1968: Vor í Prag, innrás í ágúst
Í gær voru fimmtíu ár liðin frá því að herir Sovétríkjanna og fylgiríkja þeirra réðust inn í Tékkóslóvakíu og bundu með því enda á umbótatilraunir Alexanders Dubcek, aðalritara kommúnistaflokksins. Ég man vorið í Prag vel, man hrifningu mína af umbótastarfinu, man sjokkið þegar ég frétti um innrásina, man mig standa á mótmælafundi fyrir framan sovéska sendiráðið þá tæpra fimmtán ára. Man nöfn umbótamannanna tékkóslóvakísku, Ludvik Svoboda forseta, Josef Smrkovský þingforseta, rithöfundarins Eduard Goldstucker, Oldrich Cernik forsætisráðherra, Jiri Hájek utanríkisráðherra og Ota Sik hagfræðing. Ég heyrði reyndar þann síðastnefnda flytja fyrirlestur suður í Þýskalandi fyrir æðimörgum árum en það er önnur saga.
"Vorið góða, grænt og hlýtt..."
Vorið í Prag hófst reyndar þann fimmta janúar þegar Dubcek var kjörinn aðalritari kommúnistaflokksins. Hann hófst þegar handa um miklar umbætur, gamla stalínistahyskinu var ýtt til hliðar og þeir frjálslyndu menn, sem nefndir voru, komu í þeirra stað. Fljótlega var hömlum á tjáningarfrelsi aflétt og landið varð opið samfélag. Miklar og frjálsar umræður áttu sér stað um framtíðarskipan mála, ekki síst efnahagsmála. Sumir vildu auka vægi markaðarins, jafnvel taka upp vestrænan markaðsbúskap en aðrir vildu fremur fara leið markaðssósíalismans, enn aðrir viðhalda áætlanakerfinu en endurbæta það. En svo dró ský fyrir sólu…
Frjálshyggjan og vorið í Prag
Frjálshyggjumenn hafa löngum haldið því fram að tjáningarfrelsi geti ekki þrifist í samfélagi með áætlunarbúskap og ríkiseign á framleiðslutækjum. En Tékkóslóvakía var slíkt samfélag vorið 1968, samt var tjáningarfrelsi virt. Fyrst var þetta frelsið aukið verulega, svo var hlutur markaðarins aukin, reyndar ekki mikið. Geta frjálshyggjumenn skýrt þetta? Þeir segja að markaðsfrelsi sé forsenda annars konar frelsis en vorið í Prag sýnir annað. Þeim til varnar má segja að vel megi vera að áætlunarkerfi og tjáningarfrelsi séu illa samþýðanleg þegar til lengri tíma er litið. En það er allsendis óvíst, enda fátt öruggt í þeim táradal sem mennirnir byggja. Illskást er að forðast kreddutrú, hvort sem hún er til vinstri, hægri eða í miðið.
Athugasemdir