Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Nei, kerfið er ekki að virka

Nei, kerfið er ekki að virka

Í útvarpsviðtali síðastliðinn sunnudag fagnaði formaður Sjálfstæðisflokksins ágreiningi innan síns flokks um sóttvarnaaðgerðir og stillti honum upp sem mikilvægu aðhaldi, þetta snerist um meðalhófið og vernd borgarlegra réttinda. Hann fagnaði síðan því að ríkisstjórnin var gerð hornreka af dómstólum með þá fyrirætlan sína að skikka fólk frá hááhættusvæðum til að taka út sóttkví í sóttvarnahúsi, sagði það til marks um að kerfið væri að virka.

Að framkvæmdavaldið fagni því sérstaklega að grípa hafi þurft til öryggisventils dómstólanna gagnvart því og að það hafi virkað sem skyldi er að sjálfsögðu áhugaverð og merkilega djörf nálgun. Þetta er æfing í þeirri list að snúa ósigri yfir í sigur. Hér ber hins vegar að sjálfsögðu, þegar mat er lagt á hvort um sigur sé að ræða, að líta til þess hvernig mál hafa þróast síðan, hvernig unnið hefur verið úr þessum dómi og hver áhrifin hafa verið á verkefnið - sem samkvæmt lýsingu Bjarna snýst um að viðhafa sóttvarnir en gæta samt meðalhófs í aðgerðum. Innri átök innan flokksins sem og aðhald dómstóla eru þá að hans mati góðar aðferðir til að tryggja þetta jafnvægi.

Það sem hefur gerst síðan er auðvitað öllum kunnugt. Tveimur dögum eftir þetta viðtal stóð Bjarni á blaðamannafundi í Hörpu og gaf orðið til forsætisráðherra sem tilkynnti að það ætti að leita eftir lagaheimild til að skikka fólk frá hááhættusvæðum í sóttkví, nema að þessu sinni með þeirri aukaflækju að meiningin væri að búa til tvö séríslensk þrep upp á mat á það hvað teljast hááhættusvæði. Það er sumsé verið að gera nákvæmlega það sem ætlunin var að gera í byrjun mánaðar, nema bara með aukaflækju sem enginn hefur verið að kalla eftir og Læknafélag Íslands sá sérstaka ástæðu til að gjalda varhug við í umsögn sinni um hraðsoðið frumvarp heilbrigðisráðherra þegar það kom fram. Litlar sem engar skýringar hafa fengist á því úr hvaða hatti stjórnarliðar drógu eiginlega þetta séríslenska kerfi né á því af hverju þeim þótti alþjóðleg viðmið viðeigandi fyrir mánuði síðan en telja núna þörf á því að búa til sitt eigið kerfi.

Niðurstaðan eftir allt bröltið er sumsé sú að það er verið að gera það sem ætlunin var að gera nema bara aðeins flóknara og ógagnsærra. Einnig er búið að aftengja ákvörðunartökuferlið frá faglegri ráðgjöf; ráðherrar hafa tekið það algjörlega til sín og eru farnir að kokka upp sín eigin sóttvarnakerfi sem virðast eiga sér litla stoð í sérfræðiþekkingu. Hafi fólk verið á þeirri meiningu að það hafi verið sigur fyrir borgararéttindi og frelsi að ekki mætti skikka fólk til að taka út sóttkví í sóttvarnahúsi þá er að sjálfsögðu búið að taka þann sigur til baka með því að veita lagaheimild til þess, af því að breytt viðmið hafa að sjálfsögðu engin áhrif á prinsippið að baki. Sé fólk á því að það sé sigur fyrir sóttvarnir að það sé búið að koma á skyldudvöl fólks frá ákveðnum svæðum í sóttvarnahúsi þá er að sjálfsögðu líka búið að taka þann sigur til baka með þeim miklu töfum sem hafa orðið vegna þess að lagaheimild var ekki tryggð til að byrja með og stjórnarliðar tóku sér síðan nokkrar vikur til að ákveða að jú, það þyrfti að gera þetta og það þyrfti lagaheimild.

Brölt og vandræðagangur stjórnarliða er augljós og það er hverju barni ljóst að það er enginn sigur þarna, einungis ákvarðanafælni og skortur á samstöðu og stefnufestu. Það er sök sér - en ég á erfitt með að líta á það sem annað en gróft andlegt ofbeldi gagnvart allri þjóðinni að þetta fólk er samt sem áður að láta eins og vandræðagangurinn sé ekki til staðar heldur séu þau bara alveg með þetta, kerfið sé bara að virka fullkomlega og að við eigum bara að halda áfram að klappa fyrir góðum árangri þeirra. Það er rosalega hryggilegt að þetta sé að gerast núna á lokametrunum, að einhver kosningaskjálfti og innri ágreiningur séu að valda því að stjórnarliðar henda faglegum vinnubrögðum út um gluggann í þágu ímyndarhönnunar. Ég verð að segja að ég átti ekki von á því að þessi staða myndi koma upp og hvað þá þegar alvöru sigur virðist nánast í höfn (það „eina“ sem þarf er bara smá þolinmæði og stefnufesta í fáeinar vikur eða mánuði í viðbót).

Þetta er samt staðan og það verður að segja hreint út - ríkisstjórnin er því miður ekki með þetta lengur. Ég treysti henni ekki lengur til að halda utan um þetta verkefni og allur árangur í sóttvörnum sem verður vonandi á næstu vikum verður ekki henni að þakka heldur verður hann þrátt fyrir að hún sé að þvælast fyrir.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni