Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

"...alla dáð?" Um vísindi og hlutdrægni

Ekki má skilja síðustu færslu mína um vísindin svo að ég sé vísindatrúar. Kannski eru kenningarnar um hlýnun jarðar af mannvöldum ekki eins pottþéttar og sýnist. Kannski er þróunarkenning Darwins meingölluð. Ef til eru vísindi siðferðilega skaðvænleg, kannski er sú tækni sem þau geta af sér vistkerfinu hættuleg. Hver veit?

Karllæg vísindi?

Nýlega lést í hárri elli einn helsti vísindaheimspekingur síðustu áratuga, hin breska Mary Hesse. Hún sagði að sú staðreynd að vísindakenningar væru vansannaðar (e. underdeterminate) af staðreyndum skapaði rúm fyrir hugmyndafræðileg áhrif (ef kenningar eru vansannaðir þá eru þær  ekki bara samþættingur eða summa þekktra staðreynda).

Nefna má að bandaríski femínistinn, eðlisfræðingurinn og heimspekingurinn Evelyn Fox Keller,   heldur því fram að mál líffræðinnar sé gegnsýrt af karllægum orðaforða. Líffræðingar gefi sér til dæmis án sannanna að sæðið sé virkt við getnað, eggið óvirkt. En á síðustu árum hafi þetta tekið að breytast, líffræðingar leggi nú meiri áherslu á hið virka hlutverk eggsins (Fox Keller (1995): 37-38).    Bandaríska fræðikonan  Donna Haraway er svipuðu róli og Fox Keller. Hún gagnrýnir „prímatólogíuna“, þ.e. fræðin um apana og skyld kvikindi. Þessi fræði séu gegnsýrð af karllægum sjónarmiðum. Karlkyns „prímatologar hafi tilhneigingu til að einblína á baráttu, græðgi og eigingirni hjá prímötum og hunsi dæmi um samvinnu og fórnfýsi. Haraway telur að kvenkyns sjónarhorn á þessi dýr geti bætt þessi fræði, dregið úr einhliða vægi karllægra gilda (Haraway (1984): 489-524).

Vald auðs og ríkis

Gildismat vísindamanna, ekki síst spurningin um hvað vísindasmenn telji mikilvægt og hvað sé ekki mikilvægt, getur haft örlagarík áhrif á stefnu rannsókna.  Oft ræður peningurinn miklu um hvað teljist mikilvægt. Fé er ausið í læknisfræðilegar rannsóknir á velsældarsjúkdómum vestrænna manna, mun minna fé er varið til rannsókna á sjúkdómum sem herja á fátæklinga í þriðja heiminum. Lítum á kemísk efni til lækninga. Á milli 2000 og 2011 var aðeins 4% þeirra efna, sem löggildingu hlutu, efni sem nota má til lækninga á hitabeltissjúkdómum. Í augnablikinu er verið að þróa 180 ný lyf gegn velsældarsjúkdómnum sykursýki (Berg, Vik og Ziegler (2015). Sé þetta rétt þá er   það ábending um  að efnahagslegt vald geti ráðið miklu um  þróun þekkingarinnar. Vísindamenn vita miklu meira um velsældarsjúkdóma en hitabeltissjúkdóma vega hlutdrægni auðmagnsins.

Ekki er nóg að benda á hlutdrægni auðmagnsins, hlutdrægt ríkisvald getur líka skaddað vísindin. Frægt er dæmið um bullkenningar Lysenkos hins sovéska sem Stalín gerði að ríkjandi kenningu í líffræði með hörmulegum afleiðingum fyrir sovésk vísindi.

Lokaorð

Þýðir það sem sagt hefur verið hér um mögulega karllæg vísindi og fleira að við eigum að lýsa frati á vísindin og halla okkur að stjörnuspám og öðrum hindurvitnum? Alls ekki, þótt margt bendi til að hlutdrægnishneigð sé í vísindum þá sýnir dæmi Fox Kellers að hægt er að leiðrétta hlutdrægnisvillur. Svo er hreint ekki víst að hún, Harawy, Hesse, og norsku fræðimennirnir hafi á réttu að standa. Hvað sem því líður ber að hafna  bæði vísindadýrkun og vísindahatri, feta meðalveginn gullna milli öfganna.

Heimildir:

Berg, Marit; Vik, Audun; Ziegler, Sigurd (2015): „En nobelpris for de fattige“, Aftenposten, 20 oktober.

Fox Keller, Evelyn (1995): “Gender and Science: Origin, History, and Politics”, Osiris, 2nd Series Vol. 10, bls. 26-38.

Haraway, Donna (1984): “Primatology is Politics by Other Means”, Proceedings of the Biennial Meeting of the Philosophy of Science Association, bls. 489-524.

Hesse, Mary (1982): “Science and Objectivity”, í Held, David og Thompson, John (ritstjórar): Habermas. Critical Debates. London og Basingstoke: MacMillan Press, bls. 98-115.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni