýmsar mögulegar veilur sálfræðinnar, hún virðis ekki vera ýkja öflug fræðigrein. Í ljósi þess ber að hafa varann á þegar menn vitna í sálfræðirannsóknir í dómsmálum. Líka þær rannsóknir sem áttu að sýna að játningar í G&G málinu hefðu byggt á gerviminningum. Hvað sem tautar og raular var dæmt í málinu árið 1980 í samræmi við þágildandi lög og aðgengileg gögn. En dómurunum kann að hafa skjátlast, en það gildir líka um dómarana árið 2018.
Ég hef lagt mikla áherslu á að ég hafi enga skoðun á því hvort sakborningar í G&G málinu hafi verið sekir eða saklausir. Né heldur hvort rétt hafi verið að sýkna þá vegna ónógra sönnunargagna. Ekki heldur hvort þeir hafi verið beittir harðræði.
Samt verð ég ekki vinsæll af að skrifa þessa færslu, læmingjarnir koma til með að hrína af vonsku. En ég bakaði mér líka óvinsældir þegar ég leyfði mér að gagnrýna útrásina á meðan læmingjarnir hlupu á eftir útrásargaurunum með lafandi tungu. Hjörð þessari er aðeins hægt að vorkenna.
Heimildir:
Branquinho, Joao (ritstjóri) (2001): The Foundations of Cognitive Science. Oxford: Clarendon Press.
Chomsky, Noam (1971): „The Case Against B.F.Skinner“, New York Review of Books, 30 desember, https://www.nybooks.com/articles/1971/12/30/the-case-against-bf-skinner/ Sótt 6/10 2018.
Dómur 1980 http://www.rikissaksoknari.is/media/arsskyrslur/Domur-i-mali-Haestrettar-nr.-214.1978.pdf Sótt 5/10 2018
Dómur 2018 https://www.haestirettur.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=34b0664d-10ee-4f6d-917e-67ed04c3bc5c Sótt 5/10 2018.
Eisold, Ken (2012): „Unreliable Memory“, Psychology Today. https://www.psychologytoday.com/us/blog/hidden-motives/201203/unreliable-memory. Sótt 7/10 2018.
„G-factor“: https://en.wikipedia.org/wiki/G_factor_(psychometrics). Sótt 8/10 2018.
Ghaemi, Nassir (2018): „Thomas Szasz: An Evaluation“, Psychology Today, https://www.psychologytoday.com/us/blog/mood-swings/201801/thomas-szasz-evaluation Sótt 8/10 2018.
Gísli Guðjónssson (2011): „Flestir geta játað falskt. Viðtal við Gísla Guðjónsson réttarsálfræðing“, http://www.laeknabladid.is/tolublod/2011/11/nr/4374 Sótt 5/10 2018.
Grünbaum, Adolf (1984): The Foundations of Psychoanalysis: A Philosophical Critique. Berkeley: The University of California Press.
Harman, Gilbert H. (1965): «The Inference to the Best Explanation», Philosophical Review, Vol. 74, No. 1, janúar, bls. 88-95.
Helmikstøl, Øystein (2017)„Jeg var ikke våken nok“, Psykologi Vol. 54, nr. 3, bls. 266-275. http://www.psykologtidsskriftet.no/index.php?seks_id=481915&a=2. Sótt 6/10 2018.
Kohlberg, Lawrence og Hersh, Richard (1977): „Moral Development: A Review of the Theory, Theory and Practice Vol. 16, No. 2 (apríl), bls. 53-59.
Kristján Kormákur Guðjónsson og Óðinn Svan Óðinsson (2018): „Konan í bílnum stígur fram o.s.frv“, DV 28 september, http://www.dv.is/frettir/2018/09/28/hvad-vard-um-gudmund-einarsson/ Sótt 9/10 2018.
Kristján Kristjánsson (1992): Þroskakostir. Reykjavík: Rannsóknarstofnun í siðfræði.
Nosek, Brian og fleiri (2015): “Estimating the reproducibility of psychological science”, Science, Vol. 349. Issue 6251. http://science.sciencemag.org/content/349/6251/aac4716.full. Sótt 19/3 2018.
Popper, Karl (2009): Ský og klukkur (þýðandi Gunnar Ragnarsson). Reykjavík: Háskólaútgáfan.
Resnick, Brian (2018): „The Stanford Experiment was Massively Influential. We Just Learned it ws Freud“,Vox, https://www.vox.com/2018/6/13/17449118/stanford-prison-experiment-fraud-psychology-replication/ Sótt 12/10 2018
Skinner, B.F. (1971/3): Beyond Freedom and Dignity. Harmondsworth: Pelican. https://selfdefinition.org/psychology/BF-Skinner-Beyond-Freedom-&-Dignity-1971.pdf Sótt 6/10 2018.
Solms, Mark og Kaplan-Solms, Karen (2000): Clinical Studies in Neuro-Psychoanalysis. Introduction to Depth Neuropsychology. London og New York: Karnac Books.
Stefán Snævarr (2011): ”Aðferð og afsönnun. Popper og vísindin”, Ritið, nr. 3, bls. 205-234.
Stefán Snævarr (2016): „Viðtök og vísindi. Um Thomas Kuhn“, Ritið, nr. 3, bls. 59-86.
Szasz, Thomas (1972). The Myth of Mental Illness. London: Paladin.
„Theory of MultipleIntelligence“:https://en.wikipedia.org/wiki/Theory_of_multiple_intelligences Sótt 7/10 2018.
Whitbourne, Susan Krauss (2013): „The Secrets Behind Psychology‘s Most Famous Experiment“, Psychology Today.
https://www.psychologytoday.com/us/blog/fulfillment-any-age/201301/the-secrets-behind-psychology-s-most-famous-experimenthttps://www.psychologytoday.com/us/blog/fulfillment-any-age/201301/the-secrets-behind-psychology-s-most-famous-experiment Sótt 11/10 2018
Þorsteinn Gylfason (2006): „Ætti sálarfræði að vera til?“ Mál og sál. Reykjavík: Mál og menning (Edduútgáfa), bls. 23-56.
Athugasemdir