Þessi færsla er meira en 2 ára gömul.

Á Áslaug Arna að segja af sér?

Bent hefur verið á að starfsauglýsing   um  starf tölfræðings hjá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu kunni að stangast á við lög.

Þau kveða á um að íslenska sé hið opinbera mál landsins en í auglýsingunni var sagt að umsækjandi yrði að hafa gott vald á íslensku eða ensku.

Ráðherrann, Áslaug Arna, varði starfsauglýsinguna m.a. með þeim „rökum“ að verði  gerð  krafa um íslenskukunnáttu  þá sé verið að mismuna þeim fjölda erlendra ríkisborgara sem á Íslandi búa.

Hún talaði eins og í lagi væri að tölfræðingurinn kynni ekkert í íslensku en væri fullfær í ensku. Samkvæmt auglýsingunni gæti slíkur maður fengið stöðuna. 

En ráðherrann heldur greinilega að útlendingur sé maður sem talar ensku og kunni ekkert í íslensku, slíkt er dæmigert fyrir þá sem eru á valdi  enskumennskunnar (Pawel Bartoszek var eitt sinn útlendingur en er betur mæltur á íslensku en margir þeir sem rakið geta  ættir sínar til Egils Skallagrímssonar!).

Fjöldi útlendinga, sem á Íslandi búa, kann lítið eða ekkert í ensku og þaðan af minna í íslensku. Er ekki verið að mismuna þeim sé starfsauglýsingin ekki á pólsku, litáísku, takalog o.s.frv.?

Aðalmálið er að ef starfsauglýsingin er lagabrot þá ber  Áslaug Arna ábyrgð á því.

Áslaug Arna virðist telja sjálfsagt að íslenskan víki stöðugt. En spyrja má hvort henni beri að víkja úr embætti, það ber henni að gera beri hún ábyrgð á lögbrotum.  

Það verða mér lagafróðari menn að ákveða. Eins og ég hef margsagt þá verður að túlka lög, hin eina sanna túlkun er vart möguleg þótt til séu kolrangar túlkanir.

Kannski er sú túlkun á lögum, sem hér hefur verið rædd, kolröng.

P.S. Ég bætti ýmsu smálegu við færsluna um enskumennsku. Ég benti á að ýmsir telja að hið alþjóðlega viðskipta- og starfsmál, sem talin er vera enska, sé í reynd í nýtt tungumál „globish“, glópamál.

Á íslenskum vinnustöðum, þar sem útlendingar eru í meirihluta,  er töluð hrogna-enska sem réttnefnd er „glópamál“. Kunnátta i því er efnahagslega snöggtum mikilvægari en leikni í eiginlegri ensku.

Ég bætti líka við upplýsingum um að Tryggvi Pétur Brynjarsson hefði eins og ég sett fram tillögur um að atvinnurekendur yrðu skyldaðir til að sjá til þess að erlendir starfsmenn lærðu eitthvað í íslensku.

Hefur einhver þingmaður manndóm í sér til að bera fram slíka tillögu á þingi? Væri ekki eðlilegt að forsætisráðherrann, sem er íslenskufræðingur, stæði fyrir slíkri tillögugerð?

Þá kann einhver að segja að slíkt yrði mjög kostnaðarsamt en mætti ekki klípa ögn af fé því sem dælt er í landbúnaðinn?

P.S.  Bæta má við að Björn Jón Bragason átelur stjórnvöld fyrir sofandahátt hvað íslenskuna varðar.

Í athugasemdadálki við grein hans geysist fram enskmenni sem heldur að málverndunarhyggja Björns Jóns sé leiðin aftur í moldarkofann.

Þarna er enskmennum lifandi líst, þeir halda í barnslegri einfeldni að enskan sé framfaramálið, íslenskan afturhaldstunga.

En hvað eru framfarir? Voru það framfarir þegar menn tóku að smíða kjarnorkusprengjur? Án meintra efnahagsframfara væri vart um hamfarahlýnun að ræða en slík hlýnun er að margra hyggju afturför.

Hver á ráða hvað teljist framför eða afturför? Það er ekki til nein einföld formúla fyrir því og þar af leiðandi ekkert gefið svar við þeirri spurningu hvort tiltekið tungumál sé framfaranna megin eða hið gagnstæða.  

Kannski verður kínverskan aðalframfaramálið innan tíðar. 

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • KB
    Kristinn Björnsson skrifaði
    "klípa ögn af fé því sem dælt er í landbúnaðinn?" Það er auðvelt að sparka í þá sem eru á botninum.
    0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu