Gleymt meistaraverk? Bak við byrgða glugga eftir Grétu Sigfúsdóttur
Ég man þegar skáldssagan Bak við byrgða glugga kom út. Það var árið 1966, þá var ég þrettán ára. En ég las hana ekki fyrr en um daginn, tæpri hálfri öld síðar.
Höfundurinn, Gréta Sigfúsdóttir, var lengi gift Norðmanni og dvaldi í Noregi á stríðsárunum. Sagan segir frá norskum „ástandskonum“, konum sem lögðu lag sitt við Þjóðverja.
Mögnuð frásögn um ástir og örlög. Gift norsk kona, Irma að nafni, verður ástfanginn af þýskum hermanni og leggur allt í sölurnar fyrir hann eftir ósigur Þjóðverja.
Og þó, undir lok sögunnar virðist hún hafa séð sig um hönd, vill fara heim til mannsins síns.
Lokin eru kannski ekki besti þáttur bókarinnar, sinnaskiptin gerast of snögglega.
Mun meira er varið í lýsingar á bágu ástandi Noregs á stríðsárunum og sálarkvölum aðalpersónunnar. Persónulýsingarnar eru yfirleitt góðar.
Sagan er í megindráttum æði velskrifuð en prófarkalestur hefur ekki verið með besta móti. Málið á köflum ögn norskuskotið og smá villur hér og hvar („als oddi“ með tveimur „l-um“, „alls“).
Bókina má vel kalla „meistaraverk“ en hún er illa gleymd. Hún virðist ekki hafa verið þýdd á norsku enda of stutt liðið frá stríðslokum þegar hún kom út og hún nánast vörn fyrir ástandskonur.
Þjóðverjarnir eru ekki fordæmdir einhliða en myndin sem dregin er upp af andspyrnuhreyfingunni er ekki sérlega jákvæð.
Meðlimum hennar er lýst sem ruddum er njóta þess að fá völd eftir uppgjöf Þjóðverja.
Þetta hefði ekki mælst vel í Noregi fyrir hálfri öld en nú er viðhorfið annað. Nú er kominn tími til að kynna Norðmönnum þessa góðu skáldssögu.
Athugasemdir