Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Alexeivitsj og skjaldmeyjarnar

Eins og lesendum mun kunnugt fékk hvítrússneski rithöfundurinn Svetlana Alexeivitsj bókmenntaverðlaun Nóbels á árinu sem nú er að líða. Hún er blaðakona og hefur aldrei skrifað skáldaðar frásagnir en einbeitt sér að heimildarbókum. Þær eru skrifaðar með skáldlegum hætti rétt eins og heimildabækur Ryszards heitins Kapuscinskis sem margir töldu Nóbelsverðlauna-verðan.

   Í gær lauk ég að lesa bók eftir Alexeivitsj  í norskri þýðingu, Krigen har intet kvinnelig ansikt, Stríðið hefur ekkert kvenandlit. Í henni er urmull af frásögum kvenna sem börðust undir merkjum Sovétsins í síðari heimsstyrjöld. Skjaldmeyja-sögur. Ekki fyrir viðkvæmar sálir, á hverri síðu er hörmungum stríðsins lýst með átakanlegum hætti. En um leið er talað um samstöðu og fórnarlund, hugsjónir og baráttuþrek. Svo notuð sé útþvæld klisja þá er bókin óður til lífsins þótt hún fjalli um dauðann.

   Margar kvennanna segja að þótt karlmenn hafi sýnt þeim umhyggju og virðingu á stríðsárunum þá hafi þeir helst viljað gleyma afrekum skjaldmeyjanna eftir stríð. Sumar þeirra fóru með stríðsþáttöku sína eins og mannsmorð eftir hildarleikinn, óttuðust að ganga ekki út. Merkilegt nokk virðast sumar þeirra hafa nánast skipt um kyn á stríðsárunum, hættu að hafa á klæðum, hreyfðu sig og töluðu eins og karlar. Sennilega hafa  umhverfi og atferli áhrif á hormónabúskap manna.

   Bók Alexeivitsj er nokkuð langdregin og endurtekningarsöm þótt mögnuð sé og vel skrifuð. Hún skrifar aðeins fáeinar athugasemdir sjálf, þær hefðu mátt vera fleiri og lengri. Bókin endar nánast í miðri setningu, betra hefði verið að ljúka henni með hugleiðingum Alexeivitsj sjálfrar.

   Spyrja má um sanngildi þeirra sagna sem Alexeivitsj færir í letur. Minnið er stopult, vel má vera að sumir af viðmælendum hennar hafi skáldað í eyðurnar, jafnvel ómeðvitað því minningar okkur eru oft ómeðvitaður skáldskapur. Margar  skjaldmeyjanna (skáldmeyjanna?)  voru orðnar nokkuð við aldur og ekki batnar minnið með aldrinum. Samt er bókin jafn sönn og hvaða bók sem vera skal, hún segir sannleika um ógnir stríðsins, hugrekki og samstöðu manna. Rétt eins og hinar skálduðu frásagnir Dostojevskí sem eru sannar á einhvern skáldlegan hátt.

  

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni