Bergman 100 ára
Desember 1968, aldimmt, alsnjóa og ískalt. Ég og skólabróðir minn biðum hrollkaldir eftir Hafnarfjarðarstrætó, of kalt til að tala saman að ráði. Loksins kom vagninn og skrölti með okkur áleiðis í Fjörðin. Hvert var erindi þessara fimmtán ára strákpjakka? Að fara í Bæjarbíó að sjá nýjustu mynd sænska kvikmyndaleikstjórans Ingmars Bergman, Stund úlfsins. Myrk og draumkennd, súrrealísk og Kafkakennd, ég skildi ekki mikið en heillaðist. Afþreyingarmyndir bliknuðu í samanburði við hina bergmönsku framúrstefnu. Bergman bættist í hóp minna andlegu förunauta.
Meginstef Bergmans
Um þessar mundir eru hundrað ár liðin frá fæðingu hans og því vert að ræða verk hans og persónu. Hann hóf feril sinn sem leikstjóri í leikhúsi en tók fljótlega að fást við kvikmyndagerð. Skemmst er frá að segja að hann varð fljótlega holdgervingur hins evrópska „auteurs“, þ.e. kvikmyndaskálds, manns sem skapar kvikmynd eins og rithöfundar skáldsögu.
Trúin og tilvistin eru meðal helstu stefja í verkum Bergmans. Þau sjást kannski skýrast í miðaldamyndinni Sjöunda innsiglið þar sem riddarinn teflir við sjálfan dauðann. Persóna segir frá konu sem allt í einu hættir að tala og virðist vera að leysast upp sem persóna. Og í Jarðarberjalautinni gerir aldraður prófessor upp líf sitt um leið og lífið gerir upp við hann. En myndir Bergmans eru ekki endilega alvarlegar og þunglamalegar, meira að segja í Sjöunda innsiglinu bregður fyrir glettni hér og hvar. Ekki skortir glettnina heldur í Fanny og Alexander, þessum myndóði til bernskunnar (alvöruna vantar heldur ekki). Tónlist er enn eitt meginstefja Bergmans, hann leikstýrði allmörgumóperum, fræg er uppsetning hans á Töfraflautu Mozarts sem hann kvikmyndaði með miklum ágætum. Kvikmyndin Haustsónatan fjallar um píanóleikara sem vanrækt hefur dóttur sína. Tónlist leikur veigamikið hlutverk.
Maðurinn Bergman
Hvað um manninn Bergman? Hann var alinn upp á prestsheimili og því ekki furða þótt honum væri trúin hugleikin. Nýleg heimildarmynd lýsir honum ungum sem frekum og ákveðnum leikstjóra á uppleið. Engu síður forvitnilega umfjöllun um líf hans má finna í skáldsögu dótturinnar, Linn Ullmann, Hin órólegu. Þar er honum lýst sem öguðum, frekum og pedantískum manni, fjarlægum föður. En hversu góð heimild er skáldsaga ? Getur dóttir verið óvilhöll? Getur nokkur maður verið óvilhallur í lýsingu sinni á mannfólkinu? Fólk er furðulegt og því engin furða þótt rithöfundar og kvikmyndaskáld geri mannlega tilvist að yrkisefni.
Athugasemdir