Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Fjármál sveitarfélaga 2020

Fjármál sveitarfélaga 2020

Þá er komið að hinni árlegu umfjöllun sem lesendur hafa örugglega beðið spenntir eftir - um fjármál sveitarfélaga í ljósi ársreikninga.

Um þetta leyti í fyrra var Covid-faraldurinn í fullum gangi og allar forsendur opinbers rekstrar brotnar. Þetta sést eðlilega á ársreikningum sveitarfélaga fyrir árið 2020. Með fáum undantekningum eru þau rekin í halla. Starfshópur um áhrif Covid-19 á fjármál sveitarfélaga sem minnst var á í síðasta pistli skilaði niðurstöðum sínum þann 28. ágúst og þar kom fram að gert væri ráð fyrir að samanlögð rekstrarniðurstaða sveitarfélaganna yrði 26,6 milljörðum lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir, sem nemur um 8,5% af heildarútgjöldum þeirra árið 2019.

Ekki er hins vegar að sjá að ákalli sveitarfélaganna um aukinn stuðning til að mæta áfallinu hafi verið svarað að fullu, hvorki í aðgerðum í fyrra né nú í ár. Ósætti þeirra má sjá meðal annars í umsögnum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar um síðasta fjárlagaframvarp. Í umsögn borgarinnar er sett mikið púður í að útskýra muninn á stöðu sveitarfélaganna og ríkisins í yfirstandandi kreppu og hvaða áhætta felst í því að styðja ekki við sveitarfélögin af nægilegum krafti - nokkuð sem ætti auðvitað ekki að þurfa að útskýra fyrir þeim sem þekkja eitthvað til opinbers reksturs en það er samt ágætt að einhver skuli taka þetta að sér, þar sem sitjandi ríkisstjórn virðist alls ekki sýna þessu atriði tilhlýðilegan skilning og áhuginn þar á því að taka af alvöru á stöðu sveitarfélaganna virðist takmarkaður.

Enn og aftur læðist því miður að manni sá grunur að þetta áhugaleysi á málefnum sveitarfélaganna sé að miklum hluta til komið vegna þess að 'rangir' flokkar stjórna stærsta sveitarfélaginu sem er Reykjavíkurborg. Orðræðan um að rekstur hennar sé alveg sértækt vandamál hefur nefnilega alls ekkert hljóðnað þrátt fyrir heimsfaraldur og efnahagsáfall. Úr herbúðum Sjálfstæðismanna í borginni heyrast útúrsnúningar og afvegaleiðingar á borð við að vandi borgarinnar sé eingöngu útgjaldavandi af því að tekjur hafi jú aukist milli ára þrátt fyrir faraldurinn. Þar er auðvitað vísvitandi horft framhjá því að vandinn er sá að gefnar forsendur um það hvernig tekjur fylgja útgjöldum eru algjörlega brostnar og að öll sveitarfélög eru að glíma við þetta. Það er almennt vandamál þeirra að tekjur eru ekki að aukast í samræmi við gefnar áætlanir. Í eðlilegu árferði eru bæði tekjur og útgjöld að hækka í samræmi við verðlagsþróun og launaþróun (útgjöld sveitarfélaganna eru fyrst og fremst launaútgjöld og sem kunnugt er þá hafa verið gerðir kjarasamningar sem hafa hækkað laun nokkuð og þá sérstaklega lægstu laun, en hjá sveitarfélögum vinnur töluvert af láglaunafólki) en nú er búið að kippa því samhengi alveg úr sambandi. Það er vandinn sem allir opinberir aðilar horfast í augu við og það eru sameiginlegir hagsmunir þeirra að ekki sé bullað um þá stöðu.

Valið stendur því um að viðhalda halla á meðan þetta áfall gengur yfir (líkt og löggjafinn er búinn að gefa s sveitarfélögunum svigrúm til að gera með því að aftengja tímabundið fjármálareglur sveitarfélaga) eða skera verulega niður. Ekkert sveitarfélag hefur farið niðurskurðarleiðina, ekki frekar en ríkið sem er að reka sig í meira en 250 milljarða árlegum halla en samt sem áður þykist oddviti Sjálfstæðisflokksins geta gert kröfu um að það sé eðlilegt að borgin geri það. Þetta gerir hann auðvitað á grundvelli þess að það er búið að ljúga því markvisst í mörg ár að borgin megi alveg við því að skera niður hjá sér. Minna fer hins vegar fyrir efnislegum tillögum um hvað það er nákvæmlega sem má missa sín svona mikið í rekstrinum og að sjálfsögðu fylgja þessu líka mótsagnakenndar kröfur um að tekjur verði rýrðar enn frekar með skattalækkunum.

Þá er nú til að mynda krafa minnihlutans í Seltjarnarnesbæ um að bilið sé brúað með því að hækka útsvar töluvert raunhæfari - en þar fær ekki einu sinni heimsfaraldur Sjálfstæðismenn þar til að viðurkenna að það sé kannski ekki skynsamlegt að þráast við að hækka útsvar (sem þar á bænum er alveg sérstaklega mikilvægur tekjustofn af því að óvanalega lítið er um atvinnuhúsnæði og því litlar tekjur af því) út frá einhverjum trúarbrögðum um að það bara megi ekki. Reyndar gildir það ekki um alla í þeim flokki; Bjarni Torfi Álfþórsson lagði fram sérbókun við afgreiðslu fjárhagsáætlunar á bæjarstjórnarfundi þar sem segir:

„Það er með nokkrum trega að ég samþykki framlagða fjárhagsáætlun v/2021. Ég er þeirrar skoðunar að rétt hefði verið að hækka útsvar núna til að mæta þörf og styrkja getu okkar til að takast á við þau verkefni sem nú blasa við. Við hækkuðum útsvar í lok árs 2010, þvert á loforð um annað, unnum vel úr því með góðri þjónustu við íbúa og styrktum stöðu bæjarsjóðs, sem síðan gerði okkur kleift að lækka aftur útsvarið.

Við þekkjum öll stöðu bæjarsjóðs og reksturinn síðustu ár. Ástæður hallareksturs eru þekktar og ekki er um að kenna slælegri stjórn, heldur frekar öðrum utanaðkomandi aðstæðum.“

Hér er ég sammála Bjarna Torfa um að ástæður hallareksturs eru fyrst og fremst utanaðkomandi, tengjast margræddri tregðu ríksins til að breyta rekstrarumhverfi sveitarfélaga - og þess þá heldur núna í Covid-kreppunni er ytra umhverfið gríðarleg áskorun. Ég er hins vegar líka algjörlega sammála því að það er rangt að þráast við að beita því tæki sem þó er til staðar til að mæta rekstrarhallanum.  Það er ekki síst vont af því það sendir röng skilaboð um stöðu mála en líklega er það einmitt því mður tilgangurinn, að færa til að mynda ekki meirihlutanum í Reykjavík þau 'vopn' í hendur að geta bent á, réttilega, að staðan sé greinilega þannig alls staðar að það er alls ekkert hlaupið að því né endilega skynsamlegt að fara í niðurskurð til að mæta rekstrarhallanum.

Það er dapurlegt að horfa upp á að sannleikurinn um stöðu sveitarfélaga skuli verða undir nákvæmlega þegar aldrei hefur verið mikilvægara en áður að rétt sé farið með staðreyndir um stöðu mála og að rétt sé brugðist við.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni