Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Gegn afmennskun

Gegn afmennskun

Baráttukonan unga, Malala Yousafzai, hefur eitt og annað við málflutning forsetaframbjóðenda Repúblikana í Bandaríkjunum að athuga. Í stuttu máli varar hún við alhæfingum í garð múslima og segir að þær muni ekkert annað gera en að skapa fleiri öfgamenn. Hún þekkir baráttuna við öfgarnar á eigin skinni og hefur hlotið Friðarverðlaun Nóbels fyrir hugrekki sitt og fórnir þannig að hún ætti alveg að vita sitthvað um viðfangsefnið.

Malala er múslimi. Hún hefur hins vegar sína eigin sýn á hvað það snýst um og er þar hróplega ósammála öfgamönnunum sem hún berst gegn. Hennar mennska veltur á því að hún fái að skilgreina þessa hluti fyrir sjálfa sig en á móti er hún afmennskuð þegar alhæft er um trúarbrögð hennar og talað er fyrir einhverjum aðgerðum sem eiga að beinast gegn öfgamönnum en bitna í langflestum tilfellum á alsaklausu fólki eins og henni. Það er auðvitað nákvæmlega það sem hryðjuverkamennirnir vilja, að hryðjuverkin hafi keðjuverkandi áhrif sem leiða til meiri öfga og meiri kúgunar.

Tal um t.d. ferðabann á hendur öllum múslimum er ógeðslegt og ólíðandi með öllu. Menn sem berja sér á brjóst yfir slíkum yfirlýsingum eins og um einhverja djarfa og hetjulega tillögu sé að ræða eru einfaldlega fyrirlitlegir aumingjar sem nýta sér hræðslu og fordóma til að mikla sjálfa sig.

Betri jólagjöf fyrir heimsbyggðina væri hins vegar vart hægt að hugsa sér en að fólk hlustaði á Malölu og færi eftir því sem hún leggur til. Þar fer sönn hetja og fyrirmynd.

Óvinurinn er í öfgunum og afmennskandi áhrifum þeirra, sama hvaðan þær koma. Punktur.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni