Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Hugleiðsluhálftíminn

Hugleiðsluhálftíminn

Ég hef núna um nokkurra mánaða skeið tekið frá hálftíma á hverjum degi í hugleiðslu. Nánast án undantekninga. Þetta er þrátt fyrir að ég er almennt mjög upptekinn alla daga - eða kannski einmitt nákvæmlega vegna þess.

Sagt er að viðskiptajöfur sem hafði áhuga á auknum afköstum í gegnum hugleiðslu hafi eitt sinn spurt Zen-meistara hvað hann ætti að hugleiða lengi á hverjum degi.

„Einn klukkutíma" var svarið.

Viðskiptajöfurinn spurði hvað hann ætti að gera þetta lengi ef hann hefði hreinlega ekki heilan klukkutíma aflögu.

„Tvo klukkutíma" var þá svarið.

Reynslan kennir nefnilega fljótt að þessum tíma er alltaf vel varið í meiri skýrleika hugans og auknum afköstum. Þetta er þó einföldun - áhrifin eru flóknari en það er erfitt að koma orðum fyllilega að þeim. Í stuttu máli er bara óhætt að segja að þetta borgar sig.

Gjarnan er spurt hvernig eigi nákvæmlega að hugleiða. Ég skil þá spurningu vel en það er samt eiginlega ekki alveg rétta spurningin. Fólki hættir til að gera þetta að enn einu verkefninu sem á að framkvæma með ákveðnum hætti, sem er hægt að standa sig vel eða illa í - og verður að vera einhvern veginn rétt gert. Það er ekki tilgangurinn. Tilgangurinn er þvert á móti að taka smá stund í að vera bara til. Öllum tíma sem fer í hugleiðslu er tíma rétt varið, óháð því hvernig manni 'gengur'.

Markmiðið, svo langt sem það nær, er nefnilega að leyfa hugsunum að flæða í stað þess að festast í þeim. Það er vond aðferð að reyna svakalega mikið að hugsa ekkert, því þá verður það bara enn ein hugsunin - rétt eins og það er vonlaust að hætta að hugsa um bleikan fíl því þá fer hann að fylla hugann.

Hvernig losnar maður þá alfarið við hugsanir, þegar allar slíkar tilraunir búa bara til fleiri hugsanir um að hugsa ekki? Þarna er einmitt kjarni málsins. Þetta er mjög erfitt en hugleiðsla snýst um að prófa samt. Það er gott að hafa til dæmis andardráttinn sem akkeri, færa hugann alltaf þangað ef hann fer að reika. Nota skeiðklukku eða símaapp til að taka tímann og láta vita hvernig honum miðar, hvenær tíminn er búinn. Þrátt fyrir að ég hafi stundað þetta lengi gengur mér samt oft mjög illa að halda huganum bara við andardráttinn. Ég finn hins vegar fyrir miklu minni stífni gagnvart þeirri staðreynd en áður, allt er meira bara alveg eins og það á að vera í hugleiðslunni. Þetta er tilfinning sem fylgir manni úr hugleiðslunni og inn í daglegt amstur.

Það er mikilvægt að hafa góðan grunn þegar maður er sífellt að hugsa, taka ákvarðanir og beita sér. Grunnurinn er byggður með því að taka sér smá tíma á hverjum degi í að vera í stað þess að gera. Það gerir allt hitt aðeins einfaldara.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni