Kirkjan á markaðstorgi hugmyndanna
Sú aðgerð sóknarprests Laugarneskirkju og prests innflytjenda að láta lögregluna sækja tvo hælisleitendur sem vísa átti úr landi í kirkjuna var fyrst og fremst táknræn, gerð til að varpa ljósi á hvernig þessi mál ganga fyrir sig og um leið taka kristilega afstöðu gegn ríkjandi kerfi. Það voru hælisleitendurnir sjálfir sem streittust á móti því að vera sóttir, eins og fólk í þessari stöðu gerir væntanlega mjög oft. Það er bara alls ekki á hverjum degi sem það næst á mynd að þarna er fólk af holdi og blóði sem þarf að sækja með valdi til að vísa úr landi.
Vel heppnaðar táknrænar aðgerðir hafa þó iðulega í för með sér mikla umræðu og óhætt er að segja að það eigi við í þessu tilfelli. Fólk kemst illa hjá því að taka afstöðu gagnvart svona löguðu. Meira að segja biskup Ísland hefur tjáð sig um aðgerðina og tekur hún greinlega stöðu með prestum sínum og segist vilja láta sig málefni flóttafólks varða í kjölfar þessa, enda var aðgerðin framkvæmd í samráði við Biskupsstofu.
Ekki eru þó allir par sáttir. Það eru einna helst harðir verjendur núverandi kerfis sem gagnrýna aðgerðina. Margir þeirra teljast til kristilegs íhalds og hafa hingað til tekið sér mjög sterka stöðu með Þjóðkirkjunni og telja hana útstöð kristilegra gilda. Það vekur í raun furðu hjá mér hversu fljótir margir þeirra eru núna að snúa baki við henni og jafnvel tala um aðskilnað ríkis og kirkju, þegar hún hegðar sér ekki alveg í samræmi við þeirra eigin meiningar um það hvernig kirkja á að vera. Hér má til dæmis nefna þingmennina Ásmund Friðriksson og Brynjar Níelsson en dæmin sem ég hef séð um svipaðan málflutning eru mun fleiri.
Nú er ég meðal þeirra sem hafa lengi talað fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju. Sú meining mín er engan veginn byggð á einhverri andstöðu við kirkjur eða kristni heldur eiginlega þvert á móti. Ég er bara einfaldlega á svipaðri línu og til að mynda Brynjar Níelsson þegar hann talar um að þjónar Þjóðkirkjunnar eigi að berjast fyrir sínum málum á markaðstorgi hugmyndanna“ - ekki bara þegar þeir misbjóða mér persónulega heldur er þetta almenn skoðun og óháð aðstæðum. Ég tel að slíkt væri mun betur til þess fallið að skapa lifandi kirkju sem lætur sig samfélagsmál varða með sínum hætti. Trúað fólk þyrfti jafnvel að taka skýra afstöðu sjálft og persónulega til trúarlegra álitaefna í stað þess að skýla sér bak við stofnun, eins og kristilega íhaldið virðist nú reyndar nú þegar farið að verða þreytt á að gera núna þegar stofnunin er þeim ekki alveg að skapi. Það gæti kannski bara stofnað sína eigin kirkju sem stendur vörð um það sem því persónulega finnst vera mikilvæg gildi. Það er augljóst mál að skoðanir á þessum málum sem öðrum eru misjafnar meðal kristinna og þær þarf að takast á um fyrir opnum tjöldum.
Að hamra stöðugt á varðveislu kristilegra gilda er frekar ódýrt þegar því fylgir ekki útlistun á því hver nákvæmlega þessi kristilegu gildi séu nú. Það dugir ekki að vísa bara til þess að við þurfum að hafa Þjóðkirkju til að viðhalda þessum gildum. Það er einfaldlega hugsanaleti að stilla málum upp þannig að þeir sem vilja þjóðkirkju styðji þessi gildi en að þeir sem vilja hana ekki séu á móti þeim. Þar eru ekki á ferðinni frjó átök á markaðstorgi hugmyndanna, ekki samtal um innihald heldur eingöngu form. Oft dettur manni í hug að það sem sé í raun og veru verið að verja sé ríkjandi valdakerfi og að Þjóðkirkjan sé einfaldlega hentugur og nytsamlegur angi af því - og sú staðreynd að íhaldið er núna að hverfa frá henni fyrst útlit er fyrir að hún sé að einhverju leyti að taka sér stöðu gegn valdakerfinu rennir ágætum stoðum undir slíkar hugrenningar.
Hvað sem segja má um að það sé gagnrýni á meðferðinni á hælisleitendum sem loksins vakti kristilega íhaldið til umhugsunar um hvað raunveruleg kristileg gildi séu þá er þetta í raun fagnaðarefni. Þá getum við kannski vonandi farið að ræða þessi gildi af einhverju viti, sem og rætt það hvort við eigum að hafa Þjóðkirkju og þá hvernig henni á að vera háttað, án þess að sú umræða sé smættuð niður í þann heimskulega búning að hún snúist um hvort fólk sé með eða á móti kristni. Þetta snýst einfaldlega um persónulegar meiningar um hvað sé rétt að hið opinbera láti sig varða og hvað ekki.
Klassískir frjálslyndir hugsuðir allt niður í Mill og upp úr hafa verið á því að skoðanir og gildi dafni langbest á frjálsum markaði en staðni og deyji jafnvel við stofnanavæðingu. Viðleitni prestanna í Laugarneskirkju til að taka sér stöðu gegn kerfinu er í raun andóf gegn slíkri stofnanavæðingu og stöðnun. Það sést einmitt á viðbrögðunum; þetta kemur við kauninn á fólki og vekur það til raunverulegrar umhugsunar um hlutverk kirkjunnar og samfélagslega ábyrgð okkar allra almennt.
Hvort sem við viljum Þjóðkirkju eða ekki er ljóst að við getum ekki vikið okkur undan ábyrgð á því að hafa skoðun á hlutverki kirkjunnar og trúarbragðanna í samfélaginu. Það dugir ekki bara að berja sér á brjóst og segjast styðja Þjóðkirkjuna og þannig skipa sér með ódýrum hætti í hóp þeirra sem standa vörð um kristileg gildi. Ekki er heldur nóg að kvarta og kveina yfir einhverjum 'árásum' á Þjóðkirkjuna til að skipa sér í sama hóp. Það er einfaldlega búið spil núna.
Við þurfum að hugsa dýpra. Málin eru ekki svona einföld sem betur fer. Hafi Kristín Þórunn og Toshiki mikla þökk fyrir að minna okkur á það.
Athugasemdir