Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

AÐ MISSA MÁLIÐ-Gegn mállandráðum

Allmikill umræða hefur spunnist kringum ummæli Úlfars Erlingssonar um stöðu íslenskunnar. Hann hefur haldið því blákalt fram að íslenskan sé dauð, í fyrirlestri sem hann hélt á þessu dauða tungumáli!

Málið í hættu

En líkið andar enn,  bæði ótt og títt, jafnvel djúpt, stundum þó með erfiðismunum. Ekki er skortur á netsíðum, bloggum, dagblöðum, tímaritum, bókum og feisbókarsíðum á þessu dauða máli, að ógleymdu öllu rifrildinu í þingsölunum, þusinu í kennurunum og gjamminu í heitu pottunum. Að gamni slepptu má ætla að Úlfar hafi ekki meint þetta bókstaflega heldur beitt meðvituðum ýkjum til að hræra við mönnum (sama gildir um sumt sem ég segi í þessari færslu!). Hann bendir réttilega á að íslenskan sé í mikilli hættu og segir að börn alist upp í ensku umhverfi. En hann gleymir því að þau ganga í skóla þar sem kennt er á íslensku og eru alin upp af foreldrum sem flest tala íslensku við þau. Ég þekki tvítug ungmenni sem tala afbragðsgóða íslensku og lesa fornsögur. Líka  tveggja ára börn sem horfa á Dodda og eyrnastóran með íslensku tali. Og átta  ára dreng sem les Nonnabækurnar. Rétt áðan sá ég frétt RÚV og var talað við allmörg börn, merkilegt nokk á íslensku! Úlfar  heldur því fram að íslenskan sé í svipaðri stöðu og velskan í Wales en það er rangt. Velskan hefur ekki verið stjórnunarmál í Wales öldum saman, heldur enska. Svo að segja öll kennsla í Wales hefur löngum farið fram á ensku. Ekki eru mér vitanlega þess dæmi að mál sem verið hefur stjórnunarmál í tilteknu landi hverfi nema það hafi verið hernumið. En einhvern  tímann verður allt fyrst, íslenskan gæti orðið fyrsta stjórnunarmál sem líði undir lok af öðrum sökum en innrásarsökum. Enskan gæti komið sem þjófur að nóttu og grandað ástkæra, ylhýra málinu. Sem dæmi um framsókn enskunnar á kostnað íslensku skal eftirfarandi nefnt:  RÚV þátturinn Hæpið tók viðtal við enskusnobbuð ungmenni sem ástunda hlutverkaleiki á ensku og gátu ekki útskýrt leikinn á íslensku. Fengi ég einhverju ráðið  myndi ég senda þau til Texas með flugmiða bara aðra leiðina og koma þeim fyrir í húsvögnum með hinu hvíta ruslinu. Þar gætu þessi enskusnobbhæns verið í hlutverkaleik lon og don uns  þau dræpust úr ameríkaniseringu.

Málfeigðarsinnar

Um aldamótin reis upp flokkur málfeigðarsinna sem taldi mörgu tískmenni trú um að kostnaður væri af að tala íslensku, gróði af að tala ensku. Viðkvæði málfeigðar-tískuhyskisins var og er „það er svo dýrt að tala íslensku, við kunnum öll ensku“. Rætur þessa viðkvæðis má finna í grein Benedikts Jóhannssonar „Hvað kostar að tala íslensku?“ (Benedikt (1998). Benedikt brá vísindahjúpi yfir talnaleik sem sveif alveg í lausu lofti. Hann kom með alls kyns ágiskanir um hve mikið Íslendingar myndu græða á að taka upp ensku. Til dæmis myndu listamenn rokþéna á því að verða enskumælandi og losa sig við hina lúðalegu íslensku, forþénustan myndi nema tveimur og hálfum milljarða króna á ári (á 1998 gengi ISK). Af hverju ekki tíu trilljónir eða bara fimm kall? Benedikt gaf ekkert svar, ágiskanir hans voru alveg án jarðteninginga, hann hefði fullt eins getað kastað teningi  til að áætla meintan gróða listamanna af ensku. Nefna má að franski söngvarinn og leikarinn  Maurice Chevalier varð frægur og ríkur í Hollywood, af því að hann hafði ekki ensku að móðurmáli heldur söng með krúttlegum frönskum hreim. Sigurrós gerir það gott alþjóðlega en syngur ekki á ensku heldur heimatilbúnu máli með íslenskukeim, Björk syngur stundum á íslensku. Bækur norskra höfunda eins og  Jo Nedsbø, Karl Knausgaard og Jostein Gaarder seljast í milljónatali alþjóðlega en eru skrifaðar á norsku. Ekki virðist íslenskan hafi staðið Arnaldi Indriðasyni fyrir þrifum.

Til að bæta gráu ofan á svart gleymdi Benedikt að reikna kostnaðinn af að leggja málið niður. Þýða þyrfti ógrynni skjala og læknaskýrslna á ensku, skófla íslenskum bókum út úr bókasöfnum, skaffa íslenskukennurum vinnu, flytja inn enskumælandi kennara í hrönnum o.s.frv.

Til að gera illt verra er hann á því sem heimspekingar kalla „braut hinna hálu raka“ (e. slippery slope argument). Ef sjálfsagt er að meta tungumálið til fjár má spyrja hvort ekki megi meta nánast hvað sem er með þeim hætti. Hvað kosta langlegusjúiklingar? Myndi ekki mikið sparast ef þeim yrði hjálpað yfir móðuna miklu? Og af hverju ekki bara að flytja alla þjóðina til Kaliforníu og selja Norðmönnum landið? Eitthvað hlýtur að kosta búa á skerinu hrollkalda, langt frá mannabyggðum.

Benedikt skilur ekki að fjöldi manns muni tapa miklu við niðurlagningu íslenskunnar, t.d. rithöfundar, íslenskukennarar o.fl. Kannski myndi þetta fólk rísa upp í örvæntingu og beita valdi gegn mállandráðahyskinu. Auk þess verða öfga-þjóðrembungar fyrr eða síðar leiðir á að berja litað fólk. Hverja fara þeir að berja  þá? Mállandráðamenn?
Borgarastyrjöld og róstur eru ekki beinlínis leiðirnar  til ríkidæmis, málskipti auka mjög hættu á hryðjuverkum og vopnuðum átökum.

Benedikt skilur heldur ekki að það er hægara sagt en gert að fjarlæga íslenskuna. Hún er ofin inn í stofnanir og atferli manna með þeim hætti að bæði yrði dýrt og erfitt að fjarlæga málið. Ýmislegt bendir til að lagamál sé í eðli sínu íhaldssamt, súmerska var notuð sem lagamál í Mesópótamíu löngu eftir að talmálið hvarf. Fornorræna var lagamál í Noregi þangað til á sautjándu öld, 150-200 eftir að talmálið leið að mestu undir lok. Þannig má hugsa sér að íslenskan lifi sem lagamál þótt þjóðin taki að gjamma á ensku hvunndags.

Þess utan gefur Benedikt sér að enska verði alþjóðamál framtíðarinnar. En um aldamótin 1900 héldu margir að þýska yrði framtíðarmálið, eins og danskurinn segir þá er erfitt að spá, sérstaklega um framtíðina. Haldi Kína áfram eflast mun kínverska verða æ mikilvægara tungumáli, jafnvel nýtt alheimsmál. Eiga hinir nýenskumælandi Íslendingar þá að skipta aftur um tungumál, gerast kínverskumælandi, með ærnum tilkostnað? Og hvað ef spænskan heldur áfram að sækja á í Bandaríkjunum? Ekki er ósennilegt að spænska verði næstum eins útbreidd og enska þar vestra innan nokkurra áratuga. Haldi BNA áfram að vera mesta efnahagsveldi heims má ætla að spænskan muni í framtíðinni geta keppt við enskuna sem alþjóðamál. Það er alls ekki víst að BNA haldi þeirri stöðu, hvað mundi gerast ef hryðjuverkamenn rústuðu helstu borgir landsins með gjöreyðingarvopnum? Forsenda enskuvæðingar alheimsins er að hnattvæðingin haldi áfram og BNA haldi stöðu sinni. En hnattvæðingin gæti stöðvast, t.d. vegna umhverfisslysa. Vistþenkjandi fólk segir að hnattvæðingin ógni lífríki jarðar, eini mótleikurinn sé að menn lifi í ríkara mæli með staðbundnum hætti, ferðist minna og versli síður hnattrænt. Án hnattvæðingar er engin sérstök þörf á hnattrænni tungu, hvorki ensku, kínversku né spænsku.

Rök Benedikts eru því afburðaléleg, það er engan veginn ljóst að kostnaður sé af því að tala íslensku, gróði af að gjamma á ensku. Það er ekki einu sinni víst að hægt sé að mæla hvort kostnaður eða gróði sé af málinu, Noam Chomsky segir að ekki sé vitað um upphaf 70% af bandaríska þjóðarauðnum (Chomsky (2001). Ætli meira sé vitað um þann íslenska? Sé engu meira vitað um hann er ólíklegt að hægt sé að mæla áhrif íslenskrar tungu á auðsköpun.

Enskuvæðing nauðsyn?

Ef enskuvæðing væri konungsleiðin til gróða má spyrja hvers vegna útrásarfyrirtækin fóru á hvínandi kollinn og drógu íslenskan efnahag með sér í fallinu. Fyrirtæki þessi höfðu ensku að vinnumáli. Hefur orðið viðlíka hrun á þeim tímum þegar íslensk fyrirtæki notuðu bara móðurmálið? Auðvitað ekki, þetta bendir gegn því að kostnaður sé af íslensku (ég er EKKI að segja hrunið hafi orðið vegna enskuvæðingar, aðeins að hún kom ekki í veg fyrir það). Hvað um enskuvæðingu vegna hins aukna ferðamannastraums? Þessari spurningu má svara svona:  Hve lengi mun sú dýrð standa? Ferðmenn eru hvikulir og elta tískuna, rétt eins og íslenskar málfeigðarbullur.   Ætla má að túristarnir  verði fljótt leiðir á hinu erkiameríkaníseraða Íslandi og hinni Kanasködduðu  þjóð sem landið byggir. Þjóð sem hefur á tuttuguogfimm árum gert sig að einni ljótustu þjóð Evrópu með  amerískri bíla- og skyndibitadellu. Hver vill heimsækja forljóta þjóð? Ferðamenn nútímans vilja hið upprunalega, átentíska. Ísland er við það að  missa sinn upprunaleika, er að verða að amerísku skrípalandi,  „þökk“ sé tískuhyski, alþjóðarembungum og mállandráðamönnum. Þegar túristarnir fá leið á Íslandi verður lítil þörf fyrir enskumennsku á veitingarstöðum og í miðbæjarverslunum.

Reyndar má spyrja hvort eiginleg enska sé nauðsyn. Sumir segja að í reynd hafi orðið til alþjóðamál sem byggi á ensku en hafi þróast allólíkt. Þeir vilja kalla þetta mál „globish“, „glópamál“ á íslensku.

Þess utan gæti tækniþróunin dregið úr enskuþörf. Úlfar er fjarri því að vera málfeigðarsinni og  bendir á að nútíma tækni á borð við tölvuforritið Babelfisk geri mönnum kleyft að þýða hvað sem er úr ensku á íslensku, meira að segja kvikmyndir og sjónvarpsþætti. Hann segir áríðandi að taka tæknina í þjónustu málsins annars muni illa fara. Stórvel athugað!

Menn geta líka talað á sín hvoru málinu í símum sem þýða jafnharðan. Þá þarf hvorki ensku né glópamál.

Niðurstaðan er sú að enskuvæðing er ekki sú mikla nauðsyn sem margir halda. Öðru nær.

Óráð

Ekki má gleyma garminum honum Katli, viðskiptaráði, óráðinu sem vegsamaði útrásina með bernskum ofsa. Árið 2006 segir í skýrslu á vegum ráðsins að Ísland sé orðið miklu fremra öðrum Norðurlandaþjóðum.

Ráðið hefur markvisst unnið að því gera veg  enskunnar sem mestan, t.d. með tillögum að gera Íslendinga tvítyngda. Í einni tillögunni sagði að ef Íslendingar  yrðu ekki tvítyngdir myndu þeir glata  alþjóðlegri samkeppnishæfni. En Atli Þór Fanndal tók þessan staðhæfingu ráðsins fyrir í grein í tímaritinu Man. Hann segir  að  nóbelshagfræðingurinn Paul Krugman telji hugmyndina um samkeppnishæfi þjóða hreina dellu. Krugman segir að villandi sé að bera saman lönd og fyrirtæki, tala eins og lönd séu e.k. fyrirtæki, samanber pípið um að Ísland sé eins og meðalstórt fyrirtæki. BNA og Japan séu ekki í samkeppni við hvort annað með sama hætti og Kók og Pepsí. Aðeins lítið brot af starfsmönnum Kók kaupa vörur af Pepsí, góður árangur annars fyrirtækisins er  einatt á kostnað hins. Vissulega keppi lönd að vissu marki en um leið eru þau markaðir hverra annarra, Japanir kaupa bandarískar vörur og Bandaríkjamenn japanskar vörur. Velgengni japanska hagkerfisins þurfi ekki að bitna á bandaríska hagkerfinu, öðru nær. Gangi Japönum vel gætu þeir notað aukin auð til að kaupa bandarískar vörur (Krugman: Competitiveness: A Dangerous Obsession).

Þetta eru umhugsunarvekjandi rök, ansi miklu betri en óráðshjal Viðskiptaráðs.

Hvers vegna varðveita málið?

Ég hef þegar nefnt ýmsar ástæður fyrir því að rétt sé að varðveita málið:  Í fyrsta lagi að engin sérstök ástæða er til að halda að kostnaður sé af íslenskunni. Í öðru lagi, að alls ekki sé víst enskan muni sigra hvað sem tauti og rauli. Vel gæti verið að nútímatækni gæti dregið úr enskuþörf og/eða að hnattvæðingin gæti stöðvast og þar með hyrfi þörfin fyrir alþjóðamál. Í þriðja lagi  að málskipti yrðu erfið, hættuleg og kostnaðarsöm, o.s.frv.

Auk þess er sérhvert tungumál heimur sem býður upp á sinn máta að sjá heiminn, reynið að þýða „talhlýðni“ á önnur mál. Eða „jæja“. Af öllum þessum mismunandi mátum að sjá heiminn,  sem byggð eru inn í tungumál, geta menn lært, mannkyninu öllu til heilla. Hverfi íslenskan þá hverfur heimur, mannkyninu til skaða.

Þess utan eru hefðir hollar að öllu jöfnu þótt auðvitað séu til skaðlegar hefðir. Það er gömul, góð, óskaðleg hefð að tala íslensku. Varðveisla hennar eykur ró í samfélaginu, miklar og örar breytingar valda reglurofi (fr. anomie) og vanlíðan. Málskipti  er mjög viðamikil breyting, því viðameiri sem breytingar eru því fleiri óætlaðar afleiðingar má ætla að þær hafi. Hugsanlega verða margar af þeim afleiðingum skaðvænlegar. Þá er betur heima setið en af stað farið.

Sættir um að íslenskan sé hluti af okkur eykur samstöðu og þar með traust milli manna. Norski hagfræðingurinn Alexander Cappelen heldur því fram að traust sé auðmagn, eins og skáldið syngur „traustur vinur getur gert kraftaverk“. Norðmenn græði mikið á hinu mikla trausti sem einkennir norskt samfélag. Rússar væru 70-80% ríkari ef vantraust einkenndi ekki samskipti manna þar austur.

Sé rétt að málvarðveisla auki  samstöðu og traust má ætla að hagnaður sé af íslenskunni, gagnstætt því sem Benedikt heldur.

Aukinheldur er íslenskan fallegt og fornt mál sem býður upp á mikla retoríska og póetíska möguleika. Það er vissulega huglægur þáttur í þessu mati mínu á fegurð og póetísku eðli tungunnar, þáttur sem er handan skynseminnar.  En hið sama gildir  um löngun manna í fé, málfeigðarþrá, enskusnobb  eða  tískusemi.  Er hægt  að sanna fégirnd sé góð, málfeigð ágæt  eða tíska  eftirsóknarverð?

Hvernig varðveita málið?

Nú er ögurstund. Elds er þörf,  eldhuga er þörf. Mynda verður málbjörgunarsveit (fyrst á Netinu),  sveit manna sem er óhrædd við að sýna mállandráðahyskinu í tvo heimana. Þó innan ramma laganna, t.d. mætti efna til sniðgengis við fyrirtæki í eigu mállandráðamanna. Hugsanlega mætti siga hökkurum á þau en það er kannski lögbrot. Verðlauna ber  fyrirtæki sem stuðla að vernd og viðgangi íslenskunnar.  Þrýsta verður á stjórnvöld um eflingu íslenskukennslu, setja verður í lög að íslenska sé lögtunga landsins. Taka verður babelfisk og aðra slíka tækni í notkun eins hratt og mikið og mögulegt er.  Foreldrar mega heldur ekki slá slöku við, hvetja verður þá til að efla íslenskugetu barna sinna. Afar og ömmur verða líka að gera sitt.

Í neyðartilviki mætti íhuga ríkjasamband við Noreg. Í slíku sambandi myndi norska skáka enskunni, þess utan yrðu Norðmenn allir af vilja gerðir til að bjarga íslenskunni. Þeir telja hana anga af hinu forna máli þeirra sjálfra.

Lokaorð

Niður með mállandráðamenn, burt með enskusnobb og tískuhyski!

Lifi vort forna móðurmál  og hin glæsta bókmenntahefð vor!

Í guðanna bænum, ekki missa málið, dýrgripinn okkar.

 

Heimildir utan Nets

Benedikt Jóhannsson (1998): „Hvað kostar að tala íslensku?“ Greinar af sama meiði. Safnrit til heiðurs Indriða Gíslasyni sjötugum (ritstjórar Baldur Sigurðsson og Örnólfur Thorsson). Reykjavík: Rannsóknarstofnun Kennaraháskólans.

Chomsky, Noam (2001): «Ikke-bærekraftig, ikke-utvikling» (þýðing úr ensku). En annen verden er mulig (ritstjórar Boutrone og Velle). Ósló: Gyldendal.

Stefán Snævarr (2004): «Úlfahjörð vinda. Til varnar íslenskri tungu», í Ástarspekt. Greinar um heimspeki. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.

Í þessari grein minni má finna frumrót að ýmsu sem hér stendur

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu