Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Addi Hominem

Þekkið þið hann Adda Hominem? Segi Guðmundur „verðbólgan er 1% meiri en í fyrra“ svarar Addi að bragði „iss þú segir þetta bara af því að þú ert vondur út í Seðlabankastjóra“. Addi tekur  ávallt  manninn, ekki rök hans, beitir ad hominem rökum, ef rök skyldi kalla.  Hann slær undir beltistað, er ómálefnalegur.

Addi í ýmsu líki

Addi bregður sér í allra kvikinda líki, t.d. líki Sigmundar Davíðs þegar sá herramaður réðst á Kára Stefánsson með alls konar dylgjum um hroka. Addi hunsaði rök Kára enda stæði hann  ekki undir nafni hefði hann svarað rökum hins vaska erfðagreinuðar.

Löngu áður kallaði Addi  sig „Gunnar Benediktsson“ og fordæmdi smásagnasafn Thors Vilhjálmssonar á þeim forsendum að höfundurinn væri af yfirstétt. Guðmundur Andri Thorsson segir í bókinni um Thor að þessi kommúníska stéttgreining Gunnars sé stofnskyld hugmyndum nasista um góða og slæma kynþætti. Hann er ekki fyrsti maðurinn sem bent hefur á þetta samhengi, t.d. ræðir heimspekingurinn Karl Popper það  í bók sinni  The Open Society and its Enemies

Fyrir tæpum áratug leyfði ég mér þá ósvinnu að gagnrýna útrásina í Silfri Egils og tala um „útrásarauðvald“. Þá brugðu menn sér í Adda-líki og sögðu í netumræðu að ég væri einn þessara manna sem ekkert hefði lært síðan 1968 . Að því búnu hafa Adddarnir væntanlega tekið þátt í kosningum  um besta auðmanninn á vegum Fréttablaðsins.

Nokkrum árum síðar kom ég með tvíræðar athugasemdir um sægreifynju eina í návist íhaldsfrömuðar nokkurs. Næst þegar ég  rakst á  hann hverfðist hann að bragði  í Adda Hominem og  orgaði á mig að ég væri kommúnisti.

Nonni Hominem og uppruni minn

 Nú gerðist á dögunum að  athugasemdaskrifari nokkur bregður sér í Addalíki, köllum hann „Nonna Hominem“. Hann heldur því blákalt fram að það sem ég skrifi um fullveldi stafi af því að ég sé úr elítuumhverfi og skilji ekki venjulega Íslendinga. Hann svarar náttúrulega ekki rökum mínum um að efnahagsstaða Íslendinga sé ekki eins grábölvuð og margir halda, að rannsóknir bendi til að smáríki séu síður spillt en stórríki og að smæð sé fremur hagkvæm en hitt o.s.frv., o.s.frv. Hann svarar alls ekki  minni rökfærslu en lætur sér nægja að dylgja um meint elítuumhverfi mitt.

Ég verð að hryggja Nonna Hominem með þeim upplýsingum að ég er tæpast úr neinu elítuumhverfi, a.m.k. ef elíta er skilgreind sem „auðugt og/eða valdamikið fólk og/eða fólk af fínni ætt“.

Afi minn, Valdemar Snævarr (1883-1961), fékk ekki að læra með börnunum á bóndabænum þar eð hann var bara sonur fátækrar vinnukonu. Pétur Sigurgeirsson segir eftirfarandi í minningarorðum um afa: „Man ég að hann sagði mér frá því, að eitt sinni hefði  móðir hans kallað hann til sín undir húsvegg, þar sem hún var í húsmennsku með drenginn sinn. Hún rétti honum brauðsneið, og bað hann borða hana þar undir veggnum, hún ætti ekki meira handa honum“ (Pétur Sigurgeirsson (1983): „Formáli“, Valdemar V. Snævarr: Ljóðþrá, bls. 8).

Afi minn svalt á harðindaárunum, mikið svakalega er ég af fínum ættum! Engeyingar hljóta að vera með minnimáttarkennd.

Víkjum að móðurafa mínum , Sigurði Þórólfssyni  (1869-1929). Hann  ólst upp á vestfirsku koti og  segir svo frá riti sínu Gamlar minningar: „Þegar mamma var að skipta litlu milli sinna mörgu svöngu barna, komu stundum tár í augu hennar“ (bls. 33). Neðar á sömu síðu segir afi: „Það var sulturinn og fátæktin, sem settu mér stólinn fyrir dyrnar þegar skólanámsþráin vaknaði“.

Hvílíkt elítuumhverfi, Rockefeller hefði ekki getað keppt við afa minn!

Hvað um það, Sigurði tókst með fádæma hörku og dugnaði að komast til náms við Askov lýðháskólann í Danmörku og stofnaði síðan sjálfur lýðháskóla á Íslandi. Hann  var líka mikilvirkur rithöfundur.

Valdemar var studdur af velstæðum bónda  til náms í Möðruvallaskóla og varð barnakennari og sálmaskáld.

En fátækur var hann, faðir minn fékk ekki einseyring að heiman frá þrettán ára aldri og varð að vinna með námi. Munaði hársbreidd að hann  yrði að hætta í menntaskóla vegna fátæktar. Ekki var heldur mulið undir móður mína, hún þurfti að fá lánaðan brúðarkjól þegar hún giftist.

Foreldrar mínir áttu fátt annað en skuldir fyrstu tíu ár æfi minnar, allt var sparað og fremur naumt skammtað. En þau unnu sig upp án ættar- og flokkstengsla, er bannað að hafa góðar námsgáfur og vera duglegur?

Af þessu má sjá að það er tóm vitleysa að ég sé alinn upp í elítuumhverfi. Væri ég á sama plani og Nonni Hominem gæti ég sagt að hann hefði þessa bullskoðun vegna þess að hann öfundaði foreldra mína. Ad hominem „rök“ eru nefnilega eins og búmmerang, þau hitta þann sem þeim beitir.

Surtur og öfundin

Allt um það, eitt sinn gerðist að fimmtán vetra  Surtur kom  sunnan og reið húsum foreldra minna drukkinn og hortugur. Pabbi henti honum út enda hefur fólk rétt til að verja eigur sínar.

Nokkrum árum seinna kemst Surtur í vinfengi við bókmenntamenn og tjáir þeim að sér hafi verið varpað á dyr  sakir  skorts á ættgöfgi (er líklegt að sonur hins fátæka og ættsmáa Valdemars hafi gert slíkt?). Þessu kokgleyptu bókmemntagaurarnir án þess að spyrja hverra manna faðir minn  væri. Fyrir vikið var ég útilokaður úr heimi bókmenntanna.

Til að gera illt verra stóð einn af öfundarmönnum föður míns  sem kerúb með logandi sverði fyrir  framan háskólann og varnaði mér inngöngu. Ég varð að stökkva til Noregs og sé ekki eftir því.

Svakalega naut ég „elítuumhverfisins“!

Lokaorð

Addi Hominem er meinvættur mikil. Til þess að bæta íslenska rökræðu verður að hnekkja hans mikla veldi.

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni