Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Þjónn, það er slikja á nándinni minni

Þjónn, það er slikja á nándinni minni

Ímyndaðu þér að þú lendir í slysi sem veldur breytingum á þeim stöðum í heilanum þínum sem skynja tónlist. Eftir slysið hljómar hún öðruvísi en áður og þú getur ekki notið hennar á alveg sama hátt. Breytingin er óþægileg en hún er hins vegar lúmsk og það er erfitt að lýsa henni í orðum. Þegar þú reynir að tala um þessa breytingu á fólk erfitt með að skilja þig af því þú hefur ekki réttu orðin - og þá er kannski bara einfaldast að láta eins og ekkert sé og lifa með þessu.

Ímyndaðu þér síðan hvernig það væri að hafa lent í þessu sem barn, áður en þú fórst að sökkva þér almennilega ofan í tónlist og finna þinn smekk. Þú þekkir ekkert annað en þína eigin skynjun og hefur á fullorðinsárum ekki einu sinni mikinn samanburð við hvernig hún var áður. Hvernig geturðu vitað nákvæmlega hvernig hún er öðruvísi en annarra? Hvaða orð ætlarðu að nota til að lýsa muninum á sjálfum þér og öðrum þegar þú þekkir bara hvernig þetta er hjá þér? Áskorunarefnin þarna eru þeim mun meiri og freistingin til að sleppa því að reyna enn sterkari. Það er nú ekki eins og það sé nóg annað í lífinu en tónlist og þú getur þó allavega hlustað á hana þó það sé ekki á sama hátt og aðrir. 

Áhrif kynferðisofbeldis á þann þátt sálarlífsins sem snýr að tilfinninganánd eru svona. Það er erfitt að færa þau í orð en ein leið væri að segja að það leggist einhvers konar slikja á nándina. Hún verður þyngri og erfiðari. Fólk tekst á við þetta á mismunandi hátt; birtingarmyndir og hliðarkvillar eru margir. Þunglyndi, kvíði, misnotkun vímuefna og aðrar fíknir. Alls kyns erfiðleikar í samböndum, sér í lagi nánum. Svo mætti áfram telja. Þannig að það er meira að segja margt ólíkt með þolendum þó sumt sé líkt. Rétt eins og það eru margar leiðir til að brengla skynjun á tónlist.

Vandamálið er síðan að þetta er þáttur mannlífsins sem er svo erfitt að hundsa alfarið. Þetta er grundvallaratriði í lífi sérhverrar manneskju og hefur áhrif á svo margt annað. Þú getur reynt að hundsa þetta en þetta kemur alltaf aftur. Tónlist er út um allt en tilfinningasambönd eru jafnvel ennþá meira 'út um allt'.

Kynferðisofbeldi hefur stundum verið kallað sálarmorð. Sumum finnst það of dramatískt og svartsýnt. Ég get alveg tekið undir það - sálin er ekki dáin en hún er löskuð. Það er alltaf von og skaðinn af kynferðisofbeldi, ef hann er meðhöndlaður rétt, er aldrei varanlegur þó hann sé þrálátur og svo, svo lúmskur.

Það er síðan kerfisbundið ofbeldi ofan á hið upphaflega ofbeldi þegar þolandi fær ekki nauðsynlegt svigrúm og stuðning við að takast á við skaðann. Sem betur fer er samfélagið að þroskast og opnast verulega að þessu leyti en enn er langt í land. Eina leiðin fyrir okkur sem samfélag til að takast á við þessi vandamál (fyrir utan að gera allt sem við getum til að fyrirbyggja að fólk verði fyrir þessu ofbeldi á annað borð) er að finna leiðir til að tala um þau. Viðurkenna áhrifin og finna réttu orðin yfir þau sem þolendur geta notað til að skilja sjálfa sig gera sig skiljanlega.

Eitt sem er fallegt við þessa nálgun er að fólk sem ekki þarf að takast á við þessa slikju getur lært af okkur sem þurfum að gera það. Að bera saman bækur dýpkar alltaf skilning. Við höfum svo margt að læra hvert af öðru, með okkar ólíku reynsluheima. Við þurfum bara réttu orðin - og slatta af kærleika og samúð. Við getum ekki gert þá kröfu að við skiljum alltaf hvert annað en það er lágmark að reyna.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni