Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Dauðafærið - Ó Elizabeth Warren

Mér finnst réttast að byrja þessa bloggfærslu á því að nefna að nýráðinn aðstoðarmaður utanríkisráðherra (sem ætlar að sinna starfinu í hálfri vinnu meðfram skóla) er á launum sem eru tvöfalt hærri en starfslaun listamanna. 

En það er ekki innihald færslunnar. Ó nei. Haldið ykkur föstum.

Mig langar til að lýsa yfir stuðningi mínum við Elísabetu sem forseta. Ekki Elísabetu Jökulsdóttur, sem væri frábær forseti Íslands (hver vill ekki fá trampolín og útvarpstöð á Bessastaði?) heldur Elizabeth Warren öldungardeildarþingmann í Bandaríkjunum, sem fyrsta kvenkyns húsbónda hvíta hússins.

Fyrir nokkrum árum síðan átti ég í hörku-rökræðum á bar einhvers staðar í marais, París um sama forseta-embætti. Það var stutt í Iowa forvalið og kanadísk vinkona mín var eindreginn stuðningsmaður Hillary Clinton, en ég sagði íraksstríðs-stuðninginn ófyrirgefanlega synd, og því væri Obama eina vitið. Og væri það ekki líka frábært skref framm á við ef fyrsti svarti forseti Bandaríkjana væri kjörinn árið 2008?

Það var enn býsna langt í efnahagshrun og ég talsvert lengra til hægra pólitískt en ég er í dag. Samt þótti mér Hillary fullmikið inn á miðju, og sú skoðun hefur lítið breyst.

Samt er það þannig að maður hefur eitthvað óbragð í munni yfir því að halda með Bernie Sanders núna. Er hann langt vinstra megin við Hillary? Er hann ekki sinn eigin herra, óháður peningastyrkjum frá stórum bankastofnunum, lyfjafyrirtækjum og hergagnaframleiðendum. Mikil ósköp.

Er ekki svolítið töff að fyrsti gyðingurinn til að sigra í forvali í bandarískum forsetakosningum sé kominn fram? Afkomandi fólks sem lifði af helförina, en á sama tíma afar gagnrýninn á framkomu Ísraels gagnvart palestínumönnum.

Jú, það er svolítið töff.

Á sama tíma finnst mér synd að Bandaríkin eigi ekki svona frambjóðandi undir sjötugsaldri. Eða kvenkyns. Því það er fáránlega tímabært að kona sé forseti. (En á Íslandi er augljóslega tímabært að skáld verði forseti, nógu lengi höfum við skáldin verið undirokuð).

Hallærislegu leiðtogaembættin

Auðvitað er þessi leiðtogaleikur líka hallærislegur. Konur og svartir drengir eiga skilið fyrirmyndir, en forsetar eru sjaldnast góðar fyrirmyndir. Hvað hef ég lært sem hvítur karlmaður af forsetum? Eiginlega bara það að sé maður nógu ósvífinn þá komist maður þangað á endanum. Og vilji maður halda embættinu þurfi maður bara að vera ósvífnari. Aldrei hef ég séð leiðtoga sem ekki er ósvífinn. Og allt helsta böl manna má á endanum rekja til leiðtogadýrkunar hvort sem hann er blóraböggullinn sem tekur á sig okkar ábyrgð fyrir sameiginlega glæpi eða stendur í vegi framfara með því að draga táknrænt úr skaða (en gera raunverulega ekki neitt).

Heimurinn væri tvöfalt betri með konu í forsetaembætti. En kannski tífalt betri án þess. 

Er Hillary Clinton skárri en Ted Cruz? Já.

Hún er meira að segja í dag eftir nokkrar stökkbreytingar ekki langt frá því að vera á svipuðu róli og Bernie Sanders. Hún er með trúverðuga stefnu í menntamálum sem gengur út á að niðurgreiða háskólanám verulega fyrir ungt fólk í Bandaríkjunum, þar að auki var hún upprunalega vinstra megin við Obama í heilbrigðismálum (reyndi að koma á sama kerfi og Sanders talar nú fyrir í byrjun tíunda áratugarins), og ég held að það megi treysta á að hún bæti Obamacare (affordable health care act). Það helsta sem mælir gegn henni er sú að samfélagið í dag kallar eftir meiri breytingum en hún treystir sér til að berjast fyrir . . . og að fólk treystir henni ekkert. (Með réttu).

Lærdómar tíunda áratugarins

Stjórnmálafólk er yfirleitt að bregðast við tíma sem er liðinn. Sumir álasa Hillary fyrir að hafa sem ung stúlka stutt Goldwater, sem var á sjötta áratugnum eins langt og maður komst til hægri, en það er meira að marka það að hún var sjálfboðaliði fyrir George McGovern átta árum síðar. McGovern var utangarðsmaður, af vinstri kant bandarískra stjórnmála sem flestum að óvörum náði að verða frambjóðandi demókrata 1972.

Eftiráskýrendur telja McGovern aldrei hafa átt sjéns. En klúðrið í sambandi við val á varaforsetaefni var kannski frekar vandamálið en vinstrisinnaðar áherslur hans. Og Nixon var enginn aukvisi.

Sá lærdómur sem Hillary kann að hafa dregið af falli McGovern og næstu áratugum í bandarískri pólitík er þó sá að fari maður of langt til vinstri þá tapi maður. Hún reyndi að koma á nýju heilbrigðiskerfi með eiginmanni sínum á fyrsta kjörtímabili Bill og það mistókst. Clinton hjónin létu eftir það stýrast af skoðanakönnunum og nánu samstarfi við repúblikana. Varnarsigrar voru betri en engir sigrar. Kannski var það rétt.

Tíundi áratugurinn var tímabil mikillar hægrisveiflu. Þriðja leiðin leiddi til sigra, þar sem sósíaldemókratar tóku upp ásýnd og orðræðu hægrimanna. Hefði Tony Blair getað leyft sér að fara lengra til vinstri og unnið kosningar í Bretlandi.

Kannski. Kannski ekki. Við munum aldrei vita slíkt, þótt vafalaust hafi verið mikil þreyta á Tory-liðinu. 

Í atferlissálfræði hafa verið gerðar tilraunir með dúfur sem gogga í takka og fá úthlutað fræjum. Dúfur geta lært að gogga í takkann og tengt hann við næringu. Það sem gerist þegar þær fá stundum fóður og stundum ekki, handahófskennt leiðir þó til athyglisverðrar niðurstöðu.

Takkinn virkar stundum og stundum ekki, en dúfan veit ekki hvers vegna. Er það eitthvað meira en að ýta bara á hnappinn? Sumar dúfur í tilrauninni byrjuðu að baða út vængjum, snúa sér í hringi, hoppa um, gogga þrisvar í röð. Ekkert af þessu var líklegra til að virka, en þær virtust sannfæra sjálfa sig um að ritúalið skipti máli.

Við manneskjur gerum þetta á stærri skala. Þaðan kemur alls kyns hjátrú um happa-nærbuxur eða skeifur á veggjum. Í sumum tilvikum náum við prófinu af því við erum sjálfsöruggari í ákveðnum klæðnaði, í öðrum tilvikum vörumst við að stíga á sprungur, af því bara . . . af því stundum gerast slæmir hlutir þegar við stígum á sprungur.

Stjórnmálafræði líkt og önnur félagsvísindi eru ónákvæm í eðli sínu. Vissuð þið að meira að segja háþróaðasta tölvutækni getur ekki einu sinni sagt til um hvernig fólk gengur yfir götu? Vegfarendur á gangbraut eru eitt það ófyrirsjáanlegasta í alheiminum.

Af hverju? Af því það eru svo margar breytur í mannlegri hegðun. Kannski sveigði ég til vinstri af því ég er ómeðvitað smeykur við aðra skeggjaða karlmenn, eða augnaráðið var óþægilegt . . . eða staldraði ég við út á miðri gangbraut því ég er túristi í borginni og vildi virða betur fyrir mér bleika húsið . . .

Hvað nákvæmlega gerði það að verkum að Tony Blair og Clinton náðu völdum er ekki endilega það sama og það sem vinstrimenn lærðu af því.

Sem leiðir okkur að:

Glötuðu kynslóðinni

Af hverju eru helstu vonarstjörnur þeirra sem vilja umbreyta pólitíkinni í Bretlandi og Bandaríkjunum gamlir, þvermóðskulegir karlar eins og Jeremy Corbyn og Bernie Sanders?

Af hverju er enginn karl/kona á aldur við Árna Pál Árnason augljós arftaki hans innan Samfylkingarinnar? Af hverju höfðu vinstrimenn ekki sjálfstraust til að standa saman gegn íhaldsöflum á alþingi síðasta kjörtímabil og koma í gegn stjórnarskrárbreytingum?

Smá dæmisaga:

Þegar ég var lítill spilaði ég stundum fótbolta. Almennt er ég anti-sportisti, en maður hafði minna val í þá daga og neyddist stundum til að taka þátt. Ég var yngstur í bekknum og með asma (sem virðist horfinn í dag). Ég var yfirleitt valinn seinastur í liðið. Ég var lélegur í fótbolta.

En það kom fyrir, eins og er tölfræðilega líklegt, að ég komst í dauðafæri við markið. Stundum var enginn í markinu jafnvel.

En alltaf gaf ég boltann frekar en að taka sjénsinn. Og klúðraði þannig færinu. Sem leiddi til spurningarinnar: Af hverju skaustu ekki þegar markið var autt?

Mín reynsla hafði alltaf verið sú að ég skoraði ekki mörk. Það besta í stöðunni væri ávallt að gefa á einhvern sem skoraði. Ég spáði ekki mikið í því.

Síðar meir uppgötvaði ég að í raun væri ég ekki lágvaxinn, að ég gæti hlaupið mjög hratt og hefði ágætis þol (var asminn ímyndun?). Það var löngu eftir grunnskóla, en þó hefðu þetta allt átt að vera augljósir hlutir í unglingadeild. Og hefði ég fattað það, hefði ég kannski gaman af íþróttum í dag.

En það er ekki auðvelt að átta sig á því að maður geti unnið þegar maður er vanur því að tapa.

Sem leiðir mann að spurningunni: Hví skyldu vinstrimenn á aldur við Árna Pál hafa einhverja trú á því að þeir geti skorað mark?  Þeirra reynsla bendir öll til að með því að færa sig aðeins lengra til hægri, laga sig að orðræðu hægrimanna, leiði til varnarsigra.

Það er ekki auðvelt að afskrifa þá reynslu alveg. Það má vel vera að ég skynji það samfélag sem ég vill skynja, Facebook og aðrir samfélagsmiðlar, (og netmiðlar) færa mér þeir upplýsingar sem smellpassa við þá hugmynd að gömlu valdastofnanir vesturlanda muni senn hrynja og nýtt, talsvert mannlegra samfélag verða til. Slík bjartsýni leiðir til þess að maður er frekar til í að hlaupa í átt að marki en að gefa boltann.

Hef ég rangt fyrir mér? Sóaði Elizabeth Warren dauðafæri með því að gefa boltann á Bernie Sanders eða er Hillary Clinton að semja við repúblikana um niðurskurð það skásta í stöðunni viljum við ekki Bloomberg forseta. (Það eru engar líkur á því að Donald Trump vinni þótt hann verði frambjóðandi repúblikana ... þið lásuð þennan spádóm fyrst hér).

En Elizabeth, Ó, Elizabeth, hvers vegna gastu ekki bara tekið slaginn?

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni