Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

David Bowie (1947-2016)

David Bowie (1947-2016)

Rétt í þessu bárust mér þær sorgarfregnir að einhver frumlegasti rokkari sögunnar, David Bowie, væri allur. Krabbinn tók hann.

Ekki er liðinn nema rúmur mánuður síðan ég sendi tillögu um grein til útgefenda safnrits um Bowie og heimspeki, veit ekki enn hvort þeir hyggist birta hana. Þar notaði ég Bowie sem stökkpall til umræðu um sjálfið og þess margháttuðu leyndarmál. Er sjálfið raunverulegt, er það einhamt? Bowie var ekki einhamur, hann virtist skipta um gervi, jafnvel sjálf. Skírður var hann David Jones en breytti sér í David Bowie sem aftur varð Aladdin Zane, Ziggy Stardust,  The Thin White Duke o.s.frv. Hann var „her af sér“ svo vitnað sé óbeint  í Björk („army of me“).

Í mínum huga merkasti rokklistamaður áttunda tugarins, jafn skapandi og Dylan var á þeim sjöunda. Breytti stöðugt um stíl, rétt eins og Dylan. Sagan um Ziggy Stardust á samnefndri plötu er góð, saga um geimrokkstjörnu, ris og fall hennar. Áður hafði hann sungið um geimfarann Tomma major.

Diamond Dogs frá 1974 er að minni hyggju einhver besta rokkplata allra tíma, bæði hvað varðar tónlist og texta. Bowie býr til óhugnanlegan framtíðarheim þar sem geislavirk vélmennaskrímsli skríða um jörð og alþýða manna þráir einræðisherra sem hugsar fyrir hana. Tónninn í flestum lögum æði dapur en um leið má finna á plötunni  hið alhressa rokklag Rebel, Rebel.

Á næstu plötu, Young Americans, söðlar Bowie um og syngur eintóm fönklög, hefur breytt sér í The Thin White Duke. Svo koma Berlínarplöturnar og samstarfið við Brian Eno, elektrónísk tilraunamúsik. Þá fylgja  plötur eins og Lodger og Heroes,  prýðilegar popprokkplötur. Let‘s Dance er partíplata allra tíma o.s.frv, o.s.frv.

Ég sá hann á tónleikum í Ósló 1976, ógleymanlegir. Eins og  hann  sjálfur.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni