Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Góð saga er góð saga en er góð saga góð?

Mig hefur stundum langað til að gerast trúaður. Þegar ég kom til Rússlands í fyrsta sinn og kom inn í orþodox kirkju heillaðist ég af litunum, lyktinni, gömlu konunni sem kyssti blóðuga fætur krists með tárin í augunum og sönginn sem bergmálaði milli steinsúlnanna. Það var kannski fagurfræðin sem talaði til mín frekar en Guð, en við nánari eftirgrennslan fann ég mig ekki í trúflokk sem fordæmir fólk fyrir kynhneigð sína og er notað af einræðisherrum á borð við Pútín til að styrkja sig í sessi.

Trúarbrögð eru kraftmikil, þau byggja á einhverri grundvallarþörf, ekki endilega til að skilja heiminn held ég, heldur kannski frekar til að fá heiminn til að meika sens. Í grunninn er nýja testamentið saga sem fylgir klassískum strúktúr: hetja rís upp frá dauðum til að uppfylla spádóm, sonur verður að föður. Í raun er þetta (Spoiler) sama plott og í flestum fantasíu skáldsögum, ævintýrum og þroskasögum. Máttur sögunnar er mikill.

 Ein fantasía sem mér dettur í hug er Assassin´s þríleikur Robin Hobb (eða Megan Lindholm ef þú endilega vilt), en þar segir frá bastarðinum Fitzchivalry sem tekinn er í fóstur af konungi nokkrum, afa hans. (SPOILER FRAMUNDAN).

Fitz myndar sérstakt samband með úlfi nokkrum en fyrir miðju þríleiksins er hann myrtur af andstæðingum sínum. Hann var búinn að lofa afa sínum að skipta sér aldrei af valdapólitík konungdæmisins en að lokum sá hann sig knúinn til þess, það var eina leiðin til að bjarga sínum nánustu. Sem betur fer, þótt að líkami Fitz deyi, þá lifir sál hans áfram inni í úlfinum vini hans og í lokabók þríleiksins snýr Fitz aftur, umbreyttur en máttugri en áður.

Með þessu er ég auðvitað búinn að SPOILA kæri lesandi hvernig nýja testamentið endar. Og líkast til næstu þáttaröð af Game of thrones. (En samt vonandi ekki).

Ég finn mig ekki í neinum trúarbrögðum. Jafnvel Búddisminn er heldur ekki fullkominn, þeir sem halda því fram að stríðsglæpir hafi aldrei verið framdir í nafni Búdda skjátlast. En ég skil þörfina fyrir að setja heiminn í ákveðið narratív, þannig getur marxisminn höfðað til mín með sinni einföldu sögu um hvernig Plebeijar munu á endanum rísa upp gegn Patríkeum og þegar kapítalisminn er kominn á sitt myrkasta skeið verði stutt í að ljósið skíni. Svo má heldur ekki gleyma frjálshyggjunni sem talaði líka ágætlega til mín, það er gott narratív fólgið í því að segja: einu sinni lifði maðurinn frjáls, svo kom vonda ríkið, en dag einn þegar við höfum sigrað ríkið og maðurinn verður aftur frjáls ... þá ... já, þá verður heimurinn góður á ný.

Í rauninni segja kenningar frjálshyggju, kommúnisma og kristninnar það sama. Í upphafi var maðurinn góður, svo kom samfélag, en að lokum mun maðurinn finna sitt upprunaástand. Stundum geta góðar sögur verið of góðar, boðskapurinn of þægilegur og einfaldur.

Pólitískar kenningar og trúarbrögð eiga það sameiginlegt að þau einfalda heiminn í einfalda baráttu góðs og ills. Þannig fantasíur eru skaðlegar í óhóflegu magni. Stundum getur hún verið nauðsynleg til að skilja hagsmunabaráttu ólíkra aðila. Ég trúi ekki á gott og illt, en ég trúi því að maðurinn sé eigingjarn og þeir eigingjörnustu gangi í framsókn eða sjálfstæðisflokkinn til að tryggja hagsmuni sína. En svo hefur maðurinn líka ýmsa aðra eiginleika. Og öll höldum við með lítilmagnanum þegar við setjumst í bíó. (Nema Hannes Hólmsteinn, hann hélt með óþokkunum í Avatar, lesið þessa grein, nei í alvöru, hún er svo skemmtileg að það má alveg gefa Björn Inga fleiri klikk og auglýsingatekjur til að hlæja að þessu: Avatar).

Trúin er haldreipi margra í tilverunni, en fyrst og fremst byggist hún á þörf fyrir að skilja heiminn á þægilegan máta. En bestu sögurnar eru óþægilegar. Enda vonar fólk sem hefur lesið eða séð margar sögur að sú næsta komi manni skemmtilega á óvart, máli hlutina ekki upp of svart/hvítt og segi manni fyrst og fremst eitthvað nýtt.

Ég er það bjartsýnn að vona að bestu sögurnar séu enn ekki skrifaðar. Og að það narratív sem henti best nútímamanninum muni á endanum koma til hans.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni