Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Íslenskt interrail

Í fyrra tilkynnti evrópusambandið að það hyggðist gefa ungmennum ókeypis lestarferðir til að heimsækja heimsálfuna. Hér er linkur um það.

Nú þegar er tiltölulega ódýrt að komast milli staða í Evrópusambandinu og nágrannalöndum þess. Það eru möguleikar á ódýrum rútumiðum og interrail-passinn sem ESB var nú þegar góð leið til að heimsækja marga staði ódýrt. En ungmenni sem eru kannski í háskólanámi eða nýkomin á vinnumarkað eru í sérflokki auðvitað. Þetta eru ekki túristarnir sem eyða mestum pening, en þetta er fólkið sem verður fyrir mestu áhrifunum af ferðalaginu, það sem lærir mest, upplifir mest og kannski ákveður að koma aftur í eitthvert landið, fara í nám þar, finna sér vinnu eða setjast að.

Hugmyndin með að gefa passana var þó einfaldlega að stuðla að auknum tengslum milli landa. Það hefur með sér í för jákvæða þróun menningarlega, efnahagslega og eins klisjulega og það kann að hljóma, stuðlar að friði, sem er höfuðmarkmið sambandsins.

Flestar þjóðir hafa reyndar eitthvað prógramm í líkingu við þetta. Í Japan t.d. býðst ungu fólki að kaupa ódýra passa sem leyfa því að ferðast um með lókal lestum hvert sem er innanlands á afmörkuðum tíma. Vill svo til að passarnir eru seldir þegar háskólanemar eru nýkomnir í skólafrí.

Fá lönd eru jafn dýr  og Ísland. Meira að segja rútumiðar milli staða eru rándýrir. Innanlandsflug er líka dýrt, bílaleigubílar rándýrir og lestir ekki til staðar. Ofan á það bætist himinhár gistikostnaður og matur.

Hvers vegna búum við ekki til eitthvað í líkingu við íslenskt interrail. Passa sem leyfir ungu fólki milli 18-26 ára að ferðast eins og því lystir í rútum og flugi innanlands innan ákveðins tímaramma. Markmiðið með því væri augljóst, að ýta undir því að ungt fólk kynnist Íslandi og nái að upplifa það á tíma þegar það er mjög opið fyrir nýjum upplifunum.

Ég efast ekki um að það myndi verða til þess að ótal nýjar hugmyndir myndu fæðast, ný tengsl myndast, og fjárfestingin myndi borga sig bæði peningalega og menningarlega.

En það er óþarfi að hugsa um þetta út frá því hvað við græðum á því. Við ættum að gera það til þess að ungt fólk fái tækifæri á að kynnast Íslandi og upplifa, af því að okkur þykir það vænt um landið að við viljum að aðrir njóti þess, bæði innlend og erlend ungmenni.

Þetta gæti verið tveggja vikna passi fyrir ungt fólk 18-26 ára sem fæli í sér ákveðinn fjölda (eða ótakmarkaðan) ferða með rútum og flugi um alla landsfjórðunga á einhverju tímabili sem myndi henta fólki á þeim aldri.  Útfærslan er þó ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er að fólk á þessum aldri myndi öðlast færi til að kanna og kynnast landinu eftir eigin höfði og eignast þannig ógleymanlegar minningar og kannski varanleg tengsl.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu