Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Að býsnast yfir Býsans

Í síðustu færslu nefndi ég hið forna austrómverska- eða Býsansríki.

Það verður til þegar Rómarveldi er klofið í Vestur- og Austurveldi. Kalla má það „framhald Rómarveldis með grískum og kristnum aðferðum“. Lífseigt var það með afbrigðum, stóð frá 395 e.kr. til 1453 þegar hinn  tyrkneski Osmanasóldán hertók Konstantínópel.

Það  kemur mjög við sögu íslenskra fornbókmennta enda voru fornnorrænir víkingar  í lífvarðasveit Býsanskeisara og kölluðust „Væringjar“. Íslenskir sagnaritarar kölluðu keisarann „Grikkjakonung“ en  grískt mál varð snemma allsráðandi í ríkinu þótt íbúarnir kölluðu sig „Romoi“, „Rómverja“. Konstantínópel nefnist „Mikligarður“ á fornum íslenskum bókum.

Býsans hunsað

Víkur nú sögunni að prýðilegu safnriti, Grikkland alla tíð sem ritstýrt var af Kristjáni Árnasyni og inniheldur þýðingar á grískum bókmenntum frá Hómerskviðum til vorra daga. Í ritinu er hlutur Býsansríkis ansi rýr, aðeins fimm síðum er varið til að segja frá því,  og einungis birtar þýðingar á alþýðukveðskap Býsansbúa.  Sagt er í bókinni með vissum rétti að ást Býsansbúa á grískri fornmenningu hafi lamað sköpunarmátt þeirra. Ritmálið var forngríska sem var orðin æði ólík mæltu máli.

En það hefði að ósekju mátt leggja meiri áherslu á þá staðreynd að Býsansmenn geymdu forngrísk rit í meiri mæli en múslimar gerðu og var þó hlutur þeirra mikilvægur. Múslimarnir höfðu bara áhuga á forngrískri heimspeki og vísinindum en Býsansmenn voru líka uppteknir af grískum fagurbókmenntum.

Á tólftu  öld vitnar sagnaritarinn og konungsdóttirin Anna Komnene (1083-1153) í gríska harmleiki sem þá voru gleymdir annars staðar á jarðarkringlunni. Önnu   er reyndar getið  í bókinni en ekkert birt af frægu riti hennar Alexíöðunni sem fjallar um föður hennar, Alexios keisara. Það þótt í ritinu séu glefsur úr sagnfræðiritum forngrikkja. Það þótt sagt hafi verið um býsanska sagnfræðinga að þeir hafi verið síður óvísindalegir en aðrir sagnfræðingar evrópskra miðalda, að Íslendingunum undanskildum.

Heimspekingar á borð við Pleþon (1355-1452/3) eru ekki nefndir á nafn en hann  átti þátt í að kynna ítölskum endrreisnarmönnum heimspeki Platons og platoninga. Þegar Konstantínópel féll árið 1453 flúðu grískumælandi lærdómsmenn unnvörpum til Ítalíu og innblésu endurreisnina. Þetta er ekki nefnt í Grikklandi alla tíð. Sálmaskáldsins  Romanos Melodos (490-556) er að engu getið  heldur en Romanos þessi  virðist hafa verið ágætt skáld ef marka má þýðingar á ensku.

Býsans aðrað og jaðrað

Vesturlandabúar hafa löngum haft fordóma í garð Býsansríkis, m.a. vegna þess að þar ríkti grískur rétttrúnaður sem hafnaði hinum ítalska páfa. Einnig er sagt að vestrænir ráðamenn á miðöldum hafi öfundað Býsansmenn vegna ríkidæmis þeirra. Lengi var Konstantínópel langstærsta borg hinnar kristnu Evrópu, samkeppnin reyndar ekki hörð. Í stórvirki sínu um fall Rómarveldis lýsir átjándualdarmaðurinn Edward Gibbon Býsansbúum sem úrkynjuðum og slægum.

Því er ekki furða þótt býsönsk menning (að mynd- og byggingarlist undanskilinni)  hafi verið hunsuð á Vesturlöndum. Hún hefur verið öðruð og jöðruð svo talað sé á póstmódernísku. Það er fyllsta ástæða til að býsnast yfir því, býsnast yfir slæmri meðferð á Býsans. Án Býsansbúa hefðu forngrískar fagurbókmenntir og sagnfræði gleymst, kannski hefði endurreisnin ekki átt sér stað án þeirra.

Ekki má hunsa Býsans.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni