Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

AÐ AFÞAKKA STARFSLAUN, GJAFAKVÓTA O.FL.

Ég man eftir heimskingjunum öfundsjúku og illgjörnu sem göluðu um námslán sem einhvers konar þjófnað, skiljandi ekki orðið „lán“. Það var ekki þverfótandi fyrir þessum vitleysingjum á sumarvinnustöðum mínum þegar ég var við nám.

Nú er risinn upp töfradrengur sem virðist telja starfslaun rithöfunda þýfi og hvetur þá til að afþakka starfslaun. Féð myndi koma langveikum börnum til góða.

Hvernig væri að hann hvetti sægreifana til að afþakka gjafakvótann og borga fyrir hann eins og menn?

Hvernig væri að hann hvetti álfyrirtækin til að afþakka skattfrelsið og bjóðast til að borga í ríkissjóð?

Hvernig væri að hann hvetti auðmenn til að afþakka afnám auðlegðarskatts og reiða fram sinn skerf til ríkissjóðs?

Hvernig væri að hann hvetti bændur til að afþakka niðurgreiðslur til landbúnaðarins?

 Ætli allt þetta  fé frá sægreifum, álfyrirtækjum, millum og bændum myndi ekki verða langveikum börnum meiri  lyftistöng en sú hungurlús sem rithöfundar fá í starfslaun?

 Sagt er að samanlögð starfslaun 70 rithöfunda nemi jafnmiklu og kostar að reka forsetaembættið í eitt ár.

Mætti ekki alveg eins leggja hið rándýra forsetaembætti niður og láta þingforseta, forseta Hæstaréttar og forsætisráðherra skipta með sér embættisskyldum forseta?

Og hvernig væri að flytja alla Íslendinga til Kaliforníu? Það kostar ekkert smávegis að búa á þessu hrollkalda og einangraða skeri.

Að gamni slepptu þá hafa rannsóknir  prófessors Ágústs Einarssonar sýnt  að ágóði er af listastarfi og  því tóm vitleysa að líta á listamenn sem einhverjar afætur.

En ekki verður  séð  að þjóðin hagnist á töfrabrögðum og lýðskrumi.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni