Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Þögn utanríkisráðuneytisins

Þögn utanríkisráðuneytisins

VIÐBÓT 15.10.2015: Svörin hafa borist og þau má sjá hér.

Hún fór sennilega framhjá fáum, tillagan sem samþykkt var í borgarstjórn í síðasta mánuði en síðan dregin til baka, um að Reykjavíkurborg skuli haga innkaupum sínum þannig að vörur frá Ísrael yrðu sniðgengnar. Hún var dregin til baka meðal annars í ljósi þess að utanríkisráðuneytið gaf út yfirlýsingu þar sem áréttað var að hún samræmdist ekki stefnu ríkisins og að ekki væri hægt að útfæra hana innan ramma laganna. Það var allavega ein helsta ástæða þess að mér fannst rétt að draga hana til baka. Önnur ástæða var að mér fannst ég ekki hafa skýrt umboð frá Pírötum til að fara í þessa vegferð án umræðu um ýmis álitamál, eins og til dæmis hvert hlutverk sveitarfélaga í þessum efnum ætti að vera. Það er auðvitað ýmislegt hægt að gera til að þrýsta á um að mannréttindi séu virt úti í heimi en það þarf þá að vera vel undirbúið og samkvæmt skýru umboði.

Það var því von mín að þegar um hægðist væri hægt að fara í samtal um þessi mál á almennum grunni, og ég hafði í því ljósi ákveðnar spurningar um þær yfirlýsingar sem utanríkisráðuneytið sendi frá sér. Til dæmis varð ég forvitinn um hver væri nákvæmlega stefna íslenska ríkisis gagnvart Ísrael, sem ráðuneytið áréttaði gagnvart erlendum aðilum í kjölfar tillögu borgarstjórnar. Taldi ég rétt að ég sem aðili að málinu hefði fullan rétt á þessum upplýsingum og að þær væru nauðsynlegar upp á frekara samtal um hvernig er rétt að haga þessum málum.

Því sendi ég eftirfarandi upplýsingabeiðni til utanríkisráðuneytisins þann 24. september:

Daginn,

Í ljósi yfirlýsingar utanríkisráðuneytisins um samskipti vegna ákvörðunar borgarstjórnar sem birtist á vef ráðuneytisins í dag (http://www.utanrikisraduneyti.is/frettir/nr/8492) óska ég eftir eftirfarandi upplýsingum.

 

- Hvaða stefna Íslands gagnvart Ísrael var áréttuð í þeim samskiptum sem rakin eru í yfirlýsingunni?

- Hvaða misskilningur var leiðréttur?

- Hvernig var misskilningurinn leiðréttur?

- Þó þess sé ekki getið í yfirlýsingunni, né eldri yfirlýsingu ráðuneytisins um sama efni (http://www.utanrikisraduneyti.is/frettir/nr/8488), var það yfirlýst markmið umræddrar sniðgöngutillögu borgarstjórnar að þrýsta á um að Ísraelsríki léti af hernámi á landsvæði Palestínumanna*. Er það stefna íslenskra stjórnvalda að styðja við þetta markmið?

- Var í samskiptum utanríkisráðuneytisins um málið lögð áhersla á að árétta að sniðgöngu Reykjavíkurborgar var ætlað að vara aðeins meðan hernám Ísraelsríkis á landsvæði Palestínumanna varir?

 

Jafnframt er óskað eftir afriti af stöðluðum texta sem notaður var til að svara þeim tölvupóstum sem utanríkisráðuneytinu bárust um málið, sé hann til. Sé hann ekki til er óskað eftir afriti af dæmigerðum texta.

*„Borgarstjórn samþykkir að fela skrifstofu borgarstjóra í samvinnu við innkaupadeild Reykjavíkurborgar að undirbúa og útfæra sniðgöngu Reykjavíkurborgar á ísraelskum vörum meðan hernám Ísraelsríkis á landsvæði Palestínumanna varir.“ - http://reykjavik.is/fundargerd/borgarstjorn-1592015

Kv.

Halldór Auðar Svansson 

 

Daginn eftir birtist síðan frétt á Stundinni sem vakti mig til umhugsunar um annað atriði, sem var nákvæmlega hvaða rök ráðuneytið hafði fyrir því að fullyrða að umrædd tillaga stæðist ekki lög. Ég hjó til dæmis eftir því að í svörum ráðuneytisins við spurningum blaðamanns er tekið sérsataklega fram að ekki hafi legið fyrir í tillögunni hvort hún beindist eingöngu að fyrirtækjum í Ísrael eða hvort henni væri líka ætlað að beinast að fyrirtækjum með staðfestu á evrópska efnahagssvæðinu sem höndla með ísraelskar vörur. Það er sérkennilegt að viðurkenna að útfærsla liggi ekki fyrir (en tillagan laut einmitt að því að fela skrifstofu borgarstjóra í samvinnu við innkaupadeild Reykjavíkurborgar að undirbúa og útfæra sniðgöngu og þá innan ramma laga) en fullyrða samt að hún myndi brjóta í bága við lög.

Taldi ég mjög mikilvægt í ljósi þess að þessi yfirlýsing beindist að mínum störfum (og hún nýtt af ýmsum á sínum tíma til að hafa uppi stór orð um þau störf) að ég fengi nánari skýringar og sendi því aðra upplýsingabeiðni:

 

Daginn,

Í ljósi fréttar Stundarinnar í dag (http://stundin.is/frett/raduneytid-taldi-farid-svig/) um svör utanríkisráðuneytisins við fyrirspurnum blaðamanns um yfirlýsingu ráðuneytisins frá 18. september (http://www.utanrikisraduneyti.is/frettir/nr/8485) óska ég eftir eftirfarandi upplýsingum.

- Hvaða rök lágu til grundvallar þeirri niðurstöðu ráðuneytisins að „Samþykki Reykjavíkurborg að breyta innkaupastefnu sinni með bindandi hætti þannig að ísraelskir birgjar skuli sniðgengnir, samræmist það hvorki íslenskum lögum né ákvæðum í alþjóðlegum skuldbindingum alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um opinber innkaup, sem Ísland er aðili að og Reykjavíkurborg og önnur sveitafélög eru bundin af. “?

- Hafði ráðuneytið samband við Reykjavíkurborg til að óska eftir skýringum á umræddri tillögu borgarstjórnar við úrvinnslu yfirlýsingarinnar?

- Ef já, hverjar voru þær skýringar og að hvaða leyti var tekið tillit til þeirra í yfirlýsingunni?

Jafnframt er óskað eftir öllum gögnum, þar með töldum vinnugögnum og bréfaskriftum, sem lögð voru til grundvallar yfirlýsingunni.

Kv.

Halldór Auðar Svansson

 

Skemmst er frá því að segja að ég hef engin svör fengið við þessum erindum. Ekki einu sinni staðfestingu á móttöku þeirra. Þess vegna ítrekaði ég þann 12. október síðastliðinn að ég vildi fá staðfestingu á móttöku hið minnsta:

 

Daginn,

Þann 24. september síðastliðinn sendi ég tölvupóst á utanríkisráðuneytið (postur@utn.stjr.is) með beiðni um ákveðnar upplýsingar sem varða ákveðna yfirlýsingu ráðuneytisins um tillögu borgarstjórnar um að sniðganga ísraelskar vörur. Daginn eftir, 25. september, sendi ég annað skeyti með upplýsingabeiðni um aðra yfirlýsingu um hið sama. Við hvorugu hef ég fengið svar, ekki svo mikið sem staðfestingu á móttöku.

Því fer ég að algjöru lágmarki fram á staðfestingu á móttöku þessa skeytis sem og umræddra upplýsingabeiðna. Mér finnst afar sérkennilegt að vera sem kjörinn fulltrúi ekki virtur viðlits þegar ég legg fram beiðnir um upplýsingar sem snerta störf mín – að ráðuneytið hagi upplýsingagjöf sinni um þau málefni með þessum hætti, að birta opinberlega einhliða yfirlýsingar um sinn skilning á þeim, en sé síðan ekki til svars þegar beðið er um frekari skýringar. Tel ég þetta framferði ráðuneytisins sérlega ámælisvert í ljósi þess að í yfirlýsingum ráðuneytisins er því meðal annars haldið fram fullum fetum að tillaga sem ég átti þátt í að samþykkja samræmist ekki lögum. Slíkar fullyrðingar tel ég engan veginn vera þess eðlis að hægt sé að henda þeim fram í opinbera umræðu án þess að þurfa að standa umbeðinn fyrir máli sínu.

Mun ég leita annarra leiða til að afla umræddra upplýsinga og vekja athygli á að ég sé að fara fram á þær ef þessi virkar ekki, að leggja inn formlegar upplýsingabeiðnir til ráðuneytisins.

Kv.

Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúi

 

Ég hef ekki heldur fengið nokkurt einasta svar við þessari ítrekun. Ljóst er því að ekki er um samtal að ræða hjá ráðuneytinu heldur einhliða yfirlýsingar sem öðrum, þar með töldum mér, er bara ætlað að kyngja þegjandi. Það vil ég hins vegar ekki gera. Ég tel líka að þetta samtal eigi fullt erindi við íslenskan almenning og sé bráðnauðsynlegt.

Þess vegna tel ég að eina færa leiðin sé að birta þessar upplýsingabeiðnir opinberlega og leita annarra leiða til að fá þau svör sem ég sækist eftir.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni