Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Chuck Norris í Hvíta húsinu

Chuck Norris í Hvíta húsinu

Margir lesenda kannast eflaust við hasamyndaleikarann Chuck Norris sem var Charles Bronson fátæka mannsins. Hann lék Walker, Texas Ranger um nokkurt skeið, var mest í því að berja á bófum með austurlenskum bardagabrögðum en notaði rólegu augnablikin til að koma stjórnmálaskoðunum sínum á framfæri. Í einum þættinum staðhæfði hann að Bandaríkin notuðu stórfé í aðstoð við önnur lönd, fé sem nota hefði átt til að leysa bandarísk vandamál. Norris virtist ekki vita að Bandaríkin nota ekki hlutfallslega stóran hluta af þjóðarauð í þróunaraðstoð, mun minni en Norðurlönd að 51 ríkinu náttúrulega undanskildu. Hann skildi heldur ekki að þessi þróunaraðstoð er mikilvæg til að afla Bandaríkjunum vinsælda erlendis. Eins og Joseph Nye bendir á þá er mjúkt vald engu síður mikilvægt en hernaðarvald og annað hörkuvald.

Trump sem Norris

Núverandi forseti hefur svipaða heimssýn og Norris enda fyrrum þátttakandi í fjölbragðaglímukeppni. Hann telur sér trú um að hervernd Bandaríkjanna í Suður-Kóreu og annars staðar sé góðgerðarstarfsemi sem þau lönd er verndar njóta ættu helst að borga fyrir. Honum virðist um megn að skilja að þessi hervernd er kannski fyrst og fremst vernd fyrir Bandaríkin. Ef Norður-Kórea hernæmi Suður-Kóreu myndi það veikja valdastöðu Banaríkjanna feiknmikið, fyrir utan það áfall sem það yrði heimshagkerfinu og þar með hagkerfi Bandaríkjanna. Engin myndi treysta Bandaríkjunum framar, alþjóðleg áhrif þeirra myndu snarminnka.  Þetta skildu  fyrri forsetar,  herstöðin á Miðnesheiði var aðallega liður í varnarkerfi Bandaríkjamanna. Dátarnir þar hefðu ekki getað varið Ísland í fimm mínútur. Þeirra aðalhlutverk var að fylgjast með kafbátum og heflugvélum Sovétríkjanna með bandarískt og vestur-evrópskt öryggi í huga. Án Vestur-Evrópu hefðu Bandaríkin ekki mátt sín mikils í kalda stríðinu. Trump virðist ekki geta skilið að lönd eru ekki fyrirtæki þar sem eitt tapar þegar annað vinnur. Ég hef áður bent á að Paul Krugman hefur sett fram athyglisverða gagnrýni á hugmyndina um samkeppnishæfi ríkja en sú hugmynd hefur að forsendu að ríki séu eins og einkafyrirtæki.

Hnattvæðing og fylgikvillar hennar

En því verður ekki neitað að sumt sem Trump segir um hnattvæðinguna er ekki alfjarri sannleikanum. Hún hefur ýmsa leiða fylgikvilla, straumur ólöglegra innflytjenda til Bandaríkjanna veldur því að laun ófaglærðs verkafólks þar vestra lækka (en kjör innflytjendanna batna kannski aðeins í staðinn). Og heilu borgirnar í ryðbeltinu urðu  eymd og atvinnuleysi að bráð þegar verksmiðjurnar þar gátu  ekki lengur keppt við kínverskar verksmiðjur (kjör Kínverja skánuðu fyrir vikið). En lausn Trumps á vandanum mun gera illt verra, allir (nema kannski forríkir verksmiðjueigendur í vinahópi Trumps) munu tapa á viðskiptastríði og toll- og landamæramúrum. Öllu gáfulegra er að efla verkalýðsfélög og velferðarkerfi, reyna að taka upp „flexicurity“ að dönskum sið. Í danska og skandínavíska kerfinu er auðvelt að reka og ráða en ríkið sér vel um þá sem missa vinnuna, fjármagnar t.d. endurmenntun. Þetta var hugmynd Sanders, hún yrði vissulega mjög erfið í bandarískri framkvæmd en skárri en fjölbragðaglímu-lausnir Trumps.

Skárri en hugmyndir Chuck Norris og hans líka.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni