Barna-"vernd" og norrænt krataveldi
Bryndís Schram sagði í blaðagrein að þeim hjónum hefði orðið bylt við
þegar þau uppgötvuðu þá dýrkun á Bandaríkjunum sem var landlæg á Íslandi á útrásarárunum. Ég skrifaði á þessum árum grein þar sem ég gagnrýndi þessa dýrkun og benti á ýmsar veilur Bandaríkjanna. Það féll ekki í góðan jarðveg, ég var kallaður „kommadindill“ fyrir vikið. Síðan hefur mikið vatn til sjávar runnið, eftir hrun tóku Íslendingar að dýrka Skandinavíu og þá sérstaklega Noreg. Ég bloggaði gegn þessari dýrkun í fyrra og uppskar skæting.
Barna-"vernd" og forræðishyggja
En nú gerist að Stundin birtir stórmerka grein um yfirgang barnaverndarnefndarinnar norsku. Ekki alls fyrir löngu voru mótmælaaðgerðir víða um lönd vegna þess hve gjörn er barnaverndarnefndin norska er á að taka börn frá foreldrum sínum á hæpnum forsendum. BBC var með þátt um málið og sagði að barnaverndarnefndin væri eins og ríki í ríkinu norska. Yfirleitt stæði réttarkerfið með nefndinni ef foreldrar reyna að fá börnin sín tilbaka með aðstoð réttarins. Stundin tekur í sama streng, hún segir að Fylkisnefndir dæmi barnaverndinni í vil í 99% tilvika (hún nefnir ekki prósentutölur á öðrum dómstigum). Í Stundargreininni er sagt frá viðskiptum íslenskra foreldra við nefndina og er lýsingin sennilega rétt, alla vega í ljósi þess sem BBC og fleiri tiltölulega áreiðanlegar stofnanir segja um málið. Sú forræðishyggja sem birtist í ofurveldi barnaverndarinnar á sér gamlar rætur í Noregi og Skandinavíu. Fyrir rúmum 30 árum gerði þýska vikuritið Der Spiegel að umtalsefni barnaverndarmál í Svíþjóð. Þar sagði að hlutfallslega miklu fleiri sænsk börn væru tekin frá foreldrum sínum en börn í öðrum vestrænum löndum. Geðþótti barnaverndarfulltrúa réði miklu, við má bæta: rétt eins og í Noregi dagsins í dag. Á þessum árum var forræðishyggja sænskra mjög til umfjöllunar, Bretinn Roland Huntford skrifaði bók um Svíþjóð sem hann kallaði „The New Totalitarians“. Sænskt alræði væri alræði hugans, almenningur samsamaði sig yfirvöldum og hlýddi þeim möglunarlaust. Sænskir væru í Gleipnisfjötrum, mjúkum en órjúfanlegum. Ekki þyrfti her og leynilögreglu til að kúga lýðinn, hann kúgaði sig sjálfan. Réttarkerfið væri sniðið að hagsmunum framkvæmdarvaldsins. Huntford rakti þetta meinta alræði til sautjándu aldar þegar Svíþjóð varð þrautskipulagt hernaðarríki þar sem allt samfélagið var sveigt undir hernaðarbrölt hinna ýmsu konunga. Hann taldi að Noregur væri miklu skárri hvað þetta varðar enda hefðu Norðmenn lengi verið farmenn sem kynnst hafi frjálslyndum samfélögum á siglingum sínum. Nú er ég ekki viss um að ég vilji kenna Svíþjóð við alræði þótt vissulega sé ákveðinn sannleikskjarni í boðskap Huntfords. Gagnstætt honum held ég ekki að Noregur sé mikið betri, samanber það sem sagt hefur verið um gerræði norsku barnaverndarinnar.
Gerræði Gerhardsens
Gerræðið á sér a.m.k. einhverjar rætur í Verkamannaflokknum sem var nánast alvaldur í norsku samfélagi frá 1945-1965. Árið 1963 skrifaði norski sagnfræðiprófessorinn Jens Arup Seip frábæra grein sem ber heitið „Frá embættismannaríki til einflokksríkis“( Jens Arup Seip (1963): «Fra embedsmannsstat til ettpartistat»Fra embedsmannsstat til ettpartistat og andre essays. Oslo: Universitetsforlaget, bls. 7-42). Þar rekur hann sögu Noregs frá nítjándu öldinni þegar embættismenn réðu lögum og lofum til áranna eftir stríð þegar landið var að hans sögn orðið einsflokksríki í reynd. Ríkisstjórnin væri bara framkvæmdarnefnd Verkamannaflokksins, Stórþingið hefði enginn raunveruleg völd. Hæstiréttur væri bara tæki í höndum Flokksins. Venjulegur Verkamannaflokksmaður vissi ekkert um athæfi flokksbroddana, þeir lifðu í lokuðum heimi sem enginn vissi neitt um. Skrifræðið gegnsýrði allt samfélagið og innan þess réðu trúnaðarmenn flokksins mestu. Með fulltingi flokksvélarinnar hafi skrifræðið náð tökum á kjósendunum. Valdi væri þjappað saman meðal flokksforingjanna og þar með væri ríkisvaldið „sentraliserað“. Forsætisráðherrann, Einar Gerhardsen væri sá foringi með velsmurða vél sem Max Weber spáði fyrir um (Seip nefnir reyndar ekki Weber). Tala mætti um gerræði Gerhardsens, finna mætti fingraför Gerhardsens alls staðar þar sem a.m.k. tveir eða þrír kratar hittust til skrafs og ráðagerða. Alla vega segir Seip að engin dæmi séu á Vesturlöndum um jafn volduga og velsmurða flokksvél og flokksvél norsku kratanna. Seip talar líka um tvíveldið (duovirat) í flokksríkinu, hann hlýtur að hafa haft í huga Gerhardsen og aðalritara flokksins, hinn harðsnúna Håkon Lie. Hann stundaði hreinsanir í flokki og verkalýðshreyfimgu, sérstaklega var hann iðinn við að sparka kommúnistum út. Og láta njósna um þá og aðra sem ekki dönsuðu eftir flokkslínunni. Seip gefur mjög skrautlega lýsingu á flokkstarfi Verkamannaflokksins, hvernig öllu væri stjórnað að ofan, miskunnarlaus ritskoðun væri við lýði o.s.frv. Hann talar um „kanínupólitík“, hinn alvaldi Flokkur fyllti Stórþing og flokksvél með auðstýrðum aumingjum (kanínum). Hinir flokksmennirnir væru eins konar tækniræðismenn. Hvað sem líður spekimálum Seips þá er það staðreynd að á ofurvaldaskeiði Kratanna höfðu Norðmenn að viðkvæði „maður verður að vera með flokksskírteinið í lagi“(les: Væri maður ekki í Flokknum þá kæmist maður ekki áfram í ríkiskerfinu). Verkalýðshreyfingin var hluti af Flokknum, sama gilti um samvinnuhreyfinguna og embættiskerfið. Flokksbroddarnir röðuðu Krötum á jötuna. Til dæmis var útvarpsstjórastaða Ríkisútvarpsins norska lengi vel eyrnamerkt Flokknum. Norski seðlabankinn mun líka hafa verið nátengdur Kratavaldavélinni, norska dagblaðið Aftenposten segir bankann hafa verið „Banka Verkamannaflokksins“ (Aftenposten 12/6 2016). Auk þess var Statoil krata-apparat, kratar höfðu löngum einkarétt á forstjórastöðum í fyrirtækinu. Enda fyrirtækið stofnað af ofurkratanum Jens Chr. Hauge. Í nýlegum sjónvarpsþætti um hann var honum líkt við skugga sem hvergi sást en var á bak við ýmislegt, bæði gott og slæmt. Hann sá til þess að Kratastjórnin seldi Ísraelum þungt vatn án þess að láta Stórþingið vita. Einnig varð hann þess valdandi að leyniþjónustan rann að hluta til saman við flokkinn á þeim árum þegar báðir aðilar vildu njósna um kommúnista. Nefna má að fyrir rúmum fjörutíu árum uppgötvaðist að sænskir kratar höfðu stofnsett ríkisleyniþjónustugeira sem heyrði bara undir Flokkinn alvalda.
Norskir kratar stunduðu e.k. áætlunarbúskap sem enn jók vald Flokksins yfir samfélaginu.
Skattsvik með blessun krata
Um leið sáu þeir enga ástæðu til að angra einkaframtakið of mikið, sagt er að Flokkurinn hafi gert óformlegt samkomulag við skipsreiðarana: Þið megið svíkja undan skatti svo lengi sem þið skaffið vinnu í Noregi og aflið gjaldeyris. Merkilegt nokk voru stórskipsreiðarnir Anders Jahre og Hilmar Reksten ekki dæmdir fyrir skattsvik fyrr en eftir dauða sinn og eftir að olían hafði tekið við af útgerðinni sem mikilvægasta atvinnugrein landsins. Þetta voru skattsvik með blessun stjórnvalda, rétt eins og þekkist á Íslandi. Ekki nóg með það, nýlega kom í ljós að hinn kratíski Seðlabanki hafði komið stórum gjaldeyrisvarasjóði til Lundúna án vitneskju Stórþingsins. Honum var ætlað að styðja norskar skipasmíðastöðvar (skv Aftenposten 12/6 2016).
Notraship
Ég nefndi það sem Seip sagði um norska Hæstaréttinn. Hann nefnir ekki Notrashipsmálið hrikalega. Notraship var fyrirtæki sem norskir reiðarar í útlegð stofnuðu á stríðsárunum, fyrirtæki sem sá um rekstur allra þeirra norsku farskipa sem ekki lentu í klóm nasista. Ríkið átti að sjá til þess að greiða farmönnum tilteknar upphæðir eftir stríð úr sjóðum Notraship En Flokksríkið norska sveik loforðið enda höfðu kommúnistar sterk ítök í farmannasambandinu, krötum til ama. Hvað varð um Notrashipsjóðinn veit enginn. Farmenn fóru í mál og töpuðu á öllum dómstigum enda Hæstiréttur að sögn Seips ekkert annað en lítill eftirbátur Flokksskipsins risastóra sem veltist um í kjölfari þess (hér getur að líta harðorða grein um Notrashipsmálið, kannski ögn of öfgafulla).
Kostir krataveldisins.
Hvað um það, hafði krataveldið engar góðar hliðar? Jú, mikil ósköp, kratarnir tömdu auðvaldið og auðvaldið tamdi þá. Kratarnir áttu mikinn þátt í þeim sjálfsaga og þeirri miklu samstöðu sem gerði norska olíusjóðinn mögulegan. Þeir öguðu þjóðina og efldu samstöðu manna. Þótt ekki vantaði frændhygli á velmektardögum norskra og sænskra Krata þá höfðu flokkar þeirra enga stórkapítalista á sínum snærum, enga auðmenn sem gátu þrýst á flokkana og látið þá skaffa sér bitlinga og rentutekjur. Þrátt fyrir sitt mikla vald þá auðguðust kratabroddarnir ekki, þeir notuðu ekki völd sín til að verða sér og sínum út um fé. Þeir voru heiðarlegir þó þeir væru alltof valdafíknir. Heiðarleikinn setti mark sitt á samfélagið og gerði skandinavísku kratalöndin að þeim síst spilltu í heimi. Auk þess stofnsettu kratar velferðarkerfi, kerfi sem er alls ekki fullkomið en skárra en hinn „kosturinn“, velferðarvana auðvaldshelvíti. Krataflokkarnir norrænu hafa líka skánað mikið við að hafa ekki lengur einkarétt á völdum, vald spillir og allt vald spillir algerlega. Á Íslandi hefur tvíflokkur Framsóknar og Íhalds nánast einkarétt á völdum og hefur helling af kapítalistum á sínum vegum. Auðvaldspungum sem heimta bitlinga og velferðakerfi fyrir fyrirtæki sín. Íslendingum ber að tileinka sér það besta frá nágrannaþjóðunum en varast um leið mistök þeirra, t.d. barna-„verndar“-gerræðið.
Athugasemdir