Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Cervantes og skáldsagan

Miguel de Cervantes er sagður hafa dáið sama dag og Shakespeare, eitthvað mun það þó málum blandið

 

 

En merkileg tilviljun, ef satt er,  því þeir  lögðu sinn hvorn hornsteininn að vestrænum bókmenntum og menningu. Cervantes er þekktastur fyrir söguna um Don Kíkóta en hún er einatt talin fyrsta eiginlega skáldsagan. Kannski á Cervantes jafn mikinn þátt í að skapa mennskuna og Shakespeare.

Skáldsagan er nefnilega bókmenntaform mennskunnar í ríkari mæli en eldri bókmenntagreinar. Dróttkvæðin fjalla um víg og víkingakónga, grískir harmleikir um makt örlaganna.  Íslendingasögurnar eiginlega líka:  „Eigi má sköpum renna“.

Skáldsagan fjallar um mannfólkið sem slíkt, mannheima í allri sinni fjölbreytni.

Hvorki Forngrikkir né Íslendingar á miðöldum þekktu hugtakið um „fiksjon“, hið skáldaða. Líklega hafa fornmenn litið á Ísldendingasögurnar sem  hreina sagnfræði. Harmleikirnir voru taldir vera sannferðugar lýsingar á atburðum fortíðarinnar. Þegar einhverjir forngrikkir fóru að gera tilraunir með fiksjónir voru þeir taldir lygalaupar, menn þekktu bara andstæðuparið sannleika og lygi.

Er  íslenskur sagnameistari gisti hirð Sverris Noregskonungs og sagði honum tröllasögur hló  konungur og sagði að sér líki svona lygasögur best. Konungnum  datt ekki í hug að sagan væri  skálduð, hugtakið um skáldaða sögu var ekki til.  Af sömu ástæðu hefur sagnameistarinn sjálfur tæpast litið á söguna sem hreinan skáldskap.

Einn liður í nútímamenningu er hugmyndin um að auk sannleika og lyga sé til svið hins skáldaða, hins  fiksjonella. Hugsanlega tengt hugsanatilraunum í heimspeki og vísindum, fræg er tilraun Einsteins þar sem hann ímyndar sér að hann sitji á ljósgeisla. Tala mætti um „vísindaskáldskap Einsteins“ sem þjónaði þeim tilgangi að kanna eigindir ljóshraðans.

Hið skáldaða  og hugsanatilraunir eru afurðir  mjög sértækrar (abstrakt)  hugsunar sem ekki var fullmótuð í eldri menningarheimum.

Skáldsagan er eðli sínu samkvæmt fiksjon þótt hún kunni að geyma margvíslegan sannleika. Almennileg skáldsaga er margþætt og fjölbreytt, oft kemur fjöldi persóna  við sögu. Yfirleitt er reynt að gæða þær lífi, gera þær að einhverju öðru og meiru en fulltrúum ákveðinna hugmynda eða hópa, samanber það sem sagt var mennskuna í skáldssögunum. Persónurnar þróast venjulega í rás  sögunnar, breytast, rétt eins og raunverulegt fólk. Þær eru venjulega ekki algerir þrælar örlaganna heldur hafa a.m.k. eitthvað viljafrelsi og móta sjálfar sig með eigin athöfnum.

Áherslan er að jafnaði   á fjölda smáatriða sem mynda eina heild, heim hverrar skáldsögu. Heim að gleyma sér í en um leið vera  alminnugur því þessi heimur er líka spegill raunheimsins.

Aristóteles sagði að sagnfræði fjallaði um hið einstaka en í skáldskap (harmleikjunum) væri að finna almenn sannindi. Þetta kann að hafa átt við um hans daga en skáldsagan breytir þessu, hún er gerð bókmennta  sem fjallar jafn mikið um hið einstaka og hið almenna.

Bandaríski heimspekingurinn Martha Nussbaum segir skáldsöguna  einkar gott tæki til að efla siðvitund manna, m.a. vegna þess að hún  sýni hið einstaka og sérstaka við siðferðilegar aðstæður. Þær verði ekki dregnar upp á eina seil, afgreiddar með alhæfingum.

Tékkneski rithöfunduinn Milan Kundera taldi skáldsöguna ásamt sinfoníunni merkasta framlag vestrænnar manna til listanna. Cervantes átti sinn þátt í því framlagi.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni