Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Stríð Sjálfstæðisflokksins í borginni við sóttvarnalækni

Stríð Sjálfstæðisflokksins í borginni við sóttvarnalækni

Barátta Íslendinga við Covid-19 hefur verið virkilega vel heppnuð, algjört þrekvirki og gott dæmi um hverju við getum áorkað þegar á reynir og þegar vel hæft fagfólk okkar fær að stýra ferðinni. Ríkisstjórnin hefur lagt mikla áherslu á að það sé lykilatriði að hlýða á sérfræðinga og fylgja þeirra ráðleggingum, treysta á þeirra þekkingu. Það er skynsamleg afstaða sem hefur gefist vel. Hér sýna nokkrir af lykilstyrkleikum Íslendinga sig vel: Gott menntunarstig, almennt traust í garð sérfræðiþekkingar og góð geta til samheldni á krísutímum. Þríeykið Alma, Þórólfur og Víðir hafa haldið vel á spöðunum og eiga fyllilega skilið Fálkaorðuna sem forsetinn sæmdi þau í síðasta mánuði.


Það hefur þó því miður ekki alltaf verið óumdeilt að treysta eigi á sérfræðiþekkingu og að pólitíkin eigi að stíga til hliðar þegar kemur að smitsjúkdómavörnum. Hér eru mér efst í huga endurteknar tilraunir Sjálfstæðismanna í borgarstjórn til þess að troða inn hugmynd sinni um að úthýsa óbólusettum börnum úr leikskólum.

Borgarstjórnarflokkurinn lagði þetta fyrst fram á síðasta kjörtímabili, þegar ég sat í borgarstjórn, á fundi borgarstjórnar þann 17. mars 2015. Nokkrar umræður höfðu spunnist á opinberum vettvangi um tillöguna eftir að Sjálfstæðismenn gáfu út að þeir ætluðu að leggja hana fram. Sóttvarnalæknir hafði af þessu tilefni séð ástæðu til að gefa út tilkynningu þar sem hann áréttaði þá skoðun sína að það væri engin sérstök ástæða til að skylda bólusetningar og að „Miklu frekar þarf að bæta innköllunarkerfi heilsugæslunnar og að fræða foreldra og heilbrigðistarfsmenn um mikilvægi bólusetninga til að halda hér uppi góðri þátttöku“. Ég hafði sjálfur sett mig í samband við embættið með tölvupósti vegna tillögunnar af því mér þótti eðlilegast að leita sérfræðiálits í þessum efnum - og fengið einmitt þessi svör, að embættið mælti ekki með þessari leið. Þessa afstöðu sóttvarnalæknis rakti ég á fundinum, sem og fleiri fulltrúar meirihlutans, og út frá þessu áliti sóttvarnalæknis felldum við í meirihlutanum tillöguna. Í staðinn lögðum við fram tillögu þess efnis að borgarstjóra væri falið að „hafa samráð við sóttvarnarlækni og landlækni um hvernig Reykjavíkurborg getur best stutt við stefnu heilbrigðisyfirvalda um bólusetningar barna“ og kynna niðurstöðu þeirra viðræðna í borgarráði. Sú lending var samþykkt samhljóða en það reyndist alls ekki vera endir málsins.


Nýir Sjálfstæðismenn í borginni hófu nefnilega þetta kjörtímabil á því að endurvekja tillöguna, með tilheyrandi fári í opinberri umræðu sem sóttvarnalæknir sá aftur ástæðu til að bregðast við. Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi skrifaði hins vegar grein sem birtist þremur dögum síðar á vefsíðu Sjálfstæðisflokksins þar sem hún virðist gera sér grein fyrir afstöðu sóttvarnalæknis en reynir að færa rök fyrir því að þetta mál komi honum í raun bara ekkert við:

Sóttvarnarlæknir setur ekki inngönguskilyrði á leikskóla. Það gera sveitarfélög með heimild í lögum um leikskóla. Sóttvarnarlæknir gefur ekki út tilmæli um skyldubundnar bólusetningar nema faraldur fari af stað hérlendis. Það er hins vegar pólitísk ákvörðun hvort sveitarfélög vilji ráðast í fyrirbyggjandi aðgerðir. Stjórnmálamenn þurfa stundum að taka djarfar ákvarðanir með hagsmuni heildarinnar í huga.

Hildur gerir litla tilraun til að rökstyðja af hverju sú leið að úthýsa óbólusettum börnum sé líkleg til að skila árangri og hún svarar í engu framkomnum rökum sóttvarnalæknis gegn þessari leið. Sjálfstæðismönnum finnst bara að það hljóti að vera þannig og þá þarf greinilega engin frekari rök. Nóg er hins vegar þarna af hræðsluáróðri sem er augljóslega ætlað að vekja hugrenningar um að hætta kunni að stafa af því að gera þetta ekki. Þó finnst þeim sér sæmandi að vitna í yfirlýsingar sóttvarnalæknis um óviðunandi hlutfall bólusetninga þrátt fyrir að þeir kjósi að hundsa þær leiðir sem hann leggur til. Sjálfstæðismenn stóðu við yfirlýsingar sínar og lögðu fram tillögu á fundi borgarstjórnar þann 4. september 2018 sem var felld sem fyrr. Í sameiginlegri bókun lýsa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins yfir vonbrigðum með því að tillögunni hafi verið hafnað og halda áfram hræðsluáróðri: „Sumir vilja ekkert aðhafast fyrr en alvarleg tilfelli smitsjúkdóma greinast hérlendis. Við viljum bregðast við strax.“


Spólum þá fram til ársins 2019. Þann 9. mars segir sóttvarnalæknir í viðtali enn og aftur að honum hugnist ekki þvinganir sem leið til að auka hlutfall bólusetninga og að þær gætu jafnvel haft þveröfug áhrif. Þetta aftrar Sjálfstæðismönnum í borginni hins vegar ekki frá því að leggja fram tillögu sína um úthýsingu óbólusettra barna úr leikskólum enn og aftur, í þetta sinn í borgarráði þann 21. mars. Kannski að þau hafi hreinlega litið á andstöðu sóttvarnalæknis sem sérstaka herkvaðningu. Í þetta skiptið leitaði meirihlutinn í borgarráði formlegrar umsagnar sóttvarnalæknis, sem var lögð fram á fundi þann 11. apríl. Ekki kemur á óvart að þar segir Þórólfur sóttvarnalæknir það sama og hann hafði sagt alla tíð:

Óvíst er því hvort skyldubólusetning með miklum tilkostnaði og umstangi myndi bæta þátttökutölur svo nokkru nemi. Hins vegar er hætta á að andstaða gegn bólusetningu gæti aukist við þessar ráðstafanir sem gæti minnkað þátttökuna frá því sem nú er. Reynsla annarra þjóða hefur sýnt þetta og einnig að skyldubólusetningar eru erfiðar í framkvæmd og skila oft ekki tilætluðum árangri. 

Það er því skoðun sóttvarnalæknis að lagfæra þurfi skráningar- og innköllunarkerfi heilsugæslunnar áður en bólusetningar verða gerðar að skyldu fyrir innritun á leikskólum borgarinnar.

Skyldubólusetning er þrautarúrræði sem ekki á að grípa til nema ef önnur úrræði duga ekki.Bólusetning er í eðli sínu ekki pólitísk ákvörðun heldur byggir á lýðheilsumati á þeirri ógn sem stafar af tilteknum smitsjúkdómum. Samkvæmt sóttvarnalögum nr. 19/1997, er sóttvarnalæknir sá opinberi aðili (undir yfirstjórn ráðherra) sem metur lýðheilsuhættu hér á landi af völdum smitsjúkdóma og skipuleggur opinberar sóttvarnaráðstafanir þ.m.t bólusetningar.

Mat sóttvarnalæknis er að nú sé ekki bráð lýðheilsuhætta á ferðum sem réttlæti örþrifaráð í málefnum bólusetninga.

Þessa umsögn, sem segir að tillagan sé ekki bara ólíkleg til að skila árangri, heldur þvert á móti líkleg til að hafa hreinlega þveröfug áhrif, höfðu borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fyrir framan sig en þau ákváðu samt að halda tillögunni til streitu og láta fulltrúa meirihlutans fella hana.


Þegar Covid-19 faraldurinn stóð sem hæst var mikil pressa á að beita enn harðari aðgerðum en beitt var. Meðal annars voru sumir ósáttir við þá ákvörðun að reyna að halda skólum opnum eins mikið og kostur var á. Þarna hefði verið auðvelt að láta óttann ná yfirhöndinni en fagfólkinu var leyft að ráða, því var á endanum treyst til að halda rétt á spöðunum og það reyndist skynsamleg ráðstöðun. Sjálfstæðismenn í borginni kusu hins vegar ítrekað að fara aðra leið gagnvart bólusetningum barna - að róta í hræðsluáróðri án raka og alveg þvert á ráðleggingar sóttvarnalæknis. Flókið og viðkvæmt málefni sem snertir velferð barna var gert vísvitandi að pólitísku bitbeini út frá engu öðru en 'mér finnst' yfirlýsingum. Málið er hins vegar að þegar kemur að viðfangsefnum eins og sóttvörnum þá dugir 'mér finnst' afskaplega skammt. Þegar um er að ræða þvingandi aðgerðir sem svipta börn réttindum er þeim mun ríkari ástæða til að láta 'mér finnst' eitt og sér ekki nægja. Hvað þá þegar þetta 'mér finnst' er ítrekað í beinni andstöðu við skoðanir fagembættisins sem sér um málaflokkinn.

Mér er ennþá óskiljanlegt af hverju þetta var svona mikið keppikefli hjá Sjálfstæðismönnum í borginni og dettur því miður einna helst í hug sú skýring að þarna hafi meiningin einfaldlega verið sú að skora ódýr prik til að slá sér upp sem ábyrga aðilanum sem vill aðgerðir strax en neyða meirihlutann til þess að axla ábyrgð á því að taka slaginn fyrir hönd faglegu rakanna og koma þannig út sem aðilinn sem vill bara ekkert gera. Ég segi þá nú bara fyrir mitt leyti að ég er ákaflega stoltur af því að hafa tekið þennan slag á sínum tíma en ég vona samt að fagmennskan sem sóttvarnalæknir og annað fagfólk hefur sýnt í gegnum Covid-19 krísuna sé endanlega búin að slá út af borðinu allar hugmyndir um að það sé sniðugt að gera þessi mál að pólitísku bitbeinu. Pólitíkin hefur næg viðfangsefni þó ekki sé bryddað upp á því að taka ítrekað slagi á vettvangi hennar í andstöðu við skýrt álit fagaðila.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni