Bestu myndir aldarinnar
Tíminn líður, tuttugastaogfyrsta öldin er að verða fullorðin. Og kominn tími til að velta fyrir sér bestu listaverkum aldarinnar.
Forsendur matsins
Ég hyggst ræða kvikmyndalist hér og kynna minn bestumyndalista. Um er að ræða leiknar kvikmyndir í fullri lengd, þannig að teiknimyndir, sjónvarpsþættir og heimildamyndir koma ekki við sögu. Ég beini sjónum mínum aðallega að „alvarlegum“, iistrænum myndum og met þær út frá listrænu gildi auk siðferðisgildis (ég læt liggja á milli hluta hvort þessi gildi séu hlutlægt eða huglæg eða bæði og). Þegar listrænt gildi er annars vegar skiptir gæði leiks, myndatöku og handrits miklu. Frumleiki og sjónrænar eigindir hafa líka mikið að segja. Að auki mega kvikmyndirnar gjarnan hafa einhvern alvarlegan, siðferðilegan eða pólitískan boðskap. Taka ber fram að kvikmynd sem gerð hefur verið í þeim tilgangi einum að skemmta áhorfendum og græða fé getur haft bæði listrænt og siðferðilegt gildi. Hringadrottinsmyndir Peter Jacksons voru sjálfsagt gerðar í þeim fróma tilgangi að skemmta mönnum og græða fé. Engu að síður hafa þær visst listrænt og siðferðilegt gildi, þær eru afar vel gerðar og hafa sígilt siðastef, baráttu góðs og ills. Ekki síst baráttuna í sálu sérhvers manns. Ennfremur ber að nefna að vel má skoða kvikmyndir einvörðungu með tilliti til skemmtigildis en það er annar leikur með aðrar leikreglur en sá sem ég leik. Oft ofmeta menn missætti um gæði kvikmynda: Jón segir að Persóna Ingmar Bergmans sé afburðakvikmynda, Gunna fussar og sveiar og telur hana lélega. Nánari athugun sýnir kannski að Jón metur hana út frá listrænum sjónarmiði, Gunna hefur skemmtigildi í huga, henni finnst mynd Bergmans leiðinleg en leiðir ekki hugann að mögulegu listgildi hennar. Þau halda að þau leiki sama leikinn en gera það ekki.
Kvikmyndalist vorra tíma
Víkjum nú að kvikmyndalist þessarar aldar. Níundi og tíundi tugur síðustu aldar voru tímar póstmódernismans, margir kvikmyndahöfundur blönduðu saman alvöru og gríni, list og lágkúru. Nægir að nefna kvikmyndir Coenbræðra, David Lynch, Quentin Tarantnos, Pedro Alodovars, Aki Kaurismäkis og hins gleymda, en snjalla Hal Hartleys. Pulp Fiction er kannski skóladæmi um postmóderníska bíómynd. Mér sýnist að póstmódernisminn sé á undanhaldi, á þessari öld hefur kvikmyndalistin „pólitiserast“. Pólitísk og félagsleg umfjöllunarefni eru í brennidepli í fjölda kvikmynda síðustu ára. Hið pólitíska og samfélagslega virðist jafnvel enn fyrirferðameira nú en það var í kvikmyndalistinnni í kringum 1968. Nefna má Hollywoodmyndir eins og Munich Steven Spielbergs, myndir Dardenne-bræðranna um félagsleg vandamál í Belgíu og kvikmyndir Ken Loach hins breska. Þýskir kvikmyndamenn hafa gert myndir bæði um endalok nasismans og austur-þýska kommúnismans.
Listi minn
Hvað um það, ég gerði lista yfir um hundrað myndir frá þessari öld sem mér hafa þótt hafa listrænt gildi. Myndir sem ég hef sjálfur séð, ég geri mér ljósa grein fyrir að til er fjöldi góðra nýlegra mynda sem ég hef ekki séð, t.d. hin rómaða mynd Gus van Sant, Elephant, og hin kóreska Oldboy. Af þessum hundrað myndum þótti mér ástæða til að nefna eftirfarandi myndir:
Fyrsta skal fræga telja hina írönsku Kandahar í leikstjórn Mohsen Makalabat. Hún fjallar um afghanska stúlku sem fer frá Íran til Kandahar að leita systur sinnar. Hún verður að bera búrku og er ferðin sýnd frá sjónarhorni hennar, sem er takmarkað af búrkunni. Mögnuð kvikmynd, bæði ljóðræn og pólitísk, kannski besta mynd aldarinnar.
Fleiri íranskar myndir koma til greina, t.d. Sölumaðurinn sem Asghar Faradi leikstýrði. Þar er fléttað saman þáttum úr leikriti Arthur Millers, Sölumaður deyr, og hversdagsveruleika Írana.
Af allt öðru tagi er Dogville hans Lars von Triers. Trier bregst ekki aðdáendum sínum í þessari mynd. Hún er einkar frumleg, eins konar kvikmyndað leikrit um valdagirni mannsins og hneigð hans til að niðurlægja náungann. Nicole Kidman leikur aðalhlutverkið ágæta vel.
Önnur dönsk mynd á heima á listanum yfir albestu myndirnar, Jagten (Veiðiferðin) sem Thomas Vintenberg leikstýrði. Hún fjallar um mann sem er ranglega ákærður fyrir að misnota börn kynferðsilega. Mads Mikkelsen briljerar í hlutverki hans.
Um aldamótin reis þriðja bylgja þýskrar kvikmyndalistar, sú fyrsta reis á dögum Weimarlýðveldisins, sú næsta á árunum upp úr 1970. En þriðja bylgjan hneig skjótt, tveir af efnilegustu leikstjórunum, Tom Tykwer og Florian Henckell von Donnersmarck, fóru til Holywood að gera hasamyndir.
En von Donnersmarck náði að gera eina frábæra mynd í Þýskalandi kornungur: Das Leben der Anderen (Líf hinna), mikið drama um ástandið í Austur-Þýskalandi sáluga, afburðavel leikinn og velgerð mynd.
Tykwer sameinaði expressjónisma og myndmál MTV. Af myndum hans má nefna Der Krieger und die Kaiserin (Stríðsmaðurinn og keisarynjan), mynd um mann sem bjargar lífi konu. Hún getur ekki gleymt honum, leitar að honum og finnur hann í vondum málum. Hann hefur framið bankarán þar sem bróðir hans og besti vinur létu lífið. Þau taka saman og vinna úr sínum erfiðu málum. Mergjað tilvistardrama.
Merkasti kvikmyndahöfundur aldarinnar er að mínu mati hinn austurríski Michael Haneke. Í fyrstu kvikmyndum sínum velti hann sér óþarflega mikið upp úr sóðaskap en á síðustu árum hefur hann gert hverja myndina annarri betri. Stofudramað Amour (Ást) er kannski sú albesta, um öldruð hjón og síaukna kölkun konunnar. Aðalleikararnir, þau Jean-Louis Trintingant og Emmanuelle Riva, fara á kostum.
Woody Allen lét ekki deigan síga á öldinni, Blue Jasmin er ein hans bestu mynda. Um konu sem hrapar niður samfélagsstigann og missir vitið fyrir vikið. Kate Blanchett leikur hana afburðavel.
Annar aldraður snillingur, Andrzej Wajda, lét ekki sitt eftir liggja, snilldarkvikmynd hans Katyn fjallar um morð Stalíns á pólskum liðsforingjum í síðari heimsstyrjöldinni.
Fleiri leikstjórar frá hinni fornu Austur-Evrópu gerðu garðinn frægan, ég vil sérstaklega nefna Rúmenann Christian Mungiu og raunsæismyndir hans. Síðasta myndin, Lokaprófið, sýnir hina gjörspilltu Rúmeníu nútímans þar sem menn þurfa að múta yfirvöldum til að fá sæmilegar einkunnir.
Ungverjinn Laszlo Nemes gerði einhverja bestu helfararmynd sem ég hef séð, Son Sáls. Hún gerist í gereyðingarbúðum nasista og fjallar um Gyðing sem vill geta jarðsett son sinn. Við sjáum búðirnar frá hans sjónarmiði, kvikmyndavélin er eins og hans augu, hann sjálfur sést lítið. Þetta eykur mjög áhrif myndarinnar, áhorfandinn samsamast þessum ógæfusama manni.
Af allt öðru sauðahúsi er hin spænska Völundarhús Pans sem mexíkóinn Guillermo del Toro leikstýrði snilldarlega. Þar fléttast saman napur spænskur raunveruleiki á dögum Francos og yfirnáttúrulegur heimur Pans og annarra guða.
Landi del Toro, Alejandro Inarrtu, gerði eina af bestu myndum aldarinnar, hina velþekktu Babel, mynd sem sýnir hvernig viðburðir tengjast á hnattræna vísu á öld hnattvæðingar.
Kínversk kvikmyndalist stóð með miklum blóma í lok síðustu aldar en virðist hafa visnað. Þó má nefna myndir Hong Kongbúans Wong Kar-Wai, ekki síst hina seiðmögnuðu 2046.
Ein íslensk mynd á erindi á listann, Djúpið hans Baltasars Kormáks. Myndskeiðin frá því þegar báturinn ferst og sjómennirnir sökkva í undirdjúpin eru stórbrotin.
Til að ná tölunni fimmtán má bæta við Boyhood Richard Linklaters. Þó ekki væri nema vegna frumlegrar gerðar: Sami leikarinn leikur sama drenginn á mismunandi adurskeiðum, myndin var tekinn á löngu árabili.
Þennan lista mætti gera miklu lengri en látum þessar fimmtán snilldarmyndir nægja. Tillögur og athugasemdir lesenda eru vel þegnar.
PS Tuttugasta og fyrsta öldin hófst 1 janúar 2001, þannig að myndir frá árinu 2000 komast ekki á listann!
Athugasemdir