Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Uppgötvanir vikunnar í París

Uppgötvanir vikunnar í París

París hefur lengi verið borgin sem ég hefði átt að búa í en bjó ekki í. Nú loksins stendur til að leiðrétta það.

Samband mitt við borgina byrjaði af alvöru þegar ég fór út í skiptinám við Paris 8. Það var ósköp fyndin önn. Ég hafði þegar verið þrjá mánuði í Frakklandi, búinn að vinna við uppvask á strand-veitingastað/tjaldstæði við pýrenafjöllin. (Ég bjó þá í maurétnu hjólhýsi en með ágætt útsýni yfir fjöllin).

Þegar ég kom til borgarinnar var ég ógurlega spenntur fyrir því að flytja í stúdentablokk með almennilegu rafmagni og hita, og byrja nám. Ég fékk úthlutaðan sambýlisfélagann Borja frá Spáni, svartskeggjaðan og þunglyndan forritunarnemanda sem virtist einungis nærast á súkkulaði og vodka, aldrei fara úr húsi og aldrei vaka nema á nóttunni. Það var lítil truflun í honum.

En námið fór ekki alveg eins og það átti að fara. Nicholas Sarkozy var að gera eitthvað helvítis rugl í menntakerfinu og nemendur fóru í verkfall, og Paris 8 sem var róttækasti skólinn í borginni eyddi heilum þremur mánuðum í verkfallinu. Með öðrum orðum ég eyddi litlum tíma í skólanum og meiri tíma í París á meðan aðrir nemendur byggðu sér varnarbyrgi úr húsgögnum, lokuðu inngöngum í skólann, grilluðu, reyktu og sveifluðu rauðum fánum. 
En þrátt fyrir það þekki ég ekki nema brotabrot af París. Enda borg sem maður getur uppgötvað eitthvað nýtt í á hverjum degi.

Í þessari viku til dæmis kynntist ég:


 

Uppgötvun eitt: Silencio


 

Þessi staður er staddur á þriðju hæð neðanjarðar í öðru hverfi Parísar. Hann minnir á neðanjarðarbyrgi og á sama tíma á ólöglega mafíu-næturklúbba bannárana. Sviðið þarna inni virðist hannað fyrir vafasama kabaretta frekar en þær indý-hljómsveitir og gjörningalistamenn sem koma þar fram. Klúbburinn er hannaður af og er hluta til í eigu David Lynch og ber þess merki. Hægt er að reykja inn í sérstökum herbergjum sem minna helst á lítinn þokuhulinn skóg, ef maður fer afsíðis eru design-sófasett og gylltir speglar í hornum, en fyrir miðju er dannaður kokteilbar. Sjálft dansgólfið er krúttlega lítið enda gengur konsept staðarins frekar út á að takmarka aðgengi heldur en að draga inn sem flesta.

Okkur var boðið þangað af meðlimi Low Roar Leifi Björnssyni, sem var að halda tónleika þar en annars hefðum við eflaust aldrei komist inn. Klúbburinn er áskriftarklúbbur. Til þess að komast inn þarf maður að vera meðlimur og borga ársgjald (900 evrur fyrir venjulega meðlimi en ef maður vill uppfæra í +meðlim kostar það skitnar 1680 evrur).

Prógramm klúbbsins er leynilegt nema fyrir meðlimi. (+meðlimum leyfist þó að taka með sér einn gest á kvöldi). Það er einungis mjög seint um helgar sem klúbburinn opnar dyrnar fyrir almenningi.



Uppgötvun tvö: Musée de la chasse og Enfants Rouges

 

Fólk hefur lengi verið að segja mér að fara á veiðisafnið svokallaða en ég hef aldrei verið sérlega spenntur fyrir uppstoppuðum dýrum. Þegar ég að lokum lét til leiðast áttaði ég mig á því hversu rangt ég hafði fyrir mér. Musée de la chasse opnaði aftur árið 2007 eftir langt hlé og er eitt flottasta og best hannaða safn borgarinnar. Þótt að meginhluti safnsins samanstandi af gömlum málverkum, uppstoppuðum dýrum og átjándu aldar byssum, þá er margt meira þar.

 

Samtímalistamenn hafa fengið frjálsar hendur í notkun á skinnum, gömlum veiðimálverkum frá barokktímanum, miðalda vefmyndir og uppstoppuð dýr. Uppstillingarnar sem þeir hafa náð að skapa í sumum herbergjum eru algjörlega magnaðar. Til dæmis er Ugluherbergið eftir Jan Fabre stórfenglegt.

Safnverðirnir eru þeir vinalegustu í gjörvallri París og einlæglega spenntir fyrir vinnu sinni. Einn eyddi næstum korteri í að tala við okkur um innsetningu Julien Salaud, sýning hans á neðstu hæð var virkilega áhrifamikil. Annar sagði okkur frá hefð villisvínaveiða frá steinöld til dagsins í dag og sá þriðji hvernig uppstoppað svínshöfuð, hvítabjörn og hljóðinnsetning fóru að því að bregða hópi túrista og eyðileggja nokkra síma.


Eftir þessa ferð gengum við að Marché des Enfants Rouges sem er í nágrenninu. Þetta er matarmarkaður en það er gott að sitja þar úti og borða enda skemmtilegir matsölustaðir í líbanskri, marakóskri og japanskri hefð innan um osta, vín og ávaxta-söluskála. Það er lifandi, ódýrt og bragðgott.

París leynir á sér.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni